Goðakvartettinn (1972-80)

Goðakvartettinn 1975

Goðakvartettinn var söngkvartett starfandi innan Karlakórsins Goða sem starfræktur var innan fjögurra hreppa í Suður-Þingeyjasýslu, austan Vaðlaheiðar.

Hér er gert ráð fyrir að Goðakvartettinn hafi verið stofnaður um svipað leyti og karlakórinn (1972) en meðlimir kvartettsins munu allir hafa verið starfandi kennarar innan Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði. Í upphafi skipuðu kvartettinn þeir Viktor A. Guðlaugsson fyrsti tenór, Bragi Vagnsson annar tenór, Daníel Björnsson fyrsti bassi og Helgi R. Einarsson annar bassi. Árið 1974 hætti Daníel í kvartettnum og færðist þá Helgi í hans rödd, Robert Bezdék tók hins vegar sæti Helga sem annar bassi. Önnur breyting var á skipan Goðakvartettsins 1976 þegar Bragi yfirgaf hópinn og kom þá Pétur Þórarinsson í stað hans sem annar tenór. Robert sem var tónlistarkennari frá Tékkóslóvakíu var stjórnandi kvartettsins og reyndar karlakórsins einnig allan tímann sem þeir störfuðu.

Goðakvartettinn kom iðulega fram með karlakórnum og þegar Goði sendi frá sér plötuna Kór, kvartett, tríó árið 1974 kom kvartettinn við sögu þar einnig eins og titillinn gefur til kynna. Það sama var uppi á teningnum ári síðar en þá kom út plata undir titlinum Karlakórinn Goði og Goðakvartettinn, þar skiptu kórinn og kvartettinn söngnum bróðurlega á milli sín.

Starfsemi kórsins og þar með kvartettsins lá niðri veturinn 1975-76 þar sem Robert var í heimalandi sínu en er hann kom aftur til Íslands tóku þeir til starfa aftur og störfuðu til ársins 1980, það sama ár kom síðan út platan Bak við tjöldin með Goðakvartettnum sem var tólf laga og gefin út af kvartettnum sjálfum en fyrri plöturnar tvær hafði Tónaútgáfan á Akureyri annast útgáfu á. Lögin tólf voru öll erlend, flest við íslenska texta Viktors en Robert hafði útsett lögin, rétt eins og annað sem Goðakvartettinn hafði sungið. 1990 kom út safnplata í geislaplötuformi með öllum fyrri útgefnum lögum Goðakvartettsins en fyrri plöturnar höfðu þá verið ófáanlegar um árabil, safnplatan bar heitið Sú var tíð.

Goðakvartettinn kom aftur saman árið 2003 í tilefni af þrjátíu ára afmæli kórsins, Robert Bezdék var þá boðið til landsins í tilefni af því en ekki liggur fyrir hvort hinir þrír skipuðu kvartettinn með honum þá.

Efni á plötum