Crystal (1975-91)

Crystal 1977

Heimildir um hljómsveit sem er ýmist kölluð Crystal, Kristall, Krystal eða ýmsar orðmyndir út frá þeim, eru mjög misvísandi og margar, hér er gengið út frá því að þetta sé allt sama sveitin en óskað er eftir frekari upplýsingum um hana/þær.

Fyrstu heimildir um hljómsveit með þessu nafni eru frá haustinu 1975 og þar er sveitin nefnd Kristall/Krystall. Það er svo snemma árs 1977 sem hún er kölluð Crystal/Cristal (o.fl.) og þá fyrst eru meðlimir hennar nefndir á nöfn, Elli, Alli, Jói og Árni. Bræðurnir Árni Helgi Ingason gítarleikari og Albert Ingason trommuleikari voru líklega meðal þeirra en þeir stofnuðu löngu síðar hljómsveitin Útlaga upp úr sveitinni, Jóhann Guðmundsson bassaleikari gæti einnig verið einn þeirra en hann var einnig um tíma í Útlögum.

Crystal 1984

Sveitin starfaði næstu árin og lék mestmegnis á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins en einnig á árshátíðum og þess konar skemmtunum. Um tíma var sveitin tríó þeirra Alberts, Eyjólfs [?] og Halldórs [?], og líkast til hafa einhverjar fleiri mannabreytingar orðið í henni. Ekki liggur fyrir hvort þeir félagar störfuðu samfleytt en þó er víst að sveitin starfaði á árunum 1983-87, heimild segir svo frá að hún hafi hætt störfum árið 1991 og þá hafi þeir tekið upp nafnið Útlagar og breytt um áherslur, tekið að leika kántrítónlist.

Sem fyrr segir liggur ekki alveg ljóst hvort um er að ræða eina sveit, tvær eða jafnvel fleiri en allar upplýsingar þess eðlis væru vel þegnar.