Gunnar Þórðarson (1945-)

Gunnar Þórðarson

Enginn þarf að velkjast í vafa um að Gunnar Þórðarson er eitt allra stærsta nafn íslenskrar tónlistarsögu, klárlega á topp fimm án þess að nokkur dómur sé hér lagður á vægi eins eða neins í því samhengi. Gunnar hefur í ríflega hálfa öld starfað að tónlist, þróast með straumum og stefnum hvers tíma innan hennar og aðlagað sig hverju því sem þurfa þykir. Hann hefur sem gítarleikari, söngvari, útsetjari, upptökumaður og -stjóri, útgefandi en fyrst og fremst sem tónskáld verið í fremstu röð og eftir hann liggja yfir sjö hundruð útgefin lög, ótal plötur í eigin nafni, með hljómsveitum sem margar hverjar hafa hafa notið feikimikilla vinsælda s.s. Hljómum, Trúbrot, Þú og ég, Ríó tríó, Lummunum, Ðe Lónlí blús bojs og Sléttuúlfunum og hefur nú á síðustu árum einnig skapað sér nafn sem klassískt tónskáld ofan á allt annað. Það er því ekkert undarlegt að umfjöllun um hann sé í fyrirferðameiri kantinum á Glatkistunni.

Gunnar Þórðarson fæddist í ársbyrjun 1945 og er Hólmvíkingur en ekki Keflvíkingur eins og margir kynnu að ætla en segja má að hann (ásamt fleirum) hafi komið Keflavík á tónlistarkortið á sínum tíma og að hann beri stærsta ábyrgð á því að talað hefur löngum verið um bítlabæinn Keflavík. Gunnar, sem var næst elstur sjö systkina bjó á Hólmavík til átta ára aldurs, flutti þá með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur þar sem faðir hans fékk vinnu hjá bandaríska hernum.

Gunnar ólst ekki upp við tónlist að neinu ráði á æskuheimili sínu en fyrstu alvöru kynni hans af henni voru af Kanaútvarpinu og það á klárlega stóran þátt í að móta þann suðupott sem gerjaðist á Suðurnesjunum á þessum árum og Gunnar varð hluti af. Hann byrjaði að fikta við gítar (brotinn) sem hafði dagað uppi á heimili hans en fyrsta hljómsveitareynsla hans varð samt sem áður við trommusett en hann lék á trommur í skólahljómsveit í Keflavík. Sú sveit var síðan að Skuggum og þar lék hann á bassa áður en gítarinn varð hans aðal hljóðfæri, Gunnar leikur þó á flest öll hljóðfæri.

Gunnar naut ekki hefðbundinnar tónlistarkennslu en lærði lítillega á gítar hjá Guðmundi Ingólfssyni tónlistarfrömuði í Keflavík sem þá starfrækti hljómsveit í eigin nafni við miklar vinsældir í heimabænum. Gunnar gekk til liðs við þá hljómsveit líklega í byrjun árs 1963 (heimildir eru misvísandi), þá átján ára gamall og fékk þar sína fyrstu alvöru spilareynslu. Þegar Guðmundur ákvað um haustið 1963 að leggja sveit sína niður stofnuðu Gunnar og félagar hans bítlasveitina Hljóma og í þeirri sveit mynduðu þeir Rúnar Júlíusson bassaleikari hryggjarstykkið og var æ síðan talað um fóstbræðurna Gunnar Þórðar og Rúnar Júl en þeir höfðu kynnst ungir drengir í fótboltanum í Keflavík, urðu þar m.a. Íslandsmeistarar í fjórða flokki.

Þeir félagar í Hljómum urðu fljótt feikilega vinsælir og urðu á fáeinum mánuðum vinsælasta bítlasveit landsins. Gunnar hóf að semja tónlist líklega árið 1964 og hefur margoft sagt frá því að hann hafi verið undir miklum áhrifum frá Burt Bacharach, Lennon & McCartney, Stevie Wonder og Brian Wilson í Beach boys en klárlega má heyra enduróminn frá þeim síðast töldu í raddsetningum margra laga Gunnars. Fyrsta lagið sem Gunnar samdi var líklega lagið 79 mílur, instrumental lag, en einnig má nefna Komdu í kvöld sem Hljómar fluttu í útvarpsþætti 1964, einnig voru um það leyti tekin upp lögin Fleygðu ekki neinu í flýti frá þér og Húmið er hljótt en þær upptökur fundust löngu síðar og voru gefnar út ásamt fleiri lögum á safnplötunni Bítlabærinn Keflavík sem kom út á vegum Poppminjasafnsins (síðar Rokksafns Íslands) í Keflavík árið 1998.

Gunnar á Hljóma-árum sínum

Það var svo 1965 að Svavar Gests hjá SG-hljómplötum gaf þeim félögum færi á að gefa út tveggja laga plötu, Svavar valdi tvö frumsamin lög úr hópi 10-15 laga eftir Gunnar en lét Ólaf Gauk Þórhallsson gera texta við þau. Þetta voru lögin Fyrsti kossinn (sem upphaflega hafði borið enska titilinn Caroline) og Bláu augun þín, og komu þau út á smáskífu um vorið. Bæði lögin slógu samstundis í gegn og þar með var Gunnar kominn á kortið sem lagahöfundur en það var síður en svo sjálfsagt að hljómsveitir flyttu sjálfar eigin lög á þeim tíma, gítarleikur Gunnars vakti einnig athygli auk þess sem hann þótti liðtækur söngvari og raddari einnig. Þar með var fyrsta bítlaplatan á Íslandi komin út.

Síðar sama sumar kom út önnur plata, að þessu sinni fjögurra laga og samdi Gunnar þrjú þeirra, Ertu með, Kvöld í Keflavík og Minningin um þig. Þeir félagar fóru um þetta leyti til Liverpool, Mekka bítlsins og léku þá í Cavern klúbbnum en hugmyndir voru þá uppi um verðandi heimfrægð Hljóma hér heima, mest voru það þó fjölmiðlar. Svo fór að sveitin tók upp nafnið Thor‘s hammer og reyndi fyrir sér erlendis um tíma, þeir tóku upp plötu í London og komu að gerð stuttrar kvikmyndar (Umbarumbamba). Undir Thor‘s hammer nafninu komu út nokkur lög (m.a. Memory, Once o.fl.) og þar var Gunnar áfram í aðalhlutverki sem lagahöfundur. Þegar meiktilraunirnar skiluðu ekki tilætluðum árangri tóku þeir félagar aftur upp Hljómanafnið, sendu frá sér stóra plötu haustið 1967 og þar átti Gunnar þrjú laganna (Þú og ég, Heyrðu mig góða og Syngdu) sem öll hafa orðið sígildir stórsmellir líkt og flest laga Gunnars frá þessum tíma. Og fleiri plötur komu út með Hljómum 1968, fjögurra laga smáskífa og tólf laga breiðskífa en Gunnar samdi helming þeirra og meðal þeirra voru stórsmellirnir Ástarsæla, Ég elska alla, Lífsgleði og Er hann birtist. Hann var um það leyti fluttur frá Keflavík til Reykjavíkur þar hann bjó og starfaði síðan.

Eins og vænta má voru þeir félagar í Hljómum orðnir að stórstjörnum í íslenskri popptónlist, fyrstu stjörnur sinnar tegundar og máttu þeir sig hvergi hræra á þeim árum án þess að það vekti athygli. Gunnar og félagar voru framarlega í tónlistaruppgjöri fjölmiðla í kringum hver áramót og Gunnar var t.a.m. nokkur ár í röð kjörinn bæði lagahöfundur og gítarleikari ársins í slíkum uppgjörum.

Gunnar ásamt Tony Hicks úr Hollies

Vorið 1969 urðu þáttaskil í íslenskri tónlist þegar súpergrúppan Trúbrot varð til við samruna Hljóma og Flowers, og í kjölfarið sendi hin nýstofnaða sveit fljótlega frá sér plötu samnefnda henni þar sem Gunnar hafði samið sjö af ellefu lögum. Vinsældir Trúbrots urðu gríðarmiklar og eðlilega varð heilmikið írafár þegar „stóra hassmálið“ komst í hámæli en í Vikuviðtali viðurkenndu meðlimir sveitarinnar að hafa neytt fíkniefna en þá hafði reyndar engin löggjöf verið sett um slík efni. Í kjölfarið var sveitin sett í tímabundið bann á sumum skemmtistöðunum og um líkt leyti fékk hún einnig að kenna á því að útvarpsráði hugnaðist ekki hvernig sveitin útsetti lagið Elskaðu náungann sem byggt var á Pílagrímakórnum úr Tannhauser eftir Wagner, og lagið fékkst því ekki spilað. Eftir á að hyggja urðu þessi atriði einungis til að styrkja sveitina og auka vinsældir hennar.

Ýmis konar innbyrðis átök einkenndu starf Trúbrots en þrátt fyrir það starfaði sveitin til ársins 1973 og sendi frá sér tvær smáskífur og þrjár breiðskífur, hæst ber þar auðvitað plötuna …lifun en á henni var um eins konar samvinnu að ræða í tónsmíðunum en annars var Gunnar yfirleitt allt í öllu þegar kom að því að semja tónlist, Starlight og Ég veit að þú kemur eru t.d. úr fórum hans á þessum plötum.

Á þessum árum var verksvið Gunnars orðið mun víðfeðmara en áður, hann þótti glúrinn útsetjari og var í raun hljómsveitastjóri sveita sinna þótt flestum sýndist hann hógvær og feiminn rólyndismaður út á við, þannig átti hann alveg til að stjórna sveitum sínum með harðri hendi ef þess þurfti og flestir lutu því þótt einhverjir árekstrar kæmu upp.

Gunnar samdi einnig orðið fyrir aðra og fyrsta lagið af slíku tagi var á lítilli plötu hinnar akureysku söngkonu Sigrúnar Harðardóttur, sem kom út 1968, þá var hann ennfremur farinn að útsetja fyrir aðra einnig og var því orðinn mjög virtur á sínu sviði þrátt fyrir að vera rétt skriðinn á þrítugs aldurinn.

Gunnar Þórðarson 1969

Gunnar hafði árið 1970 hafið samstarf við Ríó tríóið sem naut aukinna vinsælda en hann varð þá eins konar fjórði maður tríósins sem gítarleikari og útsetjari þótt hann væri ekki fastur meðlimur þess, hann lék með þeim á stærri tónleikum og meðal annars á breiðskífum sveitarinnar Sittlítið af hvurju (1970), Ég, Gunni og Jónas (1971) og Eitt og annað smávegis (1972). Þegar Trúbrot hætti notaði Gunnar tækifærið og gekk til liðs við Ríóið sem fastur liðsmaður og fór m.a. með sveitinni í þriggja mánaða tónleikatúr til Bandaríkjanna. Ríó tríóið var afar afkastamikil og vinsæl sveit næstu fjögur árin (1973-76) og sendi frá sér hverja stóru plötuna á fætur annarri með Gunnar innanborðs, alls voru það fimm plötur og þar af ein tvöföld tónleikaplata en uppistaðan í prógrammi sveitarinnar voru erlend lög við íslenska texta svo tónskáldið Gunnar var ekki áberandi á þeim plötum.

