Guðmundur Jónsson [1] (1920-2007)

Guðmundur Jónsson

Stórsöngvarinn Guðmundur Jónsson er íslensku þjóðinni minnisstæður af ýmsum ástæðum, auðvitað fyrst og fremst fyrir söng sinn en hann er einn ástsælasti óperusöngvari þjóðarinnar fyrr og síðar, sem sendi frá sér fjölda platna og söng á hundruðum tónleika og óperum hér heima í stað þess að freista gæfunnar úti í hinum harða söngheimi, þá var hann ekki síður þekktur fyrir persónuleika sinn og var hann t.d. frægur fyrir að taka hressilega í nefið á öllum stundum.

Guðmundur fæddist í Reykjavík vorið 1920 og bjó alla tíð í Vesturbænum (utan þess sem hann var við söngnám erlendis) og vildi hvergi annars staðar vera. Hann kom af söngelsku fólki og var söngur mikið iðkaður á æskuheimili hans.

Guðmundur hóf nám í Verzlunarskóla Íslands og þar eru fyrstu heimildir að finna um söngiðkan hans utan heimilis, þar var hann í kór skólans en var reyndar gerður brottrækur þaðan því baritón rödd hans þótti svo sterk að hún yfirgnæfði kórsönginn. Eftir próf úr Verzlunarskólanum lá leið hans til framhaldsnáms í Bretlandi en árið 1941 hófst formlegt söngnám hans, fyrst hér heima hjá Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara en síðan fór hann til framhaldsnáms í söng til Bandaríkjanna þar sem Evrópa var þá lokuð vegna heimsstyrjaldarinnar síðari. Eftir stríð lærði hann einnig við óperudeild Konunglega tónlistarskólans í Svíþjóð (1947), hlaut til þess sænskan styrk, en síðar nam hann einnig í Vín í Austurríki (1959).

Guðmundur hafði sungið fyrst einsöng á skemmtunum hér heima sumarið 1942 og um svipað leyti söng hann í útvarpssal í fyrsta sinn, ári síðar söng hann einsöng með Söngfélaginu Hörpu í kórverkinu Árstíðunum á stórum tónleikum, og fljótlega gekk hann einnig til liðs við Karlakór Reykjavíkur sem hann átti eftir að syngja með í áratugi og marg oft einsöng á tónleikum. Til dæmis söng hann ásamt Stefáni Íslandi með kórnum á sextíu tónleikum á tveggja og hálfs mánaðar tímabili í Bandaríkjunum haustið 1946 á meðan hann var þar í námi en það var í fyrsta sinn sem kór frá Norðurlöndunum fór í söngferð um Ameríku, alls mun Guðmundur hafa sungið einsöng með kórnum á um hundrað og tuttugu tónleikum á söngferli sínum og söng hans má auðvitað einnig heyra á fjölda hljómplatna með kórnum, frægast laga þeirra er án nokkurs vafa Hraustir menn sem varð að eins konar stórsmelli í meðförum Guðmundar og hefur komið út á fjölda safnplatna síðan auk þeirra útgáfa sem Karlakór Reykjavíkur kom að.

Þegar Guðmundur hélt sína fyrstu sjálfstæðu einsöngstónleika árið 1947 í Gamla bíói má segja að hann hafi hitt þjóðina beint í hjartastað því uppselt var á þrettán slíka tónleika þar sem þeir Fritz Weisshappel píanóleikari fluttu efni úr ýmsum áttum. Talað var um að það hlyti að vera einhvers konar met og má segja að eftir það hafi hann átt hug og hjarta íslensku þjóðarinnar.

