Karlakórinn Goði (1972-80)

Karlakórinn Goði

Karlakórinn Goði

Karlakórinn Goði var fremur óhefðbundinn karlakór sem starfaði á áttunda áratug síðustu aldar, og sendi frá sér þrjár plötur.

Kórinn var stofnaður haustið 1972 og var skipaður söngmönnum úr fjórum hreppum austan Vaðlaheiðar. Goði fékk strax í upphafi tékkneskan stjórnanda, Robert Bezdék sem starfaði þá sem kennari við tónlistarskólann á Húsavík.

Bezdék hafði ekki starfað lengi hérlendis og var því óvanur íslenskum karlakórasöng og þeim sönghefðum og lagavali sem tíðkast hérlendis. Þ.a.l. varð prógram Goða óhefðbundið sé miðað við aðra karlakóra og til að mynda söng kórinn töluvert mikið af slavneskt ættuðum lögum, sem varð til að áheyrendur hrukku við í byrjun en síðan mæltist það ágætlega fyrir. Bezdék útsetti ennfremur sjálfur megnið af efninu.

Alls komu út þrjár hljómplötur með Karlakórnum Goða. Sú fyrsta kom út á vegum Tónaútgáfunnar árið 1974 og bar heitið Kór – kvartett – tríó. Platan hlaut ágæta gagnrýni í vikublaðinu Íslendingi sem kom út á Akureyri, en aðrir dómar birtust ekki um hana.

Næsta plata kom út ári síðar en á þeirri plötu söng kórinn ásamt Goðakvartettnum sem var starfandi innan kórsins og Bezdék stjórnaði líka, sá kvartett hafði reyndar komið við sögu á fyrri plötunni einnig. Platan hét einfaldlega Karlakórinn Goði – Goðakvartettinn, og kom út á vegum Tónaútgáfunnar á Akureyri eins og hin fyrri.

Veturinn eftur útgáfu annarrar plötunnar (1975-76) lá starfsemi Goða niðri en Bezdék var þá í heimalandi sínu, Tékkóslóvakíu. Hann sneri hins vegar til baka árið eftir og hélt áfram með starfið þaðan sem frá var horfið.

Karlarkórinn Goði starfaði til 1980 og alla tíð undir stjórn Bezdék, en um það leyti sem kórinn hætti störfum kom síðasta plata hans út, fyrir jólin 1980.

Þessi svanasöngur kórsins hét Við Ljósavatn og var gefinn út af honum sjálfum en upptökurnar höfðu farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði. Á þeirri plötu naut kórinn aðstoðar nokkurra hljóðfæraleikara af höfuðborgarsvæðinu en á fyrri plötum hans höfðu Þingeyingar að mestu sjálfir séð um undirleik.

Karlakórinn Goði starfaði í um átta ár og naut nokkurrar hylli einkum í heimabyggð, enda segir það nokkuð að þrjár plötur skyldu koma út með honum á ekki lengri tíma. Meðlimir Goða voru yfirleitt á milli þrjátíu og fjörutíu talsins og söng kórinn eðlilega mest á heimabyggð en fór einnig í tónleikaferðir utan héraðs, svosem til höfuðborgarsvæðisins.

Efni á plötum