Samhliða þessu var Gunnar virkur á fleiri vígstöðvum, Hljómar voru endurreistir haustið 1973 í örlítið breyttri mynd en sú sveit hafði þá ekki starfað síðan 1969 þegar Trúbrot var stofnuð. Sveitin sendi frá sér smáskífu og breiðskífu 1974 með enskum textum og samdi Gunnar ríflega helming laganna sem þóttu mun þyngri en fyrri útgáfa sveitainnar hafði sent frá sér, Hljómar nutu því ekki jafn mikilla vinsælda og fyrrum og lá ljóst fyrir að landann þyrsti í popp af léttara taginu og breyttu þeir félagar því nafni sveitarinnar í Ðe Lónlí blú bojs. Undir því nafni sendu þeir frá sér tveggja laga plötu (Diggi liggi ló / Kurrjóðsglyðra) sem sló samstundis í gegn og á nýju ári (1975) kom út breiðskífan Stuð stuð stuð sem hafði að geyma Heim í Búðardal eftir Gunnar, hann átti fáein lög á plötunni en uppistaðan á henni voru erlend lög við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar. Þrátt fyrir vinsældir sveitarinnar spilaði hún hvergi á þessum tíma og segja má að Gunnar hafi þá verið hættur ballspilamennsku að mestu – í bili. Þeir fóstbræður, Gunnar og Rúnar höfðu stofnað hljómplötuútgáfuna Hljóma sem gaf út plötur sveitarinnar 1974 og síðan einnig plötur Ðe lónlí blú bojs.

Þegar hér var komið sögu var Gunnar Þórðarson ekki einungis þekktur sem gítarleikari, lagahöfundur og plötuútgefandi heldur einnig útsetjari, upptökustjóri og sessionmaður í hljóðverum, hann kom t.d. að útsetningum og upptökustjórn á plötum Árna Johnsen, Mána, Magnúsar & Jóhanns og fleiri, og hafði þá jafnframt leikið (og sungið raddir) inn á plötur margra líka s.s. Geirmundar Valtýssonar, Roof tops, Gylfa Ægissonar, Björgvins Halldórsson og Þokkabótar auk framangreindra. Þá voru aðrir einnig farnir að flytja þekkt lög Gunnars, Verzlunarskólakórinn söng lög hans á tónleikum og fleiri kórar fylgdu svo í kjölfarið, 1972 kom út platan Þuríður og Pálmi flytja lög eftir Gunnar Þórðarson þar sem þau hjónakornin sungu lög Gunnars.

Gunnar var um þetta leyti orðinn virtur tónlistarmaður og því gerðust þær raddir æ háværari að hann ætti að vera á listamannalaunum en til þess tíma höfðu einungis „æðri“ tónlistarmenn á Íslandi notið slíkra styrkja. Það varð svo að veruleika 1975 að hann hlaut listamannalaun, þá búinn að starfa sem atvinnutónlistarmaður í áratug og var það mikil viðurkenning fyrir popptónlist á Íslandi, margt var þó óunnið í þeim efnum og er reyndar enn í réttindamálum tónlistarmanna.

Á Trúbrots-árunum

Sem dæmi um þá virðingu sem þessi þá þrítugi tónlistarmaður hafði áunnið sér má nefna að Handknattleikssamband Íslands fékk hann til að stjórna upptökum og vinna tveggja laga plötu með Ómari Ragnarssyni til styrktar handboltalandsliðinu sem þá var á leiðinni á heimsmeistaramót í Austur-Þýskalandi. Gunnar samdi annað lag plötunnar sem margir þekkja, Lalli varamaður (við texta Ómars sem jafnframt söng). Um það leyti var hann einnig fenginn til að semja og vinna tónlist fyrir heimildamynd sem Ríkissjónvarpið lét gera um Ísland, og einnig tónlist fyrir leikhús og sýnir það ágætlega stöðu hans sem tónlistarmanns. Þess má geta að Gunnar var einn fulltrúa Íslands á Nordjass ráðstefnunni en hann setti þá einnig saman hljómsveit sem lék á tónlistarhátíðinni Alternativ music festival í Stokkhólmi vorið 1975 en hún var haldin til að mótmæla Eurovision söngvakeppninni sem um sama leyti var haldin í Svíþjóð og þótti lágmenning, og um leið að vekja athygli á fjölbreytileika evrópskrar tónlistar. Lag með sveit Gunnars er að finna á safnplötunni Alternativ Festival: Levande Musik Från Alternativfestivalen i Stockholm 17-22 mars 1975 sem kom út í tengslum við hátíðina en engan grunaði þá væntanlega að hann myndi sjálfur standa á sviði lokakeppni Eurovision keppninnar og stjórna hljómsveit við flutning á fyrsta framlagi Íslands í keppninni rúmlega áratug síðar.

Gunnar var um miðjan áttunda áratuginn farinn að vinna sína fyrstu sólóplötu og vorið 1975 flutti hann til London, m.a. til að vinna að plötu sinni. Um það leyti var breiðskífa Ðe Lónlí blú bojs að koma út hér heima og var það auðvitað stærsta ástæða þess að sveitin lék ekkert á dansleikjum. Hann fékkst við ýmis önnur verkefni í Bretlandi og eitt af hans fyrstu verkum var að stjórna upptökum og annast útsetningar á plötu Olgu Guðrúnar Árnadóttur – Eniga meniga en lög og textar á þeirri plötu voru eftir Ólaf Hauk Símonarson og var upphafið að samstarfi þeirra tveggja.

Sólóplatan kom síðan út um haustið og bar titilinn Gunnar Þórðarson og var með enskum textum sem hann samdi sjálfur. Fyrsta lag plötunnar, Manitoba naut nokkurra vinsælda en tónlistin var meira í ætt við það sem Trúbrot og Hljómar höfðu verið að gera árin á undan og var því nokkuð tormeltari en Ðe Lónlí blú bojs en sjálfur skilgreindi Gunnar tónlistina sem softrock. Platan hlaut engu að síður ágætar viðtökur gagnrýnenda Tímans, Þjóðviljans og Vísis og seldist ágætlega þótt það væri ekkert í líkingu við plötur fyrrnefndra sveita. Gunnar kom heim til Íslands um jólin ´75 til að fylgja plötu sinni eftir og ætlunin var að hafa stuttan stans en verkefnin hlóðust á hann svo vera hans á fróni varð mun lengri en ella. Hljóma-útgáfa Þeirra Gunnars og Rúnars gaf út nokkrar plötur og m.a. kom út önnur plata með Ðe Lónlí blú bojs (Hinn gullni meðalvegur) fyrir jólin en svo bar við að aðeins eitt laganna tólf á plötunni var eftir Gunnar, það var stórsmellurinn Harðsnúna Hanna en flest laganna voru erlend.

Rúnar Júl, Gylfi Ægisson, Engilbert Jensen og Gunnar að störfum í hljóðveri

Blikur voru á lofti varðandi Hljóma-útgáfuna og samstarf þeirra fóstbræðra, í febrúar 1976 slitnaði upp úr samstarfinu en þá hafði Rúnar annast útgáfumálin heima á Íslandi meðan Gunnar sá um tónlistarvinnuna í London, Gunnari fannst hann bera lítið úr býtum miðað við alla vinnuna og plötusöluna (sem gekk vel) og grunaði Rúnar um eitthvað saknæmt, sem varð síðan til að þeir slitu samstarfinu. Síðar kom í ljós að Rúnar hafði ekkert óhreint í pokahorninu og sættust fóstbræðurnir fullum sáttum og störfuðu saman síðar eins og ekkert hefði í skorist.

Við þennan viðskilnað stofnaði Rúnar útgáfufyrirtækið Geimstein en Gunnar setti á fót eigið fyrirtæki undir nafninu Ýmir. Hann fór í kjölfarið aftur til Bretlands og hélt starfi sínu áfram sem upptökustjóri, útsetjari o.fl. fyrir íslenska tónlistarmenn auk þess að gefa út plötur þeirra. Fyrsta platan undir Ýmis-merkinu var sólóplata Engilberts Jensen fyrrum söngvara Hljóma en einnig komu út fjölmargar eftirminnilegar plötur á vegum útgáfunnar, t.a.m. plata Halla, Ladda og Gísla Rúnars – Látum sem ekkert C en Gunnar á þar stærsta þátt í spilamennsku og hljóm plötunnar.

Mikil gróska var á þessum tíma í íslenskri upptöku- og útgáfusögu, Hljóðriti kom til sögunnar í Hafnarfirði og leiddi af sér marga gullmola en fjölmargir íslenskir tónlistarmenn störfuðu einnig í London um það leyti og t.d. voru þar Magnús & Jóhann, Change og hluti þess hóps sem síðar mynduðu Stuðmenn, það var því oft glatt á hjalla meðal Íslendinganna og margar af þekktustu plötum Íslandssögunnar urðu til í London um og eftir miðjan áttunda áratuginn, þeirra á meðal má nefna Sumar á Sýrlandi og Tívolí Stuðmanna, Change-platan og síðast en ekki síst Einu sinni var: Vísur úr Vísnabókinni en að þeirri plötu unnu Björgvin Halldórsson og Tómas M. Tómasson ásamt Gunnari og breskum session-leikurum fyrir bókaútgáfuna Iðunni, en efni plötunnar var fengið úr Vísnabókinni sem fyrst hafði verið gefin út 1946 við miklar vinsældir en síðan margoft endurútgefin og aukin að efni, hún hafði þá frá upphafi selst í yfir þrjátíu þúsund eintökum. Gunnar samdi nokkur laganna á plötunni (m.a. Ég á lítinn skrýtinn skugga og Komdu kisa mín / Þambara vambara (ásamt Björgvini) og hafði yfirumsjón með verkefninu, þegar hann flutti alkominn heim til Íslands sumarið 1976 kláraði hann plötuna hér heima í Hljóðrita en þar átti hann eftir að vinna mikið næstu árin, og átti reyndar hlut í hljóðverinu um tíma.

Einu sinni var: Vísur úr Vísnabókinni kom út fyrir jólin og varð strax metsöluplata en hún seldist í bílförmum, yfir tuttugu þúsund eintökum áður en árið var liðið, platan hlaut jafnframt prýðilega dóma í fjölmiðlum, mjög góða í Dagblaðinu, Vísi og Æskunni og sæmilega í Alþýðublaðinu en reyndar mjög neikvæða í Þjóðviljanum. Og reyndar var útgáfa plötunnar nokkuð umdeild og í nafnlausu bréfi sem barst Dagblaðinu var Gunnar sagður vera „mesti óvinur íslenskrar popp-tónlistar“, þar var jafnframt gagnrýnt hvernig hann léti framleiðsluformúlu ráða för og reyndi að græða sem mest á lágmenningu – eftirhermuvæl og frumleiki fyrirfyndist ekki. Bréfinu var svarað tveimur dögum síðar af öðrum sem var á öndverðum meiði og í kjölfarið birtust nokkrar greinar um málið – á meðan platan rokseldist. Einnig var platan í umræðunni fyrir að nokkrir tónlistarskólakennarar rituðu Ríkisútvarpinu bréf og vildu láta banna plötuna þar sem gömlu ljóðin væru þarna sungin í nýjum takti (og í nokkrum tilvikum nýjum lögum) sem samræmdist ekki gömlu hefðinni.