Guðmundur tuttugu og tveggja ára gamall

Eftir nám hafði Guðmundi boðist ýmis tækifæri og störf við óperuhús erlendis en hann kaus fremur að halda heim og starfa á Íslandi, vera stór fiskur í lítilli tjörn. Þá hafði hann reyndar lítillega kynnst á Svíþjóðarárum sínum því baktjaldamakki sem tíðkaðist í óperuheiminum þar og hann hafði ekki áhuga að taka þátt í slíku. Eina óperuhlutverkið sem Guðmundur söng erlendis var í Kaupmannahöfn árið 1953 þegar hann söng hlutverk Rigolettos í samnefndri óperu en það sama hlutverk hafði verið frumraun hans hér heima í fyrstu óperunni sem sett var hérlendis á svið í Þjóðleikhúsinu tveimur árum áður, og slegið rækilega í gegn. Honum bauðst starf í Danmörku eftir söng sinn þar en hafnaði því einnig til að starfa hér heima.

Árið 1950 söng Guðmundur í fyrsta sinn einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum og það átti eftir að gerast í fjölda skipta, og hann söng á ferli sínum með fleiri hljómsveitum og kórum, meðal annarra eru hér nefnd Þjóðleikhúskórinn, áðurnefnt Söngfélagið Harpa, Söngsveitin Fílharmonía og karlakórinn Svanir svo fáein nöfn séu nefnd. Hann söng jafnframt á fjórða tug óperuhlutverka á ferli sínum, fyrst í Þjóðleikhúsinu og svo í Íslensku óperunni þegar hún tók til starfa en áður hafði hann komið fram í óperettusýningum einnig, þá söng hann jafnframt á annars konar og léttari skemmtunum eins og héraðsmótum, revíum (Bláu stjörnunni m.a.) og hvers kyns tónlistartengdum uppákomum og samkomum.

Fyrst eftir verslunarskólanámið hafði Guðmundur starfað á skrifstofu en frá og með árinu 1954 var Ríkisútvarpið starfsvettvangur hans, fyrst sem fulltrúi á tónlistardeildinni og þar var eitt fyrsta verkefni hans að annast verkefni sem bar heitið List um landið og var að hans frumkvæði, þá fóru listamenn á vegum stofnunarinnar um landsbyggðina og skemmtu fólkinu með ýmsum hætti. Árið 1966 var Guðmundur ráðinn framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins og því starfi gegndi hann til ársins 1985.

Guðmundur starfaði einnig lengi sem söngkennari við Söngskólann í Reykjavík og þótti frábær söngkennari en því starfi gegndi hann fram yfir sjötugs eða yfir þrjátíu ár, hann kenndi þar mörgu mætu og upprennandi sönglistarfólki sem síðar varð þekkt fyrir sönginn, þeirra á meðal má hér nefna Guðrúnu Tómasdóttur, Sigurð Björnsson Kristin Hallsson, Kristin Sigmundsson, Ólaf Kjartan Sigurðsson, Ingveldi Hjaltested, Garðar Cortes, Sigurð Ólafsson og Svölu Nielsen svo aðeins fáeins þekkt nöfn séu hér upp talin.

Útgefnar plötur með söng Guðmundar Jónssonar skipta tugum og sé allt talið, safnplötur og plötur þar sem hann syngur sem gestur, eru þær væntanlega á annað hundrað talsins. Fyrstu plöturnar komu út af því er virðist haustið 1949 (upptökurnar voru gerðar 1945) en það voru þrjár plötur á vegum Hljóðfæraverzlunar Sigríðar Helgadóttur, sem voru jafnframt fyrstu plöturnar sem sú útgáfa stóð að. Alls voru þetta sex lög á þremur 78 snúninga plötum, þar sem Guðmundur söng ýmis lög við undirleik Fritz Weisshappel, þeirra á meðal er Söngur ferjumannsins á Volgu sem hann syngur á rússnesku. Næst komu út þrjár plötur á vegum Fálkans árið 1953 þar sem Guðmundur söng einsöng með Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Sigurðar Þórðarsonar, lögin voru einnig sex talsins í þeim skammti en á einni plötunni var að finna stórsmellinn Hraustir menn sem æ síðan varð eins konar stórsmellur Guðmundar og einkennislag hans. Svo virðist sem sú upptaka hafi verið gerði á Ítalíu.

