Gunnar Friðþjófsson (1955-2008)

Gunnar Friðþjófsson

Hafnfirðingurinn Gunnar Friðþjófsson var töluvert áberandi í íslenskri tónlist um miðjan áttunda áratuginn, þá bráðungur. Hann fluttist hins vegar af landi brott og sinnti tónlistinni lítið eftir það þar til 2007 þegar plata kom út með honum og hljómsveit sem virðist hafa verið starfandi á Bali.

Gunnar fæddist 1955 og var Hafnfirðingur eins og segir í upphafi. Árið 1973 vakti hann athygli ásamt nokkrum félögum sínum sem endurvöktu Leikfélag Hafnarfjarðar en hann var þá einungis átján ára gamall, hópurinn samdi og setti á svið barnaleikrit sem bar titilinn Sannleiksfestin og samdi Gunnar lögin og textana við leikritið, þau komu svo út á plötu hjá SG-hljómplötum ári síðar. Um það leyti var hann farinn að kom heilmikið fram ásamt félaga sínum Halldóri Guðjónssyni undir nafninu Gunni & Dóri (Gunnar og Dóri) og lítil tveggja laga plata leit dagsins ljós með þeim félögum 1975 sem vakti einnig nokkra eftirtekt.

Á svipuðum tíma starfaði hann með söngflokknum Tríóla (1974) svo var hann meðal flytjenda á safnplötunni Hillingar, sem Geimsteinn gaf út árið 1976, átti þar tvö lög. Enn kom hann við sögu í tríói sem bar nafnið Bónus en það var einhvers konar afrakstur vinnu innan félags ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, sem Gunnar var í forsvari fyrir um þetta leyti. Bónus gaf einnig út plötu (fjögurra laga) árið 1978, og um það leyti var hann að semja lítillega með Færeyingnum Elis Poulsen sem þá var að vinna að plötu á Íslandi. Af ofangreindu má ráða að Gunnar hafi farið mikinn þarna í kringum miðjan áttunda áratuginn, rétt rúmlega tvítugur að aldri.

Segja má að Gunnar hafi horfið jafn snögglega úr tónlistarlífinu og hann hafði birst, hann hafði lært garðyrkjufræðinginn hér heim og fór svo til Svíþjóðar í nám árið 1978 og eftir það má segja að hann hafi ekki sést á Íslandi. Hann fluttist til Noregs þar sem hann rak m.a. útvarpsstöð um tíma og á nýrri öld, árið 2002 fluttist hann til Bali og opnaði þar veitingahús sem bar nafnið DeliCat, og naut mikilla vinsælda. Árið 2007 kom síðan út plata með honum, Gunnar & the Delicat‘s – Life is jo jo en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar hvernig sú plata kom til. Ári síðar, vorið 2008 var Gunnar allur, lést aðeins fimmtíu og tveggja ára gamall eftir stutt veikindi.

Efni á plötum