Gunnar ásamt Pálma Gunnarssyni á sviði

Gunnar lét umræðuna lítið sem ekkert á sig fá enda hafði hann yfirið nóg að gera í verkefnum, þessi sömu jól kom t.d. út jólaplatan Jólastjörnur sem hann stýrði upptökum á og var allt í öllu, hún var stútfull af jólahitturum sem hittu beint í mark og heyrast spiluð á hverju ári mörg hver – meðal þeirra er Jólasyrpan með Glámi og Skrámi, Silfurhljóm flutt af Björgvini Halldórssyni, Léttur yfir jólin með Ríó og Leppur Skreppur og Leiðindaskjóða en Gunnar samdi síðast talda lagið.

Ðe Lónlí blú bojs hafði verið endurvakin fljótlega eftir að Gunnar sneri heim til Íslands um sumarið ´76 og lék þá eitthvað opinberlega í fyrsta sinn, sveitin sendi frá sér breiðskífuna Á ferð um haustið þar sem megnið af lögunum var erlent við texta Þorsteins Eggertssonar, sjálfur átti hann þrjú lög á plötunni en eitthvað voru vinsældir sveitarinnar farnar að dala þarna.

Gunnar hafði farið til Bandaríkjanna og Kanada að kanna markað fyrir sólóplötu sína þar og stóð til jafnvel að hún kæmi út þar en úr því varð aldrei, eftir þá ferð hafði hann komist í tengsl við bandaríska umboðsmanninn Lee Kramer sem vildi gefa plötuna út vestra með einhverjum breytingum, undir nafninu Ice and fire. Gunnar skrifaði undir samning þess efnis og næstu fréttir voru á þá leið að skífan kæmi út undir merkjum United artists í febrúar 1977 en málið frestaðist trekk í trekk og fjaraði að lokum út þegar samningurinn rann úr gildi.

Árið 1977 hóf Gunnar vinnslu við nýja sólóplötu, hugmyndin var upphaflega að textarnir yrðu á íslensku en þau áform áttu þó eftir að breytast. Hann vissi sem var að það yrði dýrt að vinna plötuna og brá því á það snjallræði að kalla saman sönghóp sem hann kallaði Lummurnar og gaf út plötu með þeim sem hann vissi að myndi rokseljast, um var að ræða gamla slagara í nýjum útsetningum og herlegheitin gaf hann út sjálfur undir Ýmis-merkinu. Gunnar fékk sem fyrr harða gagnrýni fyrir ófrumlegheit en platan sem bar titilinn Gamlar góða lummur rokseldist í um fimmtán þúsund eintökum og varð söluhæsta plata ársins 1977, auðvitað þarf ekki að taka fram að Vísnaplatan Einu sinni var var á toppnum árið á undan.

Iðunn sem hafði gefið Vísnaplötuna út, sá auðvitað tækifæri í að gefa út aðra slíka plötu árið 1977 og hún kom út um haustið eftir sömu forskrift, Gunnar, Björgvin og Tómas héldu utan um verkefnið með þann fyrst talda sem verkstjóra og útsetjara og sú plata fékk titilinn Út um græna grundu, hún seldist ekki eins vel og fyrri platan en hlaut þó frábærar viðtökur og varð t.d. í öðru sæti yfir plötur ársins á Stjörnumessu, Gunnar var jafnframt kjörinn lagahöfundur og hljóðfæraleikari ársins á sömu verðlaunahátíð.

Gunnar var auðvitað hlaðinn alls kyns tónlistartengdum verkefnum á þessum tíma og Hljóðriti var orðið eins og hans annað heimili eftir að hann kom heim til Íslands, aðstæður höfðu breyst við komu Hljóðrita en einnig var tónlistarfólki gert erfitt fyrir um þetta leyti með nýrri tollalöggjöf sem kváðu á um að tollar voru lagðir á upptökur sem unnar voru erlendis. Hann lék inn á og stjórnaði upptökum á fjölda platna á þessum árum, Randver, Einar Vilberg, Sigrún Harðar, BG & Ingibjörg, Geimsteinn, Spilverk þjóðanna, Brimkló og Haukar voru meðal tónlistarflytjenda sem hann vann þannig með en einnig lék hann um skamman tíma með síðast töldu sveitinni á dansleikjum. Hann vann um þetta leyti einnig með Vilhjálmi Vilhjálmssyni sem þarna var að koma fram á sjónarsviðið með plötu eftir nokkurt hlé, Gunnar samdi nokkur laganna og þar bar hæst lagið Hrafninn sem margir þekkja. Þarna var hann orðinn sá lagahöfundur á Íslandi sem átti flest lög á útgefnum plötum sem segir nokkuð hversu stórt nafn hann var orðinn. Og verkefnin urðu jafnframt stöðugt fjölbreyttari, íslenska kvikmyndavorið var að hefjast um það leyti og Hrafn Gunnlaugsson fékk hann til að gera tónlist við kvikmyndina Blóðrautt sólarlag, Hrafn fékk Gunnar síðan með sér víða um lönd til að kynna myndina. Hann gerði síðan einnig tónlistina við sjónvarpsmyndina Lilju og vann fjölmörg auglýsingastef fyrir útvarp og sjónvarp.

Gunnar Þórðarson nálægt 1980

Gunnar hóf í upphafi árs 1978 að vinna nýja plötu með Lummunum og hún kom síðan út um vorið, í millitíðinni fór hann hins vegar vestur um haf (í febrúar) til að semja efnið á fyrirhugaðri sólóplötu og var í Los Angeles í um tveggja mánaða skeið, reyndar notaði hann tækifæri og lék á þorrablóti með Geimsteini í New York en að öðru leyti átti sólóplatan hug hans allan. Hann hafði nú horfið frá því að hafa plötuna íslenska og var jafnframt ákveðinn í að um tvöfalt albúm yrði að ræða þar sem fyrri platan væri hin eiginlega sólóplata en síðari platan hefði annars vegar að geyma tónverk fyrir sinfóníuhljómsveit (sem var fyrst tilraun hans í þá áttina) og hins vegar nokkur gömul lög eftir hann í nýjum útsetningum. Þegar platan kom út voru slík lög aðeins tvö, Lít ég börn að leika sér (sem hafði komið út á fyrstu Trúbrot-plötunni) og Today (af Mandala með Trúbrot einnig) en hét nú Í dag og hafði fengið íslenskan texta, fyllt var upp í þá plötuhlið með tónlist úr ofangreindum kvikmyndum sem Gunnar hafði samið tónlist við. Tvöfalda albúmið hlaut titilinn Ísland 81, kom út um haustið og við það tækifæri blés Gunnar til stórtónleika í Háskólabíói þar sem hátt í fjörutíu manna hljómsveit og söngvarar komu fram – þeirra á meðal voru sextán hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands sem léku undir stjórn Páls P. Pálssonar, þarna hafði Gunnar mjög lítið leikið opinberlega um nokkurra ára skeið en hélt sína fyrstu sólótónleika með pomp og prakt. Gunnar hafði kynnst íslensk/bandarískri konu, Toby Herman úti í Bandaríkjunum og samdi hún flesta textana á plötunni en þau áttu síðan eftir að ganga í hjónaband, einn enska textann samdi Gunnar sjálfur – við lagið Hey brother en það var eins konar óður til fóstbróður síns, Rúnars Júlíussonar. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Dagblaðinu og ágæta í Vísi en þrátt fyrir það seldist hún fremur illa, lagið Drottningin rokkar náði þó nokkrum vinældum.

Gunnar var að öðru leyti mestmegnis erlendis þetta ár (1978), dvaldist þá í Bandaríkjunum og kom í raun aðeins heim í fáeinar vikur um haustið þegar platan kom út og svo snemma sumars þegar Lummuplatan Lummur um land allt, kom út. Þá kom Lummuhópurinn fram á fáeinum skemmtunum með honum en annars komu þær afar sjaldan fram opinberlega.

Í uppgjöri Stjörnumessunnar fyrir árið 1978 var Gunnar sem fyrr í bílstjórasætinu, hann var þá kjörinn lagasmiður og hljóðfæraleikari ársins. Um þetta leyti hafði hann fengið inngöngu í Tónaskáldafélag Íslands en hann var þá fyrstur popptónlistarmanna til að vera boðið í þann mæta félagsskap, til þess tíma höfðu einvörðungu „æðri“ tónskáld skipað þann félagsskap. Reyndar voru ekki allir á eitt sáttir um veru Gunnars innan félagsins og einhver átök urðu þar innanhúss, einhver tónskáldanna yrtu ekki á hann og einn þeirra kallaði Gunnar „lummu“, en þeir Atli Heimir Sveinsson og Jón Þórarinsson höfðu mælt með Gunnari inn í félagið. Sams konar barátta átti sér stað og hafði verið um árabil milli popptónlistarmanna og klassískra innan FÍH en sú barátta snerist að mestu um skiptingu stefgjalda en þeir síðar töldu báru mun meira úr býtum þar þrátt fyrir að vera í miklum minnihluta.

Árið 1979 hóf Gunnar að vinna nokkuð fyrir Steinar Berg sem þá var að verða sífellt umfangsmeiri með plötuútgáfu sína, Steina. Á sama tíma var útgáfa Gunnars, Ýmir að leggjast af enda hafði tvöfalda sólóplatan selst illa en Gunnar hafði reyndar einhvern tímann látið hafa eftir sér að Lummuplöturnar hefðu fjármagnað sólóplötuna. Síðustu plöturnar sem Gunnar gaf sjálfur út voru með Helga Péturssyni sem hann hafði starfað með í Ríó tríóinu og svo barnaplatan Skrýplarnir, fjögurra laga plata með ítölskum lögum úr barnatíma sjónvarpsins. Ekki má rugla þessum Skrýplum við plötuna Harald í Skrýplalandi sem kom út um svipað leyti á vegum Steina og þar stjórnaði Gunnar reyndar einnig upptökum og annaðist útsetningar og fleira. Þess má til gamans geta að Skrýplarnir svokölluðu komu síðan sama haust út í teiknimyndasöguformi og hétu þá Strumparnir.

Gunnar á Ríó-árunum

Gunnar vann fyrir Steinar m.a. að plötu Ljósanna í bænum, Diskó friskó (1979) en meðlimir sveitarinnar höfðu spilað með honum á stórtónleikunum árið á undan. Hann vann einnig að plötu Hatts og Fatts sem var hugðarefni Ólafs Hauks Símonarsonar og þannig lágu leiðir þeirra Gunnars aftur saman eftir Eniga meniga plötuna. Og fleiri áhugaverðar plötur á vegum Steina komu út þar sem hann var með puttana í, t.d. með Mezzoforte sem var hljómsveit skipuð ungum og efnilegum tónlistarmönnum sem einnig höfðu komið við sögu Ljósanna í bænum.

