Grétar Geirsson (1937-)

Grétar Geirsson

Grétar Geirsson eða Grétar í Áshól eins og hann er iðulega kallaður er þekktur harmonikkuleikari í Rangárþingi en hann lék jafnframt með fjölda hljómsveita hér fyrrum.

Grétar er fæddur 1937 í Reykjavík og bjó á höfuðborgarsvæðinu allt þar til hann var um tuttugu og fimm ára gamall. Hann ólst ekkert sérstaklega upp við tónlist en lærði fyrst á munnhörpu áður en harmonikkan tók við, fyrst hóf hann nám í harmonikkufræðunum hjá Bjarna Böðvarssyni (hljómsveitarstjóra og föður Ragnars Bjarnasonar) um tólf ára aldur og var hjá honum um tveggja vetra skeið, og síðar meir lærði hann hjá Georg Kulp. Að öðru leyti má segja að hann sé sjálfmenntaður harmonikkuleikari.

Þegar Grétar var um fermingu hóf hann að leika opinberlega á dansleikjum, ýmist einn eða með öðrum nikkuleikurum eins og títt var þá en fljótlega fór hann að leika með ónefndu tríói og um sextán ára aldur var hann kominn í hljómsveit sem lék á dansleikjum, það var líklega hljómsveit Guðjóns Matthíassonar. Síðar tóku við sveitir eins og Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar sem lék mestmegnis í Þórscafé, og Kátir félagar (sem einnig gekk undir nafninu KF-kvartettinn) en sú sveit lék víða um land. Um það leyti fór hann í búfræðinám á Hvanneyri og lék reyndar með hljómsveit þar innan skólans einnig. Eftir námið á Hvanneyri lék Grétar um tíma með Hljómsveit Aage Lorange í Silfurtunglinu en árið 1961 flutti hann austur í Flóa þar sem hann gerðist vinnumaður í Laugardælum, þar starfaði hann á árunum 1963-65 með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar á Selfossi sem lék víða um Suðurland við miklar vinsældir.

Grétar í Áshól

Árið 1965 urðu kaflaskil í lífi Grétars en þá keypti hann jörðina Áshól í Ásahreppi í Rangárvallasýslu og hóf þar búskap ásamt eiginkonu og lagði því hljómsveitaspilamennsku á hilluna til að sinna bústörfum. Þótt hann væri þá hættur hljómsveitastússinu hóf hann fljótlega aftur að leika einn síns liðs á harmonikkuna fyrir dansi, á hvers kyns samkomum á heimaslóðum og nágrannasveitum, s.s. þorrablótum, söngskemmtunum, kvenfélagsuppákomum o.þ.h. Hann eignaðist rafmagnsharmonikku (cordovox) um miðjan áttunda áratuginn, sem hann notaði mikið í um áratug en það hljóðfæri er á standi og virkar sem hálfgerður skemmtari. Þá gerðist Grétar organisti við Kálfholtskirkju og um leið stjórnandi kirkjukórsins um 1980 og gegndi því starfi í um tvo áratugi, við það tækifæri hóf hann nám í orgelleik hjá Glúmi Gylfasyni á Selfossi. Um líkt leyti hóf hann sjálfur að kenna á harmonikku við Tónlistarskóla Rangæinga.

Grétar hefur verið afar virkur í félagslífi áhugamanna um harmonikkuleik í Rangárþingi, hann var einn af stofnendum Félags harmonikkuunnenda í Rangárvallasýslu (síðar Harmonikufélag Rangæinga) árið 1985 og varð síðan mjög öflugur í því félagi, kom oft fram sem fulltrúi félagsins á landsmótum o.fl. og stjórnaði um tíma hljómsveit innan félagsins, sem gaf t.d. út plötu. Hann hefur jafnframt leikið inn á fáeinar aðrar hljómplötur, m.a. með Árneskórnum, Guðjóni Matthíassyni, Karlakór Selfoss, Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík, Tryggva, Jóni & Sverri, Ara Jónssyni, Karlakór Rangæinga, Sigfúsi Ólafssyni og á plötum með lögum Valdimars Auðunssonar, Sigurðar Sigurðarsonar og Ingibjargar Sigurðardóttur frá Bjálmholti.

Grétar Geirsson var árið 2008 heiðraður fyrir starf sitt í þágu tónlistarinnar hjá S.Í.H.U. (Samband íslenskra harmoniku unnenda) en hann er mjög virtur fyrir framlag sitt innan harmonikkugeirans. Hann er enn í fullu fjöri sem harmonikkuleikari og kemur reglulega fram með hljóðfæri sitt.