Gunnar Ormslev (1928-81)

Gunnar Ormslev

Gunnar Ormslev saxófónleikara má telja meðal máttarstólpa íslenskrar djasstónlistar á upphafsárum hennar en stundum er sagt að hann hafi komið með djassinn með sér til Íslands frá Danmörku, þar er kannski ofsögum sagt en það breytir því ekki að hann átti stóran þátt í öflugu djasslífi hér á landi á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Aðeins eitt lag kom út í hans nafni meðan hann lifði en ýmislegt fannst af upptökum þegar menn hófu leit að efni til að vinna plötu í minningu hans snemma á  níunda áratugnum en Gunnar lést aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall árið 1981.

Gunnar Ormslev var hálf danskur, átti danskan föður en íslenska móður, hann fæddist í Danmörku og bjó í Kaupmannahöfn þar til í stríðslok að hann kom til Íslands sumarið 1945 í heimsókn og svo fluttist hann hingað endanlega snemma árs 1946 átján ára gamall. Hann hafði kynnst djassinum í Danmörku þrátt fyrir uppgang nasista sem höfðu ráðist inn í landið í stríðsbyrjun, leikið þar í hljómsveit með nokkrum félögum sínum á altsaxófón, og þar sem hann bjó og starfaði við apótek í Hafnarfirði komst hann í kynni við nokkra djassáhugamenn þar í bæ. Þeirra á meðal var trommuleikarinn Guðmundur Steingrímsson og hóf Gunnar að leika með honum og félögum hans í hljómsveit sem þeir kölluðu Ungir piltar, fljótlega var sú sveit lögð niður og Gunnar stofnaði nýja sveit ásamt Guðmundi, Eyþóri Þorlákssyni og fleirum undir nafninu GO kvartett (síðar GO kvintett). Sveitin spilaði í Gúttó (Góðtemplarahúsinu) í Hafnarfirði og spurðist fljótlega út að þar væri á ferð hörkusveit og gerðu menn sér ferð úr höfuðborginni í Hafnarfjörðinn til að líta hana augum, um haustið var sveitin ráðin í Mjólkurstöðina við Laugaveg og þar naut hún strax mikilla vinsælda og hafði heilmikil áhrif á tónlistarlífið í bænum.

Alt-saxófónleikur Gunnars vakti athygli og hann hóf að leika með Hljómsveit Björns. R. Einarssonar sem þá var vinsælasta sveit landsins (stofnuð 1945) en hún er almennt talin fyrsta alíslenska djasshljómsveitin sem starfaði hér á landi, Gunnar staldraði ekki lengi við í sveit Björns því hann var þá ekki orðinn meðlimur í FÍH (Félagi íslenskra hljómlistarmanna) en þegar því hafði verið kippt í liðinn byrjaði hann aftur í sveitinni haustið 1948, í millitíðinni lék hann um tíma með KK-sextettnum og þá færði hann sig yfir á tenór-saxófóninn sem upp frá því varð hans aðal hljóðfæri, Gunnar var sjálfmenntaður í fræðunum og síðar sagði Kristján Kristjánsson (KK) frá því í blaðaviðtali að hann hefði ekki kunnað að lesa nótur í upphafi en lært það á fáeinum dögum. Hann lék síðan einnig á klarinettu og flautu.

Á þessum tíma voru djasskvöld tíð og jam session ómissandi hluti slíkra kvölda, Gunnar kom þá að stofnun Jazzklúbbs Íslands og varð virkur í því starfi. Fjölmargir erlendir gestir heimsóttu klakann þá og síðar og lék Gunnar með mörgum þeirra, s.s. Friedrich Gulda, Lee Kontz, Tyree Glenn, Ronnie Scott o.fl. Til stóð að Gunnar myndi leika með bassaleikaranum Bob Magnusson sem hingað kom árið 1980 en hann var þá veðurtepptur erlendis svo ekki varð úr því. Sagan segir jafnframt að Gunnar hafi á sínum tíma „djammað“ með Stan Getz í Danmörku og Count Basie í Svíþjóð hvað sem til er í því.