En stóra verkefni Gunnars árið 1979 var „diskóplatan hans Gunnars“ eins og hún var ítrekað nefnd manna á meðal síðan það fór að kvisast út um vorið að hennar væri að vænta. Platan var að miklu leyti unnin í London og var þá dýrasta platan sem Steinar höfðu ráðist í enda var stefnt hátt, Gunnar fékk tvo söngvara til liðs við sig, annars vegar Jóhann Helgason sem hafði sopið ýmsa fjöruna þá þegar með fóstbróður sínum Magnúsi Þór Sigmundssyni auk þess að hafa starfað með Change, Póker, Celsius og svo Lummunum – hins vegar Helgu Möller tiltölulega óþekkta söngkonu  (og trúbador) sem þó hafði sungið með Jóhanni í Celsius. Diskóplatan ar tilbúin síðsumars en beðið var til jólavertíðar þar sem hún var svo dýr í vinnslu að engin áhætta var tekin varðandi plötusöluna. Dúóið (eða öllu heldur tríóið) hlaut nafnið Þú og ég og platan titilinn Ljúfa líf, Gunnar samdi meirihluta laganna og meðal þeirra voru gömlu Hljóma-slagararnir Þú og ég og Ástasæla í nýjum diskóbúningi en auk þess voru stórsmellirnir Hið ljúfa líf, Dans, dans, dans og Villi og Lúlla eftir Gunnar sem öll hafa síðan verið tákngervingar hins íslenska diskós og Helga Möller jafnframt kölluð „diskódrottningin“. Nánast öll lög plötunnar urðu vinsæl. Eins og vænta má sló Ljúfa líf öll met í sölu, varð söluhæsta plata ársins, fékk fína gagnrýni og var kjörin plata ársins auk þess sem Gunnar var enn valinn tónlistarmaður og lagahöfundur ársins.

E.t.v. mætti segja að toppnum hafi verið náð þarna hjá Gunnari hvað samfellda sigurgöngu varðar, hann hafði verið í sviðsljósinu allt frá árinu 1964 þegar Hljómar komu fram á sjónarsviðið, fyrst sem gítarleikari og síðan sem lagahöfundur einnig, síðan komu Thor‘s hammer, Trúbrot, Ríó tríó, endurreisn Hljóma, Lónlí blú bojs, Lummurnar, Þú og ég og sólóferill, og samhliða því hafði hann skapað sér stór nafn sem upptökumaður og -stjóri, útsetjari og útgefandi, komið að fjölmörgum af söluhæstu plötum Íslandssögunnar s.s. vísnaplötunum tveimur, m.ö.o. hafði hann þróast með helstu tónlistarstraumum og stefnum heimsins samhliða eigin ferli og sent frá sér bítlapopp, hipparokk jafnvel út í progg, „brennivínstónlist“ eins og hún var kölluð, diskó o.s.frv, alls um tvö hundruð útgefin lög eftir hann. Ekki er þó hægt að setja sem svo að ferill hans hafi legið eitthvað niður á við þarna, Þú og ég áttu t.d. eftir að gefa út tvær aðrar breiðskífur (Sprengisandur (1980) og Aðeins eitt líf (1982) sem innihéldu vinsæl lög eins og Í útilegu og Aðeins eitt líf eftir Gunnar, og aukinheldur voru ýmsar þreifingar um útgáfu platna dúettsins á erlendum vettvangi – plötur voru t.d. gefnar út í Japan í því samhengi. Málið var hins vegar að ný bylting í tónlist var að kveða sér hljóðs hér á landi og var kennd við gúanórokk og pönk með Bubba Morthens í fararbroddi sem gaf skít í gömlu „skallapopparana“ sem Gunnar og hans kynslóð var óneitanlega hluti af. Það var þó ekki svo að Gunnar hætti afskiptum af tónlist, hann kom meira að segja við sögu sem orgelleikari á plötu Utangarðsmanna í laginu Kyrrlátt kvöld við fjörðinn þannig að kynslóða- og tónlistarbilið var ekki meira en svo, og kannski naut Gunnar mestu virðingarinnar meðal „skallapopparanna“ hjá ungu tónlistarmönnunum.

Gunnar Þórðar

Gunnar stóð því örlítið í skugga Bubba og pönksins meðan sú bylgja gekk yfir og lauk í raun með frumsýningu Rokks í Reykjavík vorið 1982, hann var þó auðvitað hlaðinn verkefnum og kom að ýmsum plötum og tónlistartengdum uppákomum. Áður er nefnt Þú og ég verkefnið en einnig sendi hann frá sér vinsæla jólaplötu fyrir jólin 1980, hún bar heitið Í hátíðarskapi og skartaði landsliði skallapoppara sem sungu hvern jólahittarann á fætur öðrum og eru enn spilaðir í kringum jólahátíðina, þarna má nefna Er líða fer að jólum með Ragnari Bjarnasyni og Aðfangadagskvöld með Þú og ég, sem Gunnar samdi. Þá vann hann mikið með Ladda á þessum árum, sem var nokkuð afkastamikill og samdi m.a. lögin Ég er farinn út og Jón spæjó á plötunni Deió, og lögin Björgúlfur bréfberi (sem með rökum má telja fyrsta íslenska rapplagið) og Aldrei má maður ekki neitt (sem var eins konar svar Gunnars við nýbylgjunni) á plötunni Allt í lagi með það. Þá stjórnaði hann upptökum, spilaði á og söng einnig á plötunni Valsmenn léttir í lund, og plötu Sumargleðinnar sem naut mikilla vinsælda, vann með Magnúsi og Jóhanni, Pónik, Upplyftingu, Silfurkórnum, Björgvini Halldórssyni, Kötlu Maríu og Þorgeiri Ástvaldssyni svo nokkur dæmi séu nefnd, á næstu árum. Gunnar var sjálfur eitthvað að spila opinberlega á þessum árum, þeir Vísnaplötubræður Gunnar, Björgvin og Tómas komu t.d. stundum fram á veitingastaðnum Vesturslóð og léku kántrískotna tónlist, einnig stjórnaði hann hljómsveit á tónleikum sem Shady Owens (úr Hljómum og Trúbrot) hélt í stuttri heimsókn hér á landi, og svo kom hann fram á minningartónleikum um John Lennon í upphafi árs 1981. Hann var einnig meðal fulltrúa Íslands á Midem-ráðstefnunni í Frakklandi, vann kvikmyndatónlist við kvikmyndina Óðal feðranna ásamt öðrum skallapoppara, Magnúsi Eiríkssyni, og gerði tónlist við sjónvarpsmyndina Flæðamál svo mörg voru verkefnin þótt ekki væri hann jafn áberandi og áður.

Gunnar hafði áttað sig á að pönksenan yrði ekki langlíf enda hafði hún þá koðnað í Bretlandi um það leyti sem hún barst hingað til lands, hann hafði byrjað að vinna að sólóplötu í upphafi árs 1981 og hafði hugsað sér að gefa hana út um haustið, Steinar voru ekki tilbúnir að taka áhættuna með útgáfu verkefnisins þar sem seljast þyrftu um fjögur þúsund eintök af henni svo ekki yrði tap af sölu hennar,  og töldu Gunnar e.t.v. útbrunninn í kjölfar Bubba-æðisins sem þá gekk yfir – Fálkinn var hins vegar tilbúnn að gefa plötuna út og það átti eftir að borga sig fyrir þá. Gunnar fékk til liðs við sig bræðurna Birgi Svan og Ólaf Hauk Símonarsyni og Þorstein Eggertsson til að semja textana og þekkta söngvara á borð við Björgvin Halldórsson, Shady Owens, Ragnhildi Gísladóttur og Pálma Gunnarsson og úr varð platan Himinn og jörð sem kom út um haustið. Titillagið Himinn og jörð í flutningi Björgvins sló strax í gegn sem og Vetrarsól sungið af honum einnig, og Fjólublátt ljós við barinn sungið af Þorgeiri Ástvaldssyni og „Klíkunni“ en einnig nutu lögin Vegurinn með Pálma Gunnarssyni, Læknisráð með Eiríki Haukssyni, Út á lífið með Ragnhildi Gísladóttur og Þitt fyrsta bros með Pálma einnig vinsælda en það lag hafði Gunnar samið til nýfædds sonar síns. Síðast talda lagið vann síðan á í vinsældum og hefur með tímanum orðið eitt allra vinsælasta lag Gunnars og þá um leið eitt ástsælasta lag þjóðarinnar, sungið í jarðarförum, brúðkaupum og hvar sem þykir tilefni til. Upphaflega hafði staðið til að óperusöngkonan Ólöf Kolbrún Harðardóttir myndi syngja lagið en þegar sú upptaka hafði verið gerð þótti Gunnari söngurinn of „klassískur“ og því lét hann Pálma syngja það.

Himinn og jörð fékk gríðarlega góða dóma, mjög góða í Morgunblaðinu, Tímanum og Þjóðviljanum, ágæta í Helgarpóstinum og DV en þó varla nema sæmilega í Degi. Hún seldist jafnframt mjög vel og var komin í um fimm þúsund eintök tveimur vikum fyrir jól svo útgáfan borgaði sig sannarlega. Það hafði því ekkert breyst að flest allt sem Gunnar kom að yrði að gulli þrátt fyrir vinsældir Bubba Morthens, e.t.v. hafði það þó áhrif að hljómsveit hans, Utangarðsmenn hafði um það leyti sprungið í loft upp. Um þessi sömu jól kom út jólaplatan Við jólatréð þar sem Gunnar kom við sögu sem útsetjari, lagahöfundur, hljóðfæraleikari og upptökustjóri og við ársuppgjör tónlistarbransans fáeinum vikum síðar var hann kjörinn tónlistarmaður ársins í enn eitt skiptið og skipaði sér ofarlega í flestum flokkum sem hann var tilnefndur í – þrátt fyrir Bubba-byltinguna.

Á forsíðu Vikunnar

Árið 1982 má segja að hafi verið hefðbundið hjá Gunnari, hann stjórnaði upptökum á fjölda platna og kom þá gjarnan við sögu á þeim sem hljóðfæraleikari einnig en hæst þeirra ber líklega platan Íslensk alþýðulög sem hann vann fyrir Fálkann, þar á ferð voru íslensk alþýðulög eins og titillinn segir í aðgengilegum útsetningum Gunnars ætluð einkum og sérílagi fyrir erlenda ferðamenn. Þessi plata hefur í nokkur skipti verið endurútgefin á vínyl- og kassettuformi en einnig á geisladiskaformi frá 1987 og hefur selst í tugum þúsunda eintaka. Hvað hann sjálfan snerti sendi hann frá sér plötu í samstarfi við Pálma Gunnarsson, sem hét einfaldlega Gunnar Þórðarson og Pálmi Gunnarsson. Þessi plata fór ekki hátt, hún var gefin út af útgáfufyrirtæki sem bar nafnið Fjölnir, og fékk misjafna dóma – ágæta í Morgunblaðinu (og slakari í öðrum dómi sem birtist í sama blaði) en aðrir dómar voru fremur neikvæðir. Gunnar samdi öll lögin á plötunni en textarnir voru héðan og þaðan og þar af einn eftir Toby Herman.

Þetta ár (1982) markar tímamót að því leyti hjá Gunnari að þá stjórnaði hann í fyrsta skipti tónlistarsýningu hjá Ólafi Laufdal. Ólafur rak skemmtistaðinn Broadway og hafði áttað sig á að skemmtanavettvang vantaði fyrir þær kynslóðir sem ekki voru lengur almennt á djamminu, þarna væru þúsundir manna og kvenna komið af barneignaaldrinum með fullt af peningum milli handanna sem hefði engan skemmtistað fyrir sinn aldur, hann fékk því Gunnar til að halda utan um slíkt show og það átti Gunnar eftir að gera í fjölda ára á eftir. Þessar sýningar báru mismunandi nöfn og höfðu mismunandi áherslur en höfðu það sameiginlegt að innihalda borðhald með skemmtidagskrá og dansleik á eftir. Gunnar hafði það hlutverk að búa til þessar sýningar, raða saman tónlistardagskrá og stjórna hljómsveitum sem oft voru fjölskipaðar, þessar sýningar báru nöfn eins og Í gegnum tíðina: manstu lagið, Rokkhátíðin ´84, Ríó tríó: Dýrið gengur laus, Evróvisjón sýning, Rokkstjörnur Íslands, Braggablús: lög Magnúsar Eiríkssonar, Þó líði ár og öld: lög Björgvins Halldórsonar, Allt vitlaust, Best af öllu, Rokk ´93, Sumargleðin, Queen-sýning, Söngbók Gunnars Þórðarsonar og Abba sýning þar sem hin nítján ára gamla Birgitta Haukdal steig sín fyrstu spor í bransanum (1998) og mætti jafnvel segja að Gunnar hafi uppgötvað þá söngkonu reyndar eins og margar fleiri sem sungu í sýningum á Broadway. Slíkar tónlistarsýningar voru undir stjórn Gunnar allt fram á miðjan fyrsta áratug nýrrar aldar en þá var nóg komið af slíku í bili – Gunnar hefur reyndar skemmt með tónlistar-show í minni kantinum hin síðustu ár á Hótel Grímsborgum en þar ræður ríkjum auðvitað Ólafur Laufdal. Í tengslum við sýninguna Bítlaárin 1960-1970, var gefin út platan Bítlaárin ’60-’70: ’68 kynslóðin skemmtir sér (í samstarfi við Aðalstöðina) og hafði Gunnar yfirumsjón með henni.

Með þessa reynslu í hljómsveita- og tónlistarstjórnun í tengslum við slíkar sýningar tókst Gunnar á við svipuð verkefni af ýmsu tagi, t.d. með stórar hljómsveitir í eigin nafni sem léku t.d. í sjónvarpsþáttum og víðar, þannig útsetti hann fyrir nýja hljómsveit árið 1985 sem síðar hlaut nafnið Léttsveit Ríkisútvarpsins og reyndar kom hann einnig að fyrstu undankeppni Eurovision keppninnar árið 1986 sem útsetjari. Þá kom hann einnig að Ladda-showi á Hótel Sögu sem hljómsveitarstjóri og gegndi starfi tónlistarstjóra í Danshöllinni um skeið.

Vorið 1983 var lag sem hann kallaði Tilbrigði um fegurð frumflutt á Fegurðarsamkeppni Íslands og varð það upp frá því eins konar einkennislag keppninnar, það átti síðar eftir að koma út á plötu 1986. Um þetta leyti var Gunnar mikið í Bretlandi við hefðbundin upptökustörf þar en einnig við útsetningar og auðvitað tónsmíðar, hann vann t.d. við plötur Graham Smith, Bjarna Hjartarsonar, Sumargleðinnar o.fl. næstu misserin en auk þess við jólaplötuna Gleðilega hátíð sem Geimsteinn gaf út um haustið 1984. Gunnar varð svo frægur að verða einn hinna frægu bítlagæslumanna þegar bítillinn Ringo Starr heimsótti Atlavíkurhátíðina um verslunarmannahelgina það sumar í boði Stuðmanna, Gunnar var í fylgdarliði bítilsins og kemur við sögu í texta þeirra Stuðmanna um Hring og bítlagæslumennina, sem kom út á plötu þeirra – Hvítir mávar: „Þau hjónin fóru í helgarferð með Sverri Þóroddssyni / Agli, Gunna og Jónasi R, bítlagæslumönnum.“ Þeir félagar, Gunnar, Ringo og Stuðmenn tóku saman lagið Johnny B. Goode á sviðinu í Atlavík.

Snemma á níunda áratugnum

En Gunnar var farinn að huga að næstu sólóplötu og hún kom út haustið 1985 og var eins konar óður til Reykjavíkur-borgar, reyndar hafði hún átt að koma út um sumarið en tafir urðu á upptökum vegna bilana í Hljóðrita. Platan hét Borgarbragur og sem fyrr fékk Gunnar valinkunna söngvara sér til fulltingis og þar var vel valið því hver stórsmellurinn á fætur öðrum leit dagsins ljós, lög eins og Gaggó Vest og Gull flutt af Eiríki Haukssyni, Steini strætó sungið af Pálma Gunnarssyni og Við Reykjavíkurtjörn með Agli Ólafssyni og Björgvini Halldórssyni slógu í gegn, og í síðast talda laginu hafði borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson ort textann, aðra texta Borgarbrags samdi Ólafur Haukur Símonarson sem nú var eins konar einkaskáld Gunnars. Platan seldist vel og fékk ennfremur góða dóma í NT, DV og Morgunblaðinu. Upphaflega hafði Gunnar samið um fjörutíu lög til að hafa á plötunni en ellefu rötuðu að lokum á plötuna sem fór í gullsölu.

Reykjavíkurborg átti tvö hundruð ára afmæli árið eftir (1986) og var Gunnar fenginn til að gera tónlist við mynd Hrafn Gunnlaugssonar, Reykjavík, Reykjavík, sem gerð var í tilefni af því afmæli en þeir Hrafn og Davíð borgarstjóri höfðu verið vinir frá því að þeir ásamt Þórarni Eldjárn önnuðust Útvarp Matthildi um 1970. Gunnar samdi reyndar tónlist við fleiri myndir á þessum árum og má t.d. nefna sjónvarpsmyndirnar Djáknann á Myrká (1988) og Steinbarn (1989). Leikhústónlist var einnig áberandi þessi árin hjá Gunnari, hann samdi tónlist fyrir leikritið Regnbogastrákinn (1989) og Spaugstofurevíuna Örfá sæti laus og annaðist útsetningar og tónlistarflutning í leikritinu Keli þó! Samstarf þeirra Gunnars og Ólafs Hauks Símonarsonar hélt sömuleiðis áfram, þeir unnu saman að leikriti sem hlaut nafnið Kötturinn fer sínar eigin leiðir (1986) og síðan að söngleiknum Á köldum klaka (1991) en plötur komu út samhliða báðum þeim stykkjum. Gunnar samdi á þessum árum einnig fjölda stefja fyrir útvarp og auglýsingar, hann hafði verið fenginn til að semja, útsetja og spila stef þegar Rás 2 fór í loftið haustið 1983 og síðan þá einnig til að gera stef t.d. fyrir Vinsældarlista Rásar 2.

Haustið 1985 fór verkefnið Hjálpum þeim af stað en það var samstarfsverkefni tónlistarmanna og Hjálparstofnunar kirkjunnar í formi plötu sem seld var til styrktar verkefninu, í anda Do they know it‘s christmas? í Bretlandi 1984. Gunnar var meðal þeirra tónlistarmanna sem hvað mest hvíldi á enda var hann einn þeirra sem útsettu auk þess að vera í kórnum sem söng lagið, það var einnig verkefni hans að fara til Stokkhólms þar sem Bubbi Morthens var þá að störfum, til að láta hann syngja sinn part af laginu. Lagið sló auðvitað í gegn og heyrist enn reglulega.

Árið 1986 var stórt ár í íslensku tónlistarlífi og ekki síður fyrir Gunnar Þórðarson, Ísland tók í fyrsta skipti þátt í Eurovision söngvakeppninni og frægt er hvernig þjóðinni var rækilega kippt niður á jörðina kvöldið sem keppnin var haldin í Osló en væntingastuðull þjóðarsálarinnar hefur líklega aldrei hvorki fyrr né síðar verið keyrður jafn hátt og fyrir þessa fyrstu þátttöku Íslendinga í keppninni. Þegar leið að undankeppninni hér heima snemma árs var gert opinbert að Gunnar og Þórir Baldursson myndu annast útsetningar og hljómsveitarstjórn, flestir voru auðvitað sáttir við það þar til að í ljós kom að þeir áttu báðir lag í undankeppninni en tíu lög höfðu verið valin úr þeim þrjú hundruð laga bunka sem landsmenn sendu í keppnina. Úrslit keppninnar urðu eins og flestir vita að Gleðibankinn fór með sigur af hólmi en lög þeirra Gunnars og Þóris náðu engum hæðum, lag Gunnars hét Gefðu mér gaum. En hlutverki Gunnars í Eurovision var síður en svo lokið því honum hafði verið falið að útsetja Gleðibankann fyrir lokakeppnina í Noregi (reyndar í óþökk Magnúsar Eiríkssonar höfundar lagsins) og stjórna norsku útvarpshljómsveitinni, sem hann gerði með sóma en lagið hafnaði eins og kunnugt er í sextánda sæti keppninnar.

Gunnar um 1990

Hafi vorið 1986 verið Gleðibankans þá var sumarið Reykjavíkur-borgar því stór afmælisveisla var þá fyrirhuguð vegna tvö hundruð ára afmælisins sem fyrr er nefnt. Gunnari var falið að halda utan um verkefnið Reykjavíkurflugur sem var plata gefin út í tilefni af afmælinu. Sú plata var tvöfalt albúm, önnur platan hafði að geyma vinsæl Reykjavíkurlög í nýjum útsetningum Gunnars en hin innihélt frumsamda tónlist Gunnars, m.a. úr kvikmyndinni Reykjavík, Reykjavík eftir Hrafn Gunnlaugsson og fegurðarsamkeppnastefjuna Tilbrigði um fegurð. Eins og vænta mátti urðu mörg laga plötunnar feikivinsæl og stemmingin í kringum lögin og plötuna náðu hámarki á fjölsóttum tónleikum á Arnarhóli að kvöldi eins afmæliskvöldins, Braggablús Magnúsar Eiríkssonar sungið af Bubba Morthens í stórsveitarútgáfu Gunnars vakti einna mesta hrifningu en einnig má nefna lög eins og Austurstræti og Hagavagninn í flutningi Jóhanns Helgasonar, Ó borg mín borg með Ellen Kristjánsdóttur, Í Reykjavíkurborg sungið af Ernu Gunnarsdóttur, Fyrir sunnan Fríkirkjuna og Fröken Reykjavík með Ríó tríó og Húsin í bænum, flutt af Agli Ólafssyni en það var eitt af lögunum úr Reykjavík, Reykjavík. Reykjavíkurflugur fengu einnig ágæta dóma, góða í Þjóðviljanum og þokkalega í DV og lögin hljómuðu áfram eitthvað fram eftir haustinu og hafa mörg hver orðið klassísk með tímanum.

Þætti Gunnars á árinu 1986 var þó ekki alveg lokið því að fyrir jólin kom út jólaplata sem hefur fyrir löngu orðið sígild, það var Jól alla daga en á henni stjórnaði hann upptökum, annaðist útsetningar og margt fleira, hann samdi þar einnig eitt laganna en önnur lög voru af erlendum uppruna.

Gunnar var ekki jafn áberandi næstu árin eftir þessa miklu törn 1986, hann tók þátt í undankeppnum Eurovision fram til 1991 en hafði þar ekki árangur sem erfiði, sum laganna áttu reyndar ágætu fylgi að fagna og margir muna eftir lögum eins og Norðurljós (við texta Ólafs Hauks) sem Eyjólfur Kristjánsson söng (1987), Í tangó (með texta Þorsteins Eggertssonar) sem Björgvin Halldórsson og Edda Borg sungu (1988), Sóley (texti eftir Toby Herman) sungið af Björgvini og Kötlu Maríu (1989) og Til þín (við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar) sungið af Björgvini (1990). Gunnar var síðan einn þriggja höfunda sem fengnir voru til að semja lag fyrir keppnina 1994, það var lagið Indæla jörð sem sungið var af Þórönnu Jónbjörnsdóttur og Elfari Aðalsteinssyni. Gunnar hefur ekki verið meðal þátttakenda síðan.

Þrátt fyrir að vera minna í sviðsljósinu sendi Gunnar frá sér sólóplötu haustið 1987, hún hét Í loftinu og var unnin í samstarfi við Ólaf Hauk Símonarson sem samdi alla texta. Ekkert laganna á þessari plötu varð ofurhittari en nokkur þeirra fengu þó þokkalega spilun á útvarpsstöðvunum. Í loftinu hlaut þokkalega dóma í Þjóðviljanum.

Á þessum tíma var eins og í mörg ár á undan mikil umræða um nauðsyn byggingar tónlistarhúss á Íslandi (sem varð síðan ekki að veruleika fyrr en með Hörpunni árið 2011), Samtök um byggingu tónlistarhúss fékk Gunnar og Björgvin Halldórsson til að vinna að tveggja laga plötu (lagið Söngur um draum e. Gunnar við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk í tveimur útgáfum) til styrktar málefninu, hún kom út um haustið 1987 og sáu nokkrir þekktir söngvarar um þann þátt. Á fyrri hluta árs 1988 voru ennfremur haldnir stórir tónleikar til styrktar sama málefni og þar kom Gunnar einnig við sögu. Það árið fékk Sjómannadagsráð Gunnar til að halda utan um útgáfu og útsetja lög á sjómannalagaplötu en hún var gefin út í tilefni af hálfrar aldrar afmælis sjómannadagsins. Platan bar nafnið Á frívaktinni og á henni sungu ýmsir þeirra sem margoft höfðu starfað með Gunnari s.s. Ríó tríó, Björgvin Halldórsson, Þú og ég og Eiríkur Hauksson en mörg laganna urðu nokkuð vinsæl þótt þau þættu ekki beinlínis útsett að hætti sjómannalaga heldur meira í anda Reykjavíkurplatna Gunnars, Borgarbrags og Reykjavíkurfluga.

Í tengslum við störf Gunnars sem tónlistar- og hljómsveitarstjóri á sýningum á Broadway (og Hótel Íslandi) höfðu margar af fyrri hljómsveitum hans verið endurvaktar, Hljómar, Trúbrot og Lónlí blú bojs komu saman aftur og Ríó tríóið var endurvakið og hóf að spila á fullum krafti aftur eftir áralangt hlé, bæði á tónlistarsýningum á Broadway en einnig á almennum dansleikjum. Safnplata hafði komið út með Ríóinu árið 1982 og þremur árum síðar höfðu þeir félagar sent frá sér plötu með nýju efni, flest laganna voru erlend sem áður og svo var einnig á næstu plötu tríósins sem kom út 1987 en árið 1989 kom síðan út plata með þeim undir nafninu Ekki vill það batna, sem hafði að geyma tíu lög eftir Gunnar við texta Jónasar Friðriks, Síðasti dans, Það reddast, Dýrið gengur laust og Er það nú sumar nutu öll vinsælda.

Ríóið

Ríóið átti eftir að senda frá sér plötur á u.þ.b. tveggja ára fresti næstu árin, 1991 kom út platan Landið fýkur burt en hún var gefin út í samstarfi við Landgræðsluna til styrktar landgræðsluátaki sem þá var í gangi. Titillagið Landið fýkur burt og Á pöbbinn nutu hvað mestra vinsælda af þeirri plötu en öll lög hennar voru eftir Gunnar við texta Jónasar Friðriks.

Árið 1990 varð til eins konar súpergrúppa tónlistarmanna á ýmsum aldri undir nafninu Sléttuúlfarnir sem spilaði kántrískotið frumsamið popp. Gunnar var í þeim hópi ásamt gömlu kempunum Magnúsi Kjartanssyni og Björgvini Halldórssyni en einnig yngri mönnum, og sendi sveitin frá sér plötuna Líf og fjör í Fagradal. Nokkur laganna urðu mjög vinsæl og meðal annars annað tveggja laga sem Gunnar samdi, Akstur á undarlegum vegi.

Á þessum árum var Gunnar áberandi í tónlistarsýningum á Broadway og sinnti því minna hljóðversverkefnum en áður, hann stjórnaði þó upptökum á Stuðmannaplötunni Listin að lifa, auk þess sem hann stýrði upptökum, spilaði og útsetti á plötum Geirmundar Valtýssonar, Diddúar, Olgu Guðrúnar Árnadóttur og fleiri en slíkum verkefnum fór nokkuð fækkandi hjá honum. Hann útsetti þó Skattalagið svokallaða sem kom út á sjö tommu flexiplötu á vegum félags ungra sjálfstæðismanna en lagið var samið af Árna Sigfússyni. Sjálfur samdi hann lag sérstaklega fyrir styrktarsafnplötuna Börnin heim (1992).

En Gunnar var aftur farinn að leika með hljómsveitum og þær sveitir spiluðu nú með reglubundnum hætti bæði á Broadway og almennum dansleikjum, þeirri spilamennsku fylgdi plötuútgáfa og haustið 1991 sendu Sléttuúlfarnir frá sér plötu (um svipað leyti og Ríó gaf út landgræðsluplötuna) undir heitinu Undir bláum mána. Gunnar átti um helming laganna á þeirri plötu en hún varð ekki eins vinsæl og fyrri platan, gamli Hljómarslagarann Bláu augun þín mátti meðal annarra laga heyra á plötunni. Fyrir jólin 1991 fór sjónvarpsþáttur í loftið undir nafninu Þitt fyrsta bros, þar sem ýmsir flytjendur flutti lög Gunnars frá ýmsum tímum en það var að öllum líkindum í fyrsta sinn sem honum hlotnaðist slíkur heiður.

Gunnar var um þetta leyti nokkuð farinn að kynna sér klassíska tónlist í auknum mæli en hann hafði þá hug á að semja slíka tónlist, hann hafði verið að fikra sig áfram og þróa slíkar tónsmíðar og segja má að Tilbrigði um fegurð hafi verið vel heppnuð tilraun hvað slíkt varðaði. Árið 1992 flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið Nocturne eftir Gunnar (í útsetningu Szymon Kuran) og var það enn einn liðurinn í þeirri þróun, og reyndar tók Sinfóníuhljómsveitin einnig Trúbrot-verkið …lifun fyrir á tónleikum ásamt hefðbundinni hljómsveit og þekktum poppsöngvurum, þá var búið að íslenska verkið en það hafði upphaflega verið á ensku. Herlegheitin komu síðan út á plötu árið 1994. Annars hafði Sinfóníuhljómsveitin verið að reyna að höfða til stærri hóps tónlistarunnenda og árið 1986 sendi hún frá sér plötu með popplögum þar sem m.a. var að finna lagið Gaggó Vest.

Sléttuúlfarnir

Reyndar voru mörg af lögum Gunnars að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga á þessum tíma, hljómsveitir eins og Stjórnin endurunnu gömul lög og ungir söngvarar tóku þessa gömlu slagara upp á sína arma, frægt er t.d. þegar Móeiður Júníusdóttir söng Bláu augun þín í fyrstu Söngkeppni framhaldsskólanna 1990. Ástæða þessa mikla áhuga á gömlu lögunum var án vafa að Steinar og síðar Spor hófu endurútgáfu á plötum frá bítla- og blómatímanum á geisladiskaformi þannig að þessi tónlist varð nýjum kynslóðum aðgengileg á nýjan leik en hún hafði þá jafnvel verið ófáanlega í áratugi. Sem dæmi um þetta má nefna Hljóma-, Trúbrot- og Lónlí blú bojs plöturnar, Þú og Ég, Lummurnar og Vísnaplöturnar tvær.

Sléttuúlfarnir og Ríó spiluðu áfram fram eftir tíunda áratugnum, Ríóið þó sýnu lengur og sendi frá sér nokkrar plötur, safnplata kom frá sveitinni 1994 og 1996 birtist platan Ungir menn á uppleið en hún skartaði tíu lögum Gunnars við texta Jónasar Friðriks. Sú plata fór ekki mjög hátt og Ríóið lagðist í dvala um nokkurra ára skeið í kjölfarið.

Eins og alltaf var Gunnar eftirsóttir til ýmissa verkefna og árið 1994 var honum falið að annast tónlistardagskrá á Þingvöllum sem sýnd var í tilefni af hálfrar aldar afmælis lýðveldisins Íslands. Hann fékk jafnframt það verkefni ári síðar að semja lag og útsetja lag fyrir Heimsmeistaramótið í handknattleik sem haldið var hér á landi, lagið hlaut nafnið Bræðralag og var textinn saminn af Davíð Oddssyni en það kom út í þremur útgáfum á geislaplötu (á íslensku, ensku og instrumental), Diddú og Björgvin Halldórsson sungu lagið. Það sama ár samdi hann lag til styrktar fórnarlömbum snjóflóðanna á Vestfjörðum, við ljóð Hjálmars Jónssonar. Árið 1995 varð Gunnar Þórðarson fimmtugur og af því tilefni var blásið til tónlistarveislu á Hótel Íslandi þar sem fjöldinn allur af tónlistarfólki heiðraði hann með tónlistarflutningi, um svipað leyti kom út tvöföld safnplata, Þitt fyrsta bros, ferilsplata þar sem stiklað var á stóru um tónlist hans frá ýmsum tímum.

