Guðrún Böðvarsdóttir (1902-36)

Guðrún Böðvarsdóttir

Guðrúnu Böðvarsdóttur var margt til lista lagt og afrekaði heilmikið þótt hún lægi sjúk af berklum lungann úr ævinni, eftir hana liggur m.a. þekktur sálmur.

Guðrún var fædd á Rafnseyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð 1902 en fluttist til Reykjavíkur ásamt móður sinni þegar foreldrar hennar skildu. Bræður hennar tveir voru Ágúst og Bjarni sem báðir eru þekkt nöfn í íslenskri tónlist þótt með ólíkum hætti sé, Ágúst sem textahöfundur sem samdi marga þekkta dægurlagatexta en Bjarni sem tónlistarmaður og hljómsveitarstjóri og faðir Ragnars Bjarnasonar. Guðrún var einnig tónlistarhæfileikum gædd, lærði á píanó og samdi einnig nokkur lög og ljóð. Þekktast laga hennar er sálmurinn Á föstudaginn langa sem flestir þekkja undir nafninu Ég kveiki á kertum mínum, við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Fjölmargir listamenn hafa sungið lagið inn á plötur s.s. Ásgerður Júníusdóttir, Anna Pálína Árnadóttir, Ellen Kristjánsdóttir og Ólöf Kolbrún Harðardóttir en auk þess hafa nokkrir kórar gefið út sálminn á plötum. Einnig má nefna sálminn (og ljóðið) Ég er að byggja bjarta höll, sem kammerkór Akureyrar, Hymnodia hefur sungið.

Guðrún lá meiri hluta ævi sinnar á Vífilsstöðum veik af berklum sem að lokum drógu hana til dauða síðsumars 1936 en hún var þá aðeins þrjátíu og fjögurra ára gömul. Nokkrum árum eftir andlát hennar var gefin út bók (Dul og draumar) sem hafði að geyma drauma hennar og vitranir sem hún hafði sjálf skráð. Þess má geta að bæði Ágúst bróðir hennar og Vilhjálmur frá Skáholti ortu minningarljóð um Guðrúnu.