Á forsíðu Jazzblaðsins

Gunnar varð feikivinsæll tónlistarmaður og þótti snemma afar fær í sínu fagi, hann var í fjölmörg skipti kjörinn saxófónleikari ársins þegar Jazzblaðið og fleiri stóðu fyrir slíkum kosningum, og jafnvel þegar öllum flokkum var skipt út fyrir einn var hann kjörinn besti tónlistarmaðurinn. Svo mun einnig hafa verið áður en hann fékk inngöngu í FÍH að hann fékk langflest atkvæði í slíkri kosningu en nafn hans var strikað út þar sem hann var ekki gjaldgengur. Þess má geta að Gunnar fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1949.

Gunnar lék með Hljómsveit Björns R. Einarssonar við miklar vinsældir til ársins 1951 og innan þeirrar sveitar var eins konar „pásuband“, GÁG tríóið skipað þeim Gunnari, Árna Elfar og Guðmundi R. Einarssyni, sem vakti nokkra athygli einnig.  Þá tók við nokkurs konar millibils ástand þar sem hann lék með hinum og þessum sveitum, s.s. hljómsveitum Carls Billich og Braga Hlíðberg en um það leyti starfrækti hann einnig eigin sveit, sem starfaði með hléum næstu áratugina – misstórar og skipaðar mismunandi tónlistarmönnum. Árið 1952 kom út tveggja laga plata (Frá Vermalandi / Kveðjustund) undir nöfnum þeirra Gunnars og Alfreðs Clausen á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur í Vesturveri og var það ásamt því að vera fyrsta platan sem hann lék á, einnig eina platan sem kom út í hans nafni meðan hann lifði.

Vorið 1953 fór Gunnar til Svíþjóðar og starfaði þar með þarlendri sveit um sumarið og það sama ár komu út plötur með söng Sigrúnar Jónsdóttur og Alfreð Clausen þar sem hann lék með hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar, annars lék hann ekki inn á margar plötur þann áratuginn og það var í raun bara ein plata til viðbótar sem hann lék inn á, ásamt Tríói Jóns Páls Bjarnasonar á tveggja laga plötu hinnar sautján ára gömlu söngkonu Helenu Eyjólfsdóttur, árið 1959. Eitthvað var Gunnar farinn að fást við tónlistarkennslu einnig.

Árið 1955 bauðst Gunnari að leika með djasshljómsveit Simon Brehm sem var stórt nafn í djassheiminum enda Svíar þar framarlega í flokki. Hann þekktist auðvitað boðið og hér voru haldnir kveðjutónleikar með Gunnari áður en hann hleypti heimdraganum um vorið, íslensku fjölmiðlarnir slógu þessum fréttum upp í stórfréttir enda var þetta mikil viðurkenning og heiður fyrir Gunnar. Hann lék með Brehm næsta árið og rúmlega það, m.a. á um sjötíu tónleikum sumarið 1955 og í Svíþjóð dvaldist hann uns hann kom aftur heim til Íslands haustið 1956.

Blásið í saxið

Gunnar setti á fót hér heima hljómsveit ásamt söngvaranum Hauki Morthens, sem ýmist starfaði í nafni Gunnars eða Hauks, þessi sveit lék um tíma í Breiðfirðingabúð en saga hennar reis hæst sumarið 1957 þegar hún fór til Sovétríkjanna og lék þar á Heimsmóti lýðræðissinnaðrar æsku og stúdenta þar sem hún vann til gullverðlauna fyrir djasstónlist sína, um var að ræða mánaðar ferð þar sem sveitin lék m.a. fyrir 65.000 manns í Gorkí garðinum í Moskvu. Ári síðar (sumarið 1958) fór sama sveit til Svíþjóðar og lék þar við töluverðar vinsældir, þeir félagar fengu alls kyns tilboð um störf í framhaldinu bæði í Svíþjóð og Danmörku en kusu að halda heim þótt Gunnar hefði helst vilja starfa áfram með sveitina erlendis. Þess í stað kom hljómsveitin heim og lék hér á dansleikjum, í revíusýningum og víðar en einnig lék Gunnar eitthvað með hljómsveit Björns R. Einarssonar ásamt því að leika oftsinnis á djasskvöldum.

