Freymóður Jóhannsson (1895-1973)

Freymóður Jóhannsson

Dægurlaga- og textahöfundurinn Freymóður Jóhannsson (einnig þekktur undir nafninu Tólfti september) var einn af þeim fremstu í sinni röð um og eftir miðbik síðustu aldar en hann átti þá stóran þátt í að móta íslenska dægurlagamenningu sem þá var að verða að veruleika. Freymóður var einnig þekktur fyrir ýmislegt annað.

Freymóður Jóhannsson var Eyfirðingur, fæddur á Árskógsströnd haustið 1895 en flutti með fjölskyldu sinni inn á Akureyri á barnsaldri, þar komu í ljós listhæfileikar hans en hann átti eftir að starfa að myndlist með ýmsum hætti. Honum var ljóst að hann gæti tæplega gert myndlistina að ævistarfi sínu þarna í byrjun síðustu aldar og því fór að hann hélt til Danmerkur þar sem hann nam húsamálun en um leið einnig leiktjaldamálun, síðar nam hann einnig myndlist á Ítalíu.

Þegar hann kom aftur heim til Íslands frá Danmörku hóf hann til að starfa við fag sitt en sinