Guðrún Jacobsen (1930-2022)

Guðrún Jacobsen

Guðrún Jacobsen rithöfundur (fædd 1930) var fleira til lista lagt en ritstörf, hún var drátthög, málaði og hélt málverkasýningu en var einnig músíkölsk, söng og samdi tónlist.

Sem barn hafði Guðrún sungið með barnakórnum Sólskinsdeildinni og á árunum eftir stríð söng hún með Hljómsveit Karls Jónatanssonar í Mjólkurstöðinni, og e.t.v. fleiri sveitum. Þá kom hún einnig fram á skemmtunum Bláu stjörnunnar, m.a. í óperettunni Vaxbrúðunni í leikstjórn Indriða Waage, hún mun einnig hafa sungið stöku sinnum í útvarpi og þá við eigin gítarundirleik. Guðrún söng jafnframt lengi vel með kórum, t.a.m. í Pólýfónkórnum, Þjóðleikhúskórnum og Dómkórnum, söng þá einnig einsöng við jarðarfarir en hún hafði lært söng um skeið hjá Sigurði Demetz. Guðrún samdi einnig tónlist, hún tók þátt í danslagakeppnum SKT og söng þá lög sín oft sjálf, og annarra líka í þeim keppnum. Meðal laga eftir hana má nefna Kossavalsinn og Ástaróð sjómannskonunnar.

Guðrún er þó vafalaust þekktust fyrir ritstörf sín, ritaði nokkrar skáldsögur og smásögur og var fastur gestur lesendasíðna dagblaðanna með aðsendar greinar. Hún lést vorið 2022.