Guðmundur Jónsson á tónleikum

Á næstu árum komu plötur út reglulega með söng Guðmundar, tveggja laga plata með Heims um ból og þjóðsöng Íslendinga, kom út 1954 á vegum Hljóðfæraverzlunar Sigríðar Helgadóttur en þar lék Páll Ísólfsson undir á orgel. Plata með Guðmundi, Karlakór Reykjavíkur og karlakórnum Vísi á Siglufirði var tilbúin til útgáfu árið 1955 en af einhverjum ókunnum ástæðum kom hún aldrei út.

Árið 1956 komu hins vegar út nokkrar plötur með söng hans, fyrsta er að telja plötu þar sem hann syngur tvö lög ásamt Stefáni Íslandi við undirleik Fritz Weisshappel, en síðan komu einnig út sex lög á þremur plötum sem hann syngur við undirleik Fritz Weisshappel. Fálkinn gaf plöturnar þrjár út en Sigríður Helgadóttir fyrstnefndu plötu þess árs. 1957 kom hann við sögu á tveimur plötum, annars vegar ásamt Karlakór Reykjavíkur en hins vegar ásamt fleiri söngvurum á plötu sem hafði að geyma tónlist úr óperettunni Í álögum, það var líklega í fyrsta skipti hérlendis sem slík plata kom út. Á fyrrnefndu plötunni með Karlakór Reykjavík skal þess getið að meinleg villa var á plötumiða, þar stendur að lag á plötuhlið sé „Nú andar suðrið“ en hið rétta er „Á leið til Mandalay“.

Á þessum tíma voru sjö tommu 45 snúninga plöturnar komnar til sögunnar og 78 snúninga tíu tommurnar liðnar undir lok, það þýddi að í stað þess að plöturnar geymdu einungis tvö lög var nú möguleiki á fleiri lögum á hverri plötu. Árið 1959 komu út fjórar slíkar plötur með Karlakór Reykjavíkur ásamt Guðmundi en þær báru heitið Karlakór Reykjavíkur vol. 1 – vol. 4, með tilkomu 45 snúninga platnanna höfðu plötuumslögin einnig orðið að veruleika og því gátu útgefendur haft heilmikið upplýsingaefni tiltækt – þar á meðal plötutitla auk annarra upplýsinga. Augljóst var að plöturnar, sem voru gefnar út af Fálkanum, voru einnig hugsaðar til útflutnings þar eð upplýsingatexti umslagsins var á ensku, efnið var í bland endurútgáfur af 78 snúninga plötunum og nýrra efni. Þetta sama ár kom einnig út fjögurra laga plata með kórnum þar sem Stefán Íslandi og Gunnar Pálsson komu við sögu ásamt Guðmundi, sú skífa bar titilinn The Icelandic singers. Á næstu fjórum árum komu síðan út þrjár breiðskífur á vegum Karlakórs Reykjavíkur þar sem einsöngvarinn Guðmundur var í stóru hlutverki, fleiri einsöngvarar voru á plötunum einnig en Guðmundur sá eini á þeim öllum, fyrsta skal nefna plötuna The Icelandic singers sem Monitor records gaf út og hafði að geyma erlend lög, sú næsta kom út hjá Fálkanum og fékk titilinn Íslenskir söngvar: Songs of Iceland, og sú þriðja sem kom einnig út á vegum Monitor records (hún er til með tvenns konar plötumiða) hét Songs from Scandinavia: The Icelandic singers conducted Sigurdur Thordarsen (með augljósa villu í föðurnafni Sigurðar Þórðarsonar). Plöturnar voru allar hugsaðar fyrir erlendan markað en sú síðast talda var sérstaklega gefin út fyrir Ameríkumarkað en kórinn hafði farið þangað í söngferðalag með Guðmundi árið 1960. Þess má geta að Sigurður Þórðarson hafði stjórnað kórnum á öllum plötunum sem komið höfðu út fram að þessu í samstarfinu við Guðmund en Guðmundur hafði verið gerður að heiðursfélaga í kórnum fjölmörgum árum fyrr.