Sem fyrr er nefnt lá hugur Gunnar nú meir til klassískrar tónhefðar og á síðari hluta tíunda áratugarins var hann farinn að hlusta mikið á klassíska tónlist, hann sótti jafnframt tíma hjá Jóni Ásgeirssyni tónskáldi til að mennta sig í fræðunum. Hann fýsti að semja tónlist í þessum anda og enn eitt skrefið í þá áttina var stigið þegar hann gerði tónlistina við kvikmyndina Agnesi (í leikstjórn Egils Eðvarðssonar). Reyndar gerði hann tónlist við fjölmargar myndir og sjónvarpsefni um þetta leyti, t.a.m. við sjónvarpsþættina Sögur úr Hrísey og sjónvarpsleikritið Herbergi 106, og svo einnig fyrir leikhús s.s. við leikritið Græna landið (e. Ólaf Hauk Símonarson) auk þess sem hann annaðist tónlistarstjórn í óperunni Carmen Negra, sem sannarlega var klassísk-tengt verkefni.

Árið 1998 lék Robin Nolan trio hér á landi sinn Django Reinhardt skotna gítardjass og í kjölfar þess stofnaði Gunnar tríó í þeim anda ásamt Birni Thoroddsen og Jóni Rafnssyni undir nafninu Guitar Islancio. Sveit þeirra félaga fór fljótlega á flug og vakti hvarvetna athygli, þeir sendu frá sér plötu 1999 og voru mjög virkir um tíma, önnur plata kom út 2000 og áður en 2001 var úti höfðu þeir gefið út tvær plötur í viðbót. Uppistaðan í prógrammi þremenninganna var íslensk þjóðlög og þeir félagar fóru síðan víða um lönd, bæði í Evrópu og vestur um haf til tónleikahalds.

Gunnar var við lok aldarinnar farinn að sinna upptökustjórn, stúdíóvinnslu, lagasmíðum fyrir aðra og þess konar verkefnum í meiri mæli aftur eftir nokkur róleg ár á undan í þeim efnum, hann stjórnaði m.a. upptökum á plötu Álftagerðisbræðra og kom við sögu með ýmsum hætti sem lagasmiður og hljóðfæraleikari á plötum Sigríðar Beinteinsdóttur, Rúnars Júlíussonar, Ruthar Reginalds, Snaranna, Ragnars Bjarnasonar og Kristjáns Jóhannssonar, auk þess átti hann um þetta leyti lög á safnplötum eins og Íslandstónum 3 og Velkomin jól, en þarna höfðu vel á fimmta hundrað laga eftir hann komið út á plötum.

Ný öld hófst með því að draumur Gunnars um klassískt verk rættist en á nýársdag 2000 frumflutti sextíu manna kór undir nafninu Aldamótakórinn og sextán manna Kammersveit Hafnarfjarðar undir stjórn Úlriks Ólasonr Heilaga messu eftir hann í Víðistaðakirkju. Messan var síðan gefin út um vorið en allt var þetta í tilefni af þúsund ára kristnitökuafmælis á Íslandi. Þar með var tónninn svolítið gefinn í þessum efnum og Gunnar lét hafa eftir sér opinberlega að meðal markmiða hans væri að semja óperu.

Gunnar Þórðarson

Um þetta leyti hafði Gunnar keypt æskuheimili sitt á Hólmavík og hugðist gera húsið upp en það var þá illa farið, þar átti hann eftir að vera með annan fótinn næstu árin og þá um leið styrkti hann tengsl sín við gömlu æskustöðvarnar með tónleikahaldi. Og hann fór reyndar af stað í tónleikaferð í eigin nafni kringum landið með litla hljómsveit og fáeina söngvara sem léku lög hans frá ýmsum tímum undir yfirskriftinni Söngbók Gunnars Þórðarsonar, hann var þá einnig með hljómsveit í sjónvarpsþættinum Milli himins og jarðar en ekki liggur fyrir hvort um sama mannskap var að ræða.

Í kjölfarið hóf hann að koma meira fram en oft áður, ýmist með þessum hópi eða Ríóinu sem kom aftur fram á sjónarsviðið 2002 svo einnig með Hljómum sem var endurreist árið 2003. Báðar sendu sveitirnar frá sér plötu árið 2003, Ríó gaf út plötuna Utan af landi þar sem forskriftin var hin sama og áður – lög Gunnars við texta (flesta) Jónasar Friðriks, á plötunni gat m.a. að heyra lagið Heim í Búðardal með nýjum texta Þorsteins Eggertssonar undir titlinum Hjem til Kullaberg. Hljómar sendu frá sér plötu samnefnda sveitinni og á henni náðu nokkur lög vinsældum, s.s. Mývatnssveitin er æði, Við saman og Gamli bærinn minn en flest lög plötunnar voru eftir Gunnar. Hljómar störfuðu áfram og léku töluvert á dansleikjum framan af árinu 2004 og gáfu síðan út aðra plötu (undir titlinum Hljómar), af þeirri plötu naut lagið Upp með húmorinn hvað mestra vinsælda en öll lög hennar voru eftir Gunnar. Tónlistin á þessum tveimur plötum Hljóma bera þess vel merki að Brian Wilson og Beach boys voru meðal áhrifavalda Gunnars því útsetningar hans á lögunum, einkum í röddunum, eru í anda þess.

Og enn tóku nýjar kynslóðir við sér varðandi tónlist Gunnars frá Hljómatímabilinu hinu fyrra en söngleikurinn Bláu augun þín var settur á fjalirnar í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjunum árið 2004, fáeinum árum síðar tileinkaði Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi tónleikadagskrá sína Gunnari og þannig mætti áfram telja, kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík gaf út plötu með lögum Gunnars, Karlakór Keflavíkur sungu nokkur lög eftir hann á plötu sinni og Hljómar sjálfir fóru í samstarf við karlakórinn Heimi og héldu þeir sameiginlega tónleika. Heimildamynd var gerð um hljómsveitina og var hún frumsýnd vorið 2004. Hljómar störfuðu eftir þetta með hléum til ársins 2008 með því að þeir félagar ákváðu að loka sögu sveitarinnar með því að troða upp í Cavern klúbbnum í Liverpool en þar höfðu þeir spilað á bítlaárum sínum. Fjölmenni Íslendinga var þar á ferð einnig í pílagrímaferð og urðu því vitni að þessum merkisatburði. Sveitin kom reyndar einu sinni enn fram eftir þetta, á minningartónleikum um Rúnar Júlíusson fóstbróður Gunnars, en hann lést haustið 2008.

Guitar Islancio var langt frá því að vera dauð úr öllum æðum, tríóið hafði sem fyrr segir gefið út fjórar plötur á árunum 1999-2001 en næsta plata með því leit dagsins ljós 2004 og tvær aðrar í kjölfarið 2005 og 2006, þessum útgáfum fylgdi heilmikið tónleikahald og sérstaklega fóru þeir félagar víða erlendis. Fleiri plötur hafa komið út með Guitar Islancio síðan þá. Annað tríó, Ríó tríó mætti enn og aftur með nýja plötu árið 2006, það var tónleikaplatan Í Salnum og eins og titillinn gefur til kynna var sú plata hljóðrituð í Salnum í Kópavogi, sögu Ríósins lauk afar skyndilega og með harmrænum hætti þegar Ólafur Þórðarson lést árið 2011.

Árið 2005 höfðu orðið tímamót á ferli Gunnars en þá höfðu komið út fimm hundruð lög eftir hann á plötum og er það Íslandsmet eins og rétt er hægt að ímynda sér. Það sama ár kom út nótnaheftið Söngbók Gunnars Þórðarsonar, með fjörutíu þekktum lögum eftir hann en sams konar hefti (öllu minna í sniðum) hafði reyndar komið út á níunda áratugnum. Og fleiri bækur litu dagsins ljós, fyrir jólin 2008 kom út á vegum bókaútgáfunnar Æskunnar eins konar ævisaga Gunnars, Hljómagangur, skráð af Jóni Hjartarsyni, fimm laga plata með nýjum lögum fylgdi útgáfunni og bar hún sama nafn, þess má til gamans geta að sonur Gunnars, Zakarías Herman Gunnarsson syngur á þeirri plötu.

Gunnar hélt áfram að fikra sig lengra sem klassískt tónskáld og vorið 2006 var Brynjólfsmessa, helguð minningu Brynjólfs Sveinssonar biskups, frumflutt af stórum kór sem taldi á annað hundrað söngfólks, einsöngvurum og kammersveit, í Keflavík en var svo í kjölfarið flutt víðar. Brynjólfsmessan var síðar hljóðrituð og gefin út haustið 2006. Messan var flutt í Berlín árið 2009 og fékk þar góðar viðtökur.

Sögu Hljóma og Ríó tríós var nú formlega lokið (þótt fyrrnefnda sveitin kæmi reyndar enn einu sinni fram árið 2014) en Gunnar gekk um það leyti til liðs við hina öldnu bítlasveit Pops, sem hafði starfað með hléum allt frá því um miðbik sjöunda áratugarins. Sú sveit starfaði eitthvað áfram næstu árin með Gunnar innanborðs sem og Gullkistan, sveit náskyld Pops stofnuð 2012 en sú sveit var enn starfandi þegar síðast var vitað og leikur u.þ.b. einu sinni á ári. Gunnar átt eftir að starfa með fleiri slíkum sveitum, árið 2009 birtist ein slík, Skuggasveinar, skipuð gömlum kempum í bland við yngri úr tónlistinni. Sú sveit gaf m.a.s. út plötuna Óskaland en sex lög af þeim tólf sem voru á þeirri plötu voru eftir Gunnar. Ofurgrúppan Goðafoss var enn ein slíka sveitin, stofnuð 2013 en varð skammlíf og enn má telja – hljómsveitin Jónas R. og Bandið var stofnsett 2016 og starfaði í skamman tíma einnig.

Elmar Gilbertsson og Þóra Einarsdóttir í óperunni Ragnheiði

Gunnar vann leynt og ljóst að óperusmíð sinni í núuppgerðu húsi sínu á Hólmavík og til samstarfs hafði hann fengið til sín Friðrik Erlingsson rithöfund til að vinna textann en Friðrik sá var eins og margir eflaust muna gítarleikari Purrks Pillnikks þegar pönkið var og hét, og síðar í Sykurmolunum.

Samhliða vinnu sinni við óperusmíði tók hann upp á því árið 2009 að koma fram á tónleikum einn síns liðs en slíkt hafði hann aldrei gert áður – kominn fast að 65 ára aldri og hafði starfað við tónlist frá því á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Frumraun hans á því sviði var á Græna hattinum á Akureyri en vertinn þar hafði hálfvegis skorað á Gunnar að koma þannig fram, og í kjölfarið kom hann heilmikið fram þannig m.a. í Borgarleikhúsinu á stórum tónleikum þar sem hann byrjaði einn og óstuddur og svo bættust í hópinn einhverjir söngvarar og hljóðfæraleikarar. Þeir tónleikar voru hljóðritaðir og gefnir út á vegum Senu undir titilinum Vetrarsól: Borgarleikhúsið 2. október 2009, á geisladisk og dvd-disk um haustið og fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Um svipað leyti kom einnig út plata Bæn en hún hafði að geyma þrjú klassísk verk Gunnars, La prière (Bæn), Virgo Diva (sjöundi kafli Brynjólfsmessu) og Nocturne. Gunnar gaf þá plötu út sjálfur. Annars var Gunnar töluvert áberandi í íslensku tónlistarsenunni árið 2009, Sinfóníuhljómsveit Íslands og þekktir dægurlagasöngvarar fluttu lög hans á tónleikum í Háskólabíói um sumarið undir yfirskriftinni Söngbók Gunnars Þórðarsonar. Þá lék hann sjálfur á „gítarhetjuhátíð“ fyrir norðan þar sem hann kom fram með litla hljómsveit.