Gunnar hélt áfram að starfa með danshljómsveitum fram á miðjan sjöunda en á sama tíma má segja að hafi verið hnignunarskeið í djassinum hér á landi og því minnkaði sú spilamennska all nokkuð, djassinn var þó ekki alveg dauður og árið 1966 leiddi Gunnar sveit sem hitaði upp fyrir söngkonuna Ellu Fitzgerald. Þetta „hnignunarskeið“ varði allt fram á miðjan áttunda áratuginn þegar félagsskapurinn Jazzvakning var stofnaður.

Gunnar lék með KK-sextettnum um tíma, var með sveit í eigin nafni en lék einnig með Hljómsveit Hauks Morthens, sem m.a. fór í Norðurlandareisu árið 1963, það sama ár gekk hann til liðs við hljómsveit Svavars Gests og lék með þeirri sveit á nokkrum plötum með Ómar Ragnarssyni, Önnu Vilhjálms, Berta Möller, Elly Vilhjálms og Fjórtán fóstbræðra. Þá lék Gunnar um skemmri tíma með sveitum Erich Hübner, Reynis Sigurðssonar, Björns R. Einarssonar og Viðars Alfreðssonar en þær voru að líkindum djasstengdari en danshljómsveitirnar. Tilraunir í djassheiminum voru þarna að skjóta upp kollinum og kom Gunnar fram á tónleikum Musica Nova og var með Gunnari Reyni Sveinssyni þegar verk hans, Samstæður var frumflutt á Listahátíð sumarið 1970 – það kom síðar út á plötu en Gunnar átti eftir að eiga þátt í frumflutningi á fleiri verkum Gunnars Reynis Sveinssonar.

Reyndar má segja að lítið hafi spurst til Gunnars á árunum 1966  til 68 en hann dvaldi þá í Danmörku af persónulegum ástæðum og spilaði lítið sem ekkert um skeið, þegar hann var á leið heim til Íslands um sumarið 1968 var hann ráðinn í hljómsveit sem lék á sænsku skemmtiferðaskipi og lék með henni í nokkrar vikur.

Gunnar um 1980

Segja má að frá og með miðjum áttunda áratugnum hafi orðið breytingar á högum Gunnars, fram að því lék hann með nokkrum danshljómsveitum, s.s. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og Hljómsveit Hauks Morthens en smám saman tók djassinn aftur yfir og á sama tíma færðist hann yfir í hljóðversvinnu þar sem hann lék á plötum fjölmargra listamanna í kjölfar þess að hljóðverið Hljóðriti tók til starfa í Hafnarfirði. Auðvitað hafði hann eitthvað leikið með djasssveitum á fyrri hluta áratugarins, t.d. með hljómsveit undir stjórn Þórs Baldurssonar, Jazzmiðlum o.fl. en þegar Jazzvakning var stofnuð var gjörbreyting á og hann var með eigin sveitir á djasskvöldum, lék með Dixielandhljómsveit Árna Ísleifs, 5 jazzmönnum, Kammerjazzsveitinni, Musica quadro o.fl. Þess má jafnframt geta að Gunnar fór margsinnis erlendis að spila á djasshátíðum víða um lönd, jafnvel oft á ári og lék þá t.d. með sveitum eins og Radioens Big Band í Kaupmannahöfn, Hljómsveit Olle Linds o.fl.

Gunnar var einnig virkur í samfélagi djassista og var t.a.m. fulltrúi Íslands um árabil á Nordjazz ráðstefnunni. Hann hafði verið að kenna við FÍH en var á þessum tíma farinn að kenna við tónlistarskólanum í Garðabæ en einnig kenndi hann og stjórnaði við Skólahljómsveit Kópavogs þar sem hann stofnaði og stjórnaði Big bandi, Hornaflokki Kópavogs og Djassbandi Kópavogs, einhverjar þeirra sveita fóru erlendis til að leika á tónleikum og mótum,  þá lék hann vel á annan áratug með Sinfóníuhljómsveit Íslands (frá 1963) og kom stundum fram með henni sem einleikari. Þess er enn ógetið að Gunnar kom oft fram í útvarpi og sjónvarpi, bæði þar sem djasstónlist var leikin en einnig í skemmtiþáttum með annars konar tónlist.