Árið 1965 kom loks út plata með Guðmundi einum en slíkt hafði ekki gerst síðan 1956, um var að ræða sex laga smáskífu sem hafði að geyma lög sem sum hver höfðu að vísu komið út áður með honum en þá með Fritz Weisshappel sem undirleikara, að þessu sinni var það Ólafur Vignir Albertsson sem lék með Guðmundi en á plötunni var m.a. finna léttmeti eins og Fyrir átta árum og Ævintýri á gönguför (Úr 50 centa glasinu). Fálkinn gaf þessa plötu út sem og aðra sjö laga smáskífu sem kom út 1967 undir merkjum Karlakórsins Svana á Akranesi en á henni söng Guðmundur eitt lag.

Guðmundur ásamt Guðrúnu Á. Símonar

Fram að þessu hafði Fálkinn gefið út megnið af þeim plötum sem Guðmundur Jónsson hafði komið að en nú var komið að útgáfuþætti Svavars Gests hjá SG-hljómplötum en Guðmundur hafði þá í fáein skipti sungið í útvarpsþáttum Svavars. Árið 1969 kom út tólf laga plata, og þar af leiðandi fyrsta breiðskífa Guðmundar, undir titlinum Guðmundur Jónsson syngur, hjá útgáfunni. Guðmundur hafði fram að því mestmegnis sungið óperu- og einsöngslög á plötum sínum en nú brá við að um eins konar dægurlagaplötu var að ræða sem sló algjörlega í gegn. Auðvitað var óperusöngvarinn Guðmundur ekki að syngja bítla- eða hipparokk í anda tíðarandans heldur léttpopp þess tíma sem höfðaði til flestra, við undirleik hljómsveitar undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar sem vann þá mikið fyrir Svavar. Um helmingur laganna urðu feikivinsæl og hafa með tímanum orðið sígild í meðförum Guðmundar, þeirra fyrst skal nefna upphafslag plötunnar, Eyjólfur en það endurgerði Sniglabandið löngu síðar og gerði einnig vinælt. Lög eins og Klukkan hans afa, Það er eins og gerzt hafi í gær, Lax, lax, lax og Jón tröll urðu einnig afar vinsæl og heyrast enn reglulega en hér er fullyrt að tvö þau síðast töldu megi teljast til fyrstu íslensku rapplaganna, þótt hugtakið „rapp“ kæmi ekki til sögunnar fyrr en rúmlega áratug síðar vestur í Bandaríkjunum. Textarnir við Klukkuna hans afa og Það er eins og gerzt hafi í gær voru eftir Guðmund sjálfan sem sýndi þarna á sér nýja hlið en lög og textar komu annars úr ýmsum áttum, langflest erlend. Á plötunni er m.a. að finna lagið Bernskunnar spor (Love of the common people) sem síðar varð stórsmellur í meðförum Paul Young. Platan seldist gríðarlega vel og hefur síðan verið endurútgefin nokkrum sinnum – með mismunandi plötuumslögum.

Árið 1969 tók Einsöngvarakvartettinn til starfa en hann var hugmynd Svavars Gests eins og svo margt annað, Guðmundur var einn kvartett-meðlima sem kom fyrst fram í sjónvarpi en síðan reglulega til ársins 1978 að öllum líkindum, kvartettinn gaf út tvær plötur, annars vegar sem bar nafn hans (1972) og hins vegar Einsöngvarakvartettinn syngur lög Inga T. Lárussonar (1978). Einsöngvarakvartettinn naut fádæma vinsælda eins og margt annað sem Guðmundur kom að.

