
Guðrún Böðvarsdóttir
Í dag eru afmælisbörn Glatkistunnar fimm talsins og eru eftirfarandi:
Birgir Hrafnsson gítarleikari er sextíu og níu ára gamall í dag. Birgir hafði leikið með ýmsum hljómsveitum s.s. Pops áður en hann varð einn liðsmanna Ævintýris. Hann var síðar í Svanfríði, Change, Haukum og Celsius, og hafði jafnvel stuttan stans í sveitum eins og Hljómum, Brunaliðinu og Gildrunni.
Alda Björk Ólafsdóttir söngkona er fimmtíu og fjögurra ára gömul í dag. Hún varð landsþekkt þegar hún söng lög eftir Sverri Stormsker en færri vita að hún var fyrsta söngkona Stjórnarinnar. Síðar flutti hún til Bretlands þar sem hún hóf sólóferil, gaf út plötuna Out of Alda og öllum að óvörum flaug lag hennar Real good time, í sjöunda sæti á breska smáskífulistanum 1999 og veitti henni skerf af fimmtán mínútna frægð. Síðan hefur reyndar lítið spurst til hennar á tónlistarsviðinu.
Jón Jónsson frá Hvanná (1910-63) átti einnig afmæli þennan dag. Hann bjó lengstum á Ísafirði, hafði lært örlítið á píanó en hóf snemma að semja lög. Hann var einn af stofnendum Tónlistarfélags Ísafjarðar, lék með lúðrasveit þar í bæ og starfrækti eigin danshljómsveit en fékk heilablóðfall og lést tíu árum síðar, aðeins 63 ára gamall. Hann samdi m.a. lögin Selja litla og Capri Catarina sem margir þekkja.
Guðrún Böðvarsdóttir var með allra fyrstu tónlistarkonum landsins, spilaði og kenndi á píanó og samdi nokkur lög, þeirra þekktast er sálmurinn Ég kveiki á kertum mínum (Á föstudaginn langa). Guðrún varð ekki langlíf, hún lést úr berklum aðeins þrjátíu og fjögurra ára gömul árið 1936 en hún fæddist 1902.
Síðastan þennan dag skal nefna Sigga Ármann (Sigurð Ármann Halldórsson f. 1973) sem einnig átti þennan afmælisdag. Eftir hann liggja þrjár sólóplötur sem vöktu nokkra athygli en meðlimir Sigur rósar komu nokkuð við sögu á þeim. Sigurður lést vorið 2010 aðeins þrjátíu og sjö ára gamall.