Árið 2010 hélt Gunnar áfram að koma fram einn á sviði og var þá m.a. með sýninguna Gunni Þórðar: Lífið og lögin í Landnámssetrinu í Borgarnesi, þar var hann einn með gítar, lék tónlist sína og sagði sögur á milli laga. Hann kom þá einnig fram á barnamenningarhátíð í Húsdýragarðinum, Goslokahátíð í Vestmannaeyjum, bæjarhátíð í Mosfellsbæ og víðar oftast einn síns liðs. Vísnaplöturnar tvær voru endurútgefnar um sumarið af Íslenskum tónum í afar veglegri og vandaðri útgáfu undir nafninu Vísur úr Vísnabókinni: Einu sinni var / Út um græna grundu, plöturnar höfðu verið illfáanlegar síðustu árin þrátt fyrir að hafa verið endurútgefnar í geisladiskaformi og því var þessi útgáfa kærkomin. Um sama leyti var settur á svið í Austurbæ söngleikurinn Dísa Ljósálfur sem þeir Gunnar og Páll Baldvin Baldvinsson unnu saman en einnig kom út plata í tengslum við þá sýningu.

Bubbi Morthens var með útvarpsþætti um þetta leyti sem nutu nokkurra vinsælda, þar sem hann fékk til sín mæta gesti í spjall. Gunnar varð einn gesta hans og þegar upp var staðið þurfti nokkra þætti til að ná yfir allt sem þeim fór á milli. Gunnar hafði þá auðvitað margsinnis komið fram í slíkum þáttum bæði í útvarpi og sjónvarpi og má m.a. nefna þátt Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram en einnig kom Gunnar fram í samnefndri tónleikaröð Jóns í Salnum í Kópavogi 2010.

Gunnar Þórðarson

Guitar Islancio hélt áfram að koma fram, Trúbrot var endurreist stöku sinnum og Gunnar starfaði með nokkrum hljómsveitum „eldri poppara“ eins og greint er hér að framan en einnig var rykið þurrkað af dúóinu Þú og ég haustið 2011 þegar það sendi frá sér nýtt jólalag eftir Gunnar. Þá átti Gunnar einnig nýtt lag á jólaplötu Ólafs Más Svavarssonar og á plötum listamanna eins og Stefáns Hilmarssonar og Óskars Péturssonar en jafnframt stjórnaði hann hljómsveit á tónleikum þess síðast talda í Hofi á Akureyri. Hann var þá einnig hljómsveitarstjóri fyrir norðan á minningartónleikum um sr. Pétur Þórarinsson í Laufási og sinnti reyndar fleiri verkefum sem tengdust Norðurlandi því hann spilaði á, útsetti og samdi tvö ný lög á plötu sem tileinkuð voru Akureyri, og hélt utan um tónlistina auk þess að útsetja og spila í stórri sýningu í Hofi á Akureyri en hún bar heitið Djúsí popp og diskó.

Á fyrsta og öðrum áratug nýrrar aldar hafði Gunnar aukinheldur fengist við ýmis smærri og blandaðri verkefni innan tónlistargeirans, annaðist tónlist í tengslum við hestavörusýninguna Islandicu 2001, samdi lag fyrir Landsmót hestamanna (við ljóð Guðmundar Andra Thorssonar), lék á plötu Ólafs F. Magnússonar, átti lag í sönglagakeppni Rásar 2 (Baráttu- og bjartsýnislagakeppni hins nýja lýðveldis), spilaði á stórum tónleikum með Magnúsi Kjartanssyni, kom fram með hljómsveitinni Bítladrengjunum blíðu, söng og lék á afmælistónleikum Paul McCartney ásamt fleirum, á Húnavöku fyrir norðan, á tónleikum með Hallbirni Hjartarsyni, á Karlsvöku (minningartónleikum um Karl J. Sighvatsson), annaðist tónlistarstjórn á tónleikum Álftagerðisbræðra og þannig mætti áfram lengi telja.

Gunnar og Friðrik Erlingsson höfðu unnið að óperuverkefni sínu um nokkurt skeið og fengið til þess fjárstyrk, og að lokum lauk þeirri vinnu með frumflutningi á verkinu sumarið 2013. Óperan, sem hlotið hafði nafnið Ragnheiður og fjallaði um örlög Ragnheiðar biskupsdóttur í Skálholti (þeirrar sömu og Megas hafði samið lag um árið 1975), var frumflutt í tónleikaformi í Skálholti og þótti það vel við hæfi. Fjöldi einsöngvara, Kammerkór Suðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands fluttu verkið undir stjórn Petri Sakari og fékk strax frábærar viðtökur. Ragnheiður var sett á svið Íslensku óperunnar í Hörpu vorið 2014 með Þóru Einarsdóttur, Viðar Gunnarsson og Elmar Gilbertsson í stærstu hlutverkunum og var sýnd við miklar vinsældir um sumarið og svo aftur um jólin. Um haustið kom jafnframt út vegleg þriggja platna albúm með Ragnheiði, sem einnig fékk frábæra dóma og var sýningin margverðlaunuð í uppgjöri tónlistar- og leiklistargeirans við árslok, Ragnheiður var t.d. kjörinn tónlistarviðburður ársins og Gunnar tónhöfundur ársins í flokki sígildrar tónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum, auk fjölda Grímuverðlauna og -tilnefninga einnig. Óperan hlaut auk þess mjög góða dóma í erlendum fjölmiðlum. Þá var nótnabók sem innihélt níu aríur úr óperunni gefin út undir nafninu Ragnheiður en Snorri Sigfús Birgisson og Gunnar Gunnarsson höfðu umskrifað þær fyrir píanó og orgel.

Gunnar Þórðarson með gítar í hönd

Hin allra síðustu ár hefur heldur dregið úr afkastagetu Gunnars bæði hvað spilamennsku, tónsmíðar og aðra vinnu við tónlist varðar, blásið var til stórtónleika í Hörpu undir yfirskriftinni Himinn og jörð á sjötugs afmæli hans 2015 og aftur við 75 ára afmælið 2020, hann hefur jafnframt síðan 2017 reglulega komið fram á Hótel Grímsborgum með tónlistardagskrár ásamt fleirum og eitthvað komið fram með Guitar Islancio síðustu árin en aðrir hafa að mestu séð um að flytja tónlist hans. Hvað tónsmíðar varðar þá hefur hann verið að vinna að smíði nýrrar óperu ásamt Friðrik Erlingssyni en minna hefur farið fyrir léttari lögum þótt vissulega sé hann enn að. Hann hefur nú samið um sjö hundruð lög sem gefin hafa verið út á plötum frá árinu 1965, á þessum sama tíma hafa orðið miklar breytingar á útgáfuformi tónlistar, allt frá því að tónlist kom út á 45 og 33 snúninga vínylplötum til geisladiskaformsins og þaðan á óefnislegt form streymisveitna og fleiri leiða.

Þetta ótrúlegt magn tónsmíða eftir Gunnar Þórðarson er auðvitað einstakt og þótt einungis væru talin þau lög sem hafa notið vinsælda og orðið sígild má gera ráð fyrir að þau fylli fleiri tugi – jafnvel hundrað, lög eins og Ég elska alla, Ástarsæla, Gaggó Vest, Vetrarsól, Þú og ég, Himinn og jörð, Sóley, Starlight, Þitt fyrsta bros og Lífsgleði eru t.d. aðeins lítið brot þeirra laga en allir þekkja þau. Mörg þessara laga hafa verið endurgerð í meðförum annarra listamanna, Ruth Reginalds gaf t.d. út Fyrsta kossinn, Páll Óskar söng Hið ljúfa líf, Stjórnin flutti Ég elska alla og þannig mætti áfram telja, Magnús Kjartansson, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Heiða Ólafsdóttir, Vikingarna, Nylon, Haukur Heiðar og Gullý Hanna Ragnarsdóttir hafa gefið út þekkt lög hans en einnig fjöldi kóra og lúðrasveita s.s. Karlakór Keflavíkur, Kór Menntaskólans á Laugarvatni, Borgarkórinn o.fl. Lög hans hafa ennfremur heyrst í fjölda kvikmynda, leikrita, söngleikja o.fl. og jafnvel án leyfis frá honum sjálfum.

Erfitt er að henda reiður á hversu oft Gunnar hefur komið fram opinberlega til að flytja tónlist en í úttekt sem eitt blaðanna gerði fyrir nokkru var lauslega áætlað að hann hefði leikið í um tvö þúsund skipti – bara með Hljómum og Ríó tríó, svo líklega má margfalda þá tölu. Hér verður ekki einu sinni gerð tilraun til að sjá á hversu mörgum safnplötum lög Gunnars hafa komið út á.

Gunnar Þórðarson hefur samhliða starfi sínu í tónlistinni eitthvað sinnt félagsmálum tónlistarmanna, hann hefur t.d. verið í stjórn STEF og FTT og hefur reyndar verið gerður að heiðursfélaga í síðarnefnda félagsskapnum. Og viðurkenningar sem honum hefur hlotnast í gegnum tíðina eru að ýmsum meiði, fyrr er nefnt að hann naut fyrstur popptónlistarmanna listamannalauna hér á landi en hann hefur jafnframt hlotið viðurkenningar eins og Fálkaorðuna, verið Heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna, verið útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur og Listamaður Keflavíkur, verið heiðraður með Gullnöglinni á Reykjavik Guitarama Björns Thoroddsen, af útgáfufyrirtækinu Steinum, Bítladrengjunum blíðu og Obladí Oblada, og verið gerður að heiðurgesti Hólmavíkur og heiðurfélaga Bítlaklúbbs sem starfaði fyrir margt löngu. Þá hafa staðir eins og Poppminjasafnið í Keflavík / Rokksafn Íslands gert nafni hans hátt undir höfði.

Af þessum langa lestri má öllum vera ljóst að Gunnar Þórðarson er með allra stærstu nöfnum íslenskrar tónlistarsögu, og þá er ekki aðeins um léttari eða popptónlist að ræða heldur alla tónlist. Þessi hógværi og rólegi tónlistarmaður nýtur mikillar virðingar almennt og þó að hann hafi að sögn jafnvel verið afar ákveðinn hljómsveitastjóri og stjórnað jafnvel með harðri hendi má öllum vera ljóst að án þess hefðu sveitir hans ekki orðið það sem þær urðu, og nafn hans ekki jafn stórt og raun ber vitni.

Efni á plötum