Árið 1971 kom út enn ein platan þar sem Guðmundur var í aðalhlutverki sem einsöngvari með Karlakór Reykjavíkur, þessi plata var hluti af útgáfuröð sem SG-hljómplötur hélt utan um, um íslensk tónskáld en kórinn söng inn á fjölmargar slíkar plötur. Þessi plata hafði að geyma lög eftir Árna Thorsteinsson. Og SG-hljómplötur héldu áfram að gefa út plötur þar sem Guðmundur kom við sögu, árið 1975 komu út tvær plötur og hét sú fyrri einfaldlega Lúðrasveit Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson en á henni flutti sveitin undir stjórn Páls P. Pálssonar þrettán lög úr ýmsum áttum en Guðmundur söng einsöng í fimm þeirra. Hin platan kom út fyrir jólin og bar heitið Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson en á henni sungu þau samstarfsfélagar úr óperuheiminum tólf jólalög í léttari kantinum, í anda plötunnar sem kom út með Guðmundur 1969. Mörg laganna hafa orðið klassísk í flutningi þeirra Guðrúnar og Guðmundar og margir telja það ómissandi hluta af jólahaldinu að hlusta á plötuna í aðdraganda hátíðarinnar ár hvert. Lögin eru öll erlend en við texta m.a. Jóhönnu G. Erlingsson og Ólafs Gauks en sá síðarnefndi stjórnaði jafnframt hljómsveitarundirleik á plötunni. Þetta sama ár kom út tvöföld tónleikaplata með Karlakór Reykjavíkur, The Icelandic singers: Live concert sem hafði að geyma upptökur frá ferð kórsins til Mið-Evrópu með þremur einsöngvurum, þ.á.m. Guðmundi, þessi plata fór ekki hátt enda var hún gefin út í einungis þúsund tölusettum eintökum, árituð af kórstjóra og stjórn kórsins og seld dýru verði til styrktar kórnum.

Guðmundur Jónsson

Árið 1982 sendu SG-hljómplötur frá sér safnplötu með söng Guðmundar, Einsöngslög og óperuaríur en upptökurnar á þeirri plötu voru frá ýmsum tímum og höfðu að öllum líkindum ekki komið út annars staðar, megnið af þeim voru væntanlega úr fórum Ríkisútvarpsins, þær elstu frá 1953, enda mun vera þar til ógrynni upptaka með söngvaranum sem hafði sungið í ótal skipti í útvarpssal efni af ýmsu tagi. Hluti þeirra upptaka var nýttur enn frekar í stórri og veglegri „heildarsafns-útgáfu“ sem kom út árið 1990 í tilefni af sjötugs afmælis Guðmundar, þá var útgáfurétturinn af efninu kominn í eigu hljómplötuútgáfunnar Steinars hf. sem gaf út annars vegar fjórar safnplötur undir titlunum Metsölulög, Hljóðritanir frá fyrri árum, Atriði úr óperum og Hljóðritanir frá síðari árum, og hins vegar sem fjögurra platna heildarpakki undir titlinum Hljóðritanir 1945-1990.

Síðan 1990 hefur þótt ótrúlegt megi virðast ekki komið út ferilsafnplata með söng Guðmundar og því er efni með honum vandfundið nema á streymisveitum á netinu. Söngur hans hefur hins vegar margsinnis komið út á safnplötum með blönduðu efni, meðal þeirra safnplatna má nefna Svona var 1953 (2005), Svona var 1969 (2008), Á sjó (1971), Óskalög sjómanna (2007), Óskalögin 2 (1998), Gullöld íslenzkra söngvara: The golden age of icelandic singers (1962), Óskastundin (2002) og Það gefur á bátinn (1981). Jólalög með Guðmundi hafa jafnframt komið út á slíkum safnplötum og einnig hefðbundnum jólaplötum öðrum, þeirra á meðal má nefna Jólasnjór (1979), Hvít jól (1985), Gott um jólin (2004), Gleðileg jól (1970) og Manstu gamla daga?: jólalögin (2009). Einnig má hér nefna safnplötur með einsöngslögum, Ég leitaði blárra blóma (1981), Söngvar frá Íslandi 1 og 2 (1960), Söngvasjóður (1993), Einsöngsperlur (1978) og Íslenskar söngperlur (1991).

