Útlagar [4] (1992-)

Útlagar

Kántrísveitin Útlagar hefur verið starfandi (með stuttum hléum) frá árinu 1992.

Sveitin var stofnuð upp úr Crystal en sú sveit hafði verið starfandi um árabil. Rauði þráðurinn í Útlögum hafa verið bræðurnir Árni Helgi gítarleikari og Albert trommuleikari Ingasynir en aðrir hafa komið og farið, ýmist hefur sveitin verið tríó eða kvartett en einnig hafa þeir komið fram tveir og jafnvel fimm talsins. Þeir bræður syngja báðir en það á reyndar við um flesta sem hafa starfað með þeim í Útlögum

Erfitt er að henda reiður á allar mannabreytingar í sveitinni en 1994 var um að ræða tríó þar sem Jóhann Guðmundsson bassaleikari lék með þeim bræðrum, síðsumars 1994 hafði Þröstur Óskarsson gítarleikari bæst í hópinn og þannig var sveitin skipuð um tíma.

1995 var Björgúlfur Egilsson kominn á bassa en staldraði stutt við og skömmu síðar var Ragnar Grétarsson kominn í hans stað, auk þeirra voru þeir Árni, Albert og Þröstur í sveitinni.

1996 var Þorsteinn Magnússon kominn í Útlaga og spilaði hann þá nær örugglega á gítar í sveitinni, þá er óljóst hver af þeim hinum færði sig yfir á bassa.

Útlagar 1996

Minna fór fyrir sveitinni á næstu árum, að minnsta kosti í fjölmiðlum, en gera má þó ráð fyrir að þeir hafi verið starfandi meira og minna þann tíma þó að litlar upplýsingar sé að hafa um mannaskipan sveitarinnar.

Árið 2008 voru Útlagar þeir Árni, Albert, Jóhann (Guðmundsson) og Garðar [?] trommuleikari, og ári síðar hafði Dóri [?] tekið við af Garðari.

2009 var stórt ár í sögu sveitarinnar en þá sendi hún frá sér tólf laga plötu með frumsömdu efni. Útlagar voru þá tríó þeirra Alberts, Árna og Jóhanns en Þröstur var þeim innan handar við upptökurnar auk annarra gesta. Platan hlaut titilinn Tvennir tíma og gaf sveitin plötuna út sjálf.

Enn bætast ný nöfn við 2011 en þá er sveitin skipuð þeim Alberti og Árna en auk þess voru Eiður Rúnarsson, Sveinn [?] og Valgerður Breiðfjörð Ólafsdóttir söngkona í henni.

Enn eru gloppur í meðlimaskipan Útlaga en 2015 hafði Anton Kröyer hljómborðsleikari gengið til liðs við sveitina, aðrir meðlimir hennar þá voru Árni, Albert og Valgerður.

Útlagar hafa mestmegnis herjað á skemmtistaði og pöbba á höfuðborgarsvæðinu en hafa einnig einstöku sinnum farið í styttri túra út á land og jafnvel út fyrir landsteinana með prógram sitt, sem aðallega hefur verið byggt upp af sveitatónlist frá ýmsum tímum.

Efni á plötum