Afmælisbörn 8. desember 2020

Rabbi

Á þessum degi eru afmælisbörn Glatkistunnar tvö:

Guðni (Þórarinn) Finnsson bassaleikari Ensímis er fimmtugur í dag og á því stórafmæli dagsins. Auk þess að vera bassaleikari í Ensími hefur Guðni leikið með hljómsveitum eins og Áhöfninni á Húna II, Bikarmeisturunum, Dr. Spock, Rass, Pondus, Hispurslausa kvartettnum og mörgum fleirum. Guðni hefur meira að segja farið sem einn af fulltrúum Íslands í Eurovision keppnina þegar hann var í Pollapönks-liðinu.

Rafn Jónsson (Rabbi) trommuleikari, lagahöfundur, plötuútgefandi og margt annað, hefði líka átt afmæli þennan dag en hann lést 2004 úr MND sjúkdómnum. Rabbi (fæddur 1954) lék með ógrynni hljómsveita á sínum ferli en þekktustu sveitir sem hann lék með voru Sálin hans Jóns míns, Bítlavinafélagið, Grafík, Ýr og Haukar. Rabbi gaf einnig út nokkrar sólóplötur og plötur í félagi við aðra, þar sem fjölmörg lög hans nutu vinsælda.

Vissir þú að Þór Eldon og Björk úr Sykurmolunum eiga saman soninn og tónlistarmanninn Sindra Eldon?