Enn eru ónefndar plötur sem Guðmundur söng inn á en tilheyra öðrum listamönnum og eru ekki eiginlegar safnplötur, hér má nefna plöturnar Söngkveðjur: Lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti en þar söng Guðmundur fjögur lög (1983), Tónlist Gunnars Thoroddsen (sem Einsöngvarakvartettinn söng á) (1983), Guðrún Á. Símonar & Þuríður Pálsdóttir – Endurminningar úr óperum (1981), Róbert A. Ottósson: Im memoriam (1979), Lög eftir Þórarin Guðmundsson sungin og leikin (1978), Páll Ísólfsson – Alþingiskantata við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar (1969), Söngveisla: Ólafur Vignir Albertsson og 43 söngvarar (2017), Stefán Íslandi – Áfram veginn þar sem Guðmundur söng fjögur lög (1987) og Undurfagra ævintýr: Lög Oddgeirs Kristjánssonar (1991).

Guðmundur Jónsson 1980

Af þessari umfjöllun að dæma var Guðmundur Jónsson afar vinsæll og farsæll söngvari og vílaði ekki fyrir sér að þreifa fyrir sér með ýmsa strauma og stefnur á ferli sínum, allt frá dægurlaga- til óperusöngs og sjálfsagt má rekja vinsældir að einhverju leyti til þess, en kannski fyrst og fremst fyrir að yfirgefa aldrei föðurlandið til að leita frama erlendis heldur starfa hér á landi. Guðmundur var alltaf duglegur að koma fram opinberlega og söng á hundruðum tónleika ýmist einn eða með öðrum söngvurum enda fór hann margoft í tónleikaferðir út á land um og eftir miðja öldina, þegar hann var hylltur með stórtónleikum á tímamóta afmælum sínum, t.d. á sextugs- og sjötugs afmælum sínum tók hann sjálfur lagið. Vinsældir Guðmundar fólust ekki síður í hversu alþýðlegur hann var og hann var frægur fyrir að bjóða mönnum í nefið með orðunum „fáðu þér í nefið elsku kallinn!“. Því var hann einnig vinsæll meðal skemmtikrafta og eftirherma þeirra tíma sem notuðu þennan frasa í hvívetna, Guðmundur var einnig þekktur fyrir rólyndi sitt og stressleysi og um leið fyrir húmor sinn og hressleika og sagði í blaðaviðtali á efri árum að hann hefði einungis fjórum sinnum skipt skapi. Guðmundur fékkst við meira en söng og söngkennslu, hér að ofan var nefnt að hann hefði ort tvo texta fyrir plötu sína sem kom út 1969 en hann þótti hagmæltur, Guðmundur fékk einnig við þýðingar og mun hafa þýtt bæði óperettur og óperur á sínum tíma.

Guðmundur var orðinn nokkuð lélegur til heilsunnar undir það síðasta og þegar hann var hylltur með heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna í upphafi árs 2006 var hann studdur af fóstursyni sínum, Guðlaugi Óttari Kristinssyni en það var einmitt á plötu Guðlaugs, Dense time (2005) sem Guðmundur söng í síðasta skipti inn á. Guðmundur hafði einnig hlotið fálkaorðuna árið 1978 auk fleiri viðurkenninga fyrir störf sín að tónlistar- og menningarmálum.

Guðmundur lést haustið 2007 en hann var þá orðinn áttatíu og sjö ára gamall.

Efni á plötum