Frá árinu 1975 lék Gunnar á ógrynni útgefinna hljómplatna en Hljóðriti hafði sem fyrr er getið verið tekinn í notkun um það leyti, þetta voru plötur með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Söngflokki Eiríks Árna, Jóhanni G. Jóhannssyni, Haukum, Spilverki þjóðanna, Jakobi Magnússyni, Mannakornum, Júdas, Viðari Jónssyni, HLH flokknum, Brunaliðinu, Silfurkórnum, Pálma Gunnarssyni, Steinku Bjarna, Ólafi Þórðarsyni, Ruth Reginalds, Melchior, Ása í Bæ, Fjörefni, Brimkló, Alfa beta, Halla og Ladda og hljómsveit Guðjóns Matthíassonar svo dæmi séu nefnd.

Gunnar Ormslev

Gunnar lést vorið 1981 eftir stutt veikindi en hann var þá nýorðinn 53 ára gamall, þar með var farinn einn af frumkvöðlum íslensks djasslífs, brautryðjanda sem ekki aðeins var fær blásari heldur einnig hógvær persóna sem varð öðrum hvatning til frekari verka. Honum var e.t.v. best lýst í minningargrein frá Jazzvakningu þar sem hann var kallaður „höfuðsnillingur Íslands-djassins“.

Í raun má segja að fyrst eftir andlát Gunnars hafi mönnum verið almennilega ljóst að leik hans var hvergi að finna á plötu í eigin nafni þó svo að hann hefði leikið á ógrynni hljómplatna, einkum allra síðustu árin. Fljótlega eftir andlát hans hófu Vernharður Linnet og félagar hans í Jazzvakningu að auglýsa og safna efni frá ferli hans og þá fannst ýmislegt merkilegt sem fáa óraði fyrir að væri tiltækt, m.a. upptökur frá Kaupmannahöfn og Moskvu sem og ómetanlegar hljóðritanir frá Kristjáni Magnússyni píanóleikara og fleirum en þær elstu höfðu að geyma tónlist GÁG tríósins frá 1949 en þær yngstu voru frá 1979. Einnig fundust hljóðritanir frá tónleikum Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Tyree Glenn og Lee Konitz, Friedrich Gulda og fleirum sem safnað var á tvöfalda plötu í nafni Gunnars, Jazz í 30 ár sem gefin var út af Jazzvakningu 1983 – um svipað leyti og minningartónleikar voru haldnir um hann í Gamla bíói í tilefni af því hann hefði þá orðið 55 ára en þá var jafnframt stofnaður minningarsjóður um hann, fleiri tónleikar hafa verið haldnir í minningu Gunnars. Platan hlaut alls staðar mjög góða dóma, í Morgunblaðinu, DV, Helgarpóstinum og Þjóðviljanum, hún var síðan endurútgefin á geisladiskum árið 1996, endurhljóðblönduð og aukin að efni (m.a. upptökur frá 1948) og upplýsingum og var talinn mikill fengur í þessum útgáfum enda djasssaga Íslands á vissan hátt skráð þarna í plötuformi.

Gunnar Ormslev má með réttu telja meðal frumkvöðla í íslenskri djasssögu og margir hafa tekið svo sterkt til orða að koma hans til landsins 1946 marki upphaf nútímadjass á Íslandi. Þó svo að aðeins ein 78 snúninga plata hafi komið út með honum á meðan hann lifði hafa varðveist merkilega margar upptökur með honum og komið út í seinni tíð og samferðamenn hans í djassinum lýsa honum sem einum af máttarstólpum tónlistarinnar enda var hann ekki einungis hljóðfæraleikari heldur ritaði hann einnig um djasstónlistina öðrum til fróðleiks í Jazzblaðið, hann starfaði alla tíð sem tónlistarmaður þrátt fyrir að hafa lært tannsmíði á yngri árum og þrátt fyrir að djassinn þyrfti að víkja fyrir öðrum tegundum tónlistar á tímabili leitaði Gunnar bara á önnur mið og lék víða erlendis á sama tíma.

Efni á plötum