Bónus (1976-79)

Bónus

Bónus, einnig kallað Söngtríóið Bónus, Bónus-tríóið og jafnvel Tríó Bónus, starfaði innan jafnaðarmannahreyfingarinnar, skemmti á samkomum og gaf út fjögurra laga plötu á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar.

Upphaflega var Bónus dúett en Gunnar Friðþjófsson og Ingveldur Ólafsdóttir hófu að koma fram á samkomum ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði haustið 1976 með söngatriði undir þessu nafni. Fljótlega eftir áramótin 1976-77 bættist Jóhanna Linnet (Bjarnadóttir) í hópinn og eftir það var um tríó að ræða.

Bónus kom fyrst fram opinberlega sem tríó á árshátíð Alþýðubandalagins í febrúar 1977 og skemmti oft á samkomum á vinstri vængnum, yfirleitt með pólítískum baráttusöngvum (m.a. frumsömdum) en einnig þjóðlögum. Þá kom tríóið aukinheldur fram á almennum skemmtunum og var til að mynda meðal skemmtikrafta á útihátíðinni Rauðhettu ´77 sem haldin var við Úlfljótsvatn um verslunarmannahelgina. Þá um sumarið fóru þau einnig til Finnlands og skemmtu á þingi alþýðuflokka og verkalýðssamtaka á Norðurlöndunum.

Tríó Bónus

Bónus sendi frá sér fjögurra laga plötu vorið 1978 sem var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, helgum pólítískum baráttusöngvum en Gunnar samdi þrjú laganna, tveir textanna voru eftir Lárus Sólberg Guðjónsson og tveir eftir þjóðskáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Einn dómur birtist um plötuna, hann var í tímaritinu Halló og var fremur neikvæður.

Platan fór ekki hátt, var seld í upphafi á skrifstofu jafnaðarmanna í Hafnarfirði og síðan í plötubúðum en þegar tríóið fór til Svíþjóðar á ungkratamót sumarið 1979 tóku þau að sögn hundruð eintaka af plötunni með sér og seldist það upplag upp í þeirri ferð.

Annars kom Bónus minna fram á opinberum vettvangi eftir að platan kom út og hætti líklega alveg eftir Svíþjóðarferðina sumarið 1979.

Efni á plötum