Gítar-Konni (1924-2009)

Hákon Þorsteinsson

Hákon Þorsteinsson er einn þeirra fjölmörgu áhugamanna um tónlist sem hafa gefið út plötu komnir á efri ár en hann starfaði aldrei við tónlist á yngri árum.

Hákon (kallaður Gítar-Konni hér fyrrum) fæddist í Reykjavík 1924, var vélvirki að mennt og starfaði mest alla sína starfstíð sem eftirlitsmaður, lengi fyrst hjá Öryggiseftirlitinu en síðar Vinnueftirlitinu þegar það tók við almennu eftirliti með tækjum og vélbúnaði. Sérsvið Hákons voru lyftur og var nafn hans jafnvel nokkuð þekkt þar sem hann kvittaði fyrir eftirlit í lyftum og voru flestar lyftur á höfuðborgarsvæðinu og víðar merktar honum.

Gítar-Konni söng nokkuð og lék á gítar á sínum yngri árum og samdi þá fjöldann allan af lögum, hann virðist ekki hafa starfað með neinum hljómsveitum eða komið fram nema á minni samkomum en var þó síðar trommuleikari hljómsveitar eldri borgara sem bar heitið Vitatorgsbandið. Það var svo á áttræðis afmæli sínu árið 2004 sem hann gaf út fjórtán laga plötu með aðstoð barnabarns síns, Freys Eyjólfssonar tónlistarmanns (Geirfuglarnir, Miðnes o.fl.) en á henni er m.a. að finna nokkuð af frumsömdu efni. Upplag plötunnar var aðeins tvö hundruð eintök enda einungis seld á meðal vina og nákominna en ágóðinn af sölu hennar rann til Umhyggju, félags langveikra barna.

Gítar-Konni lést 2009 á áttugasta og fimmta aldursári.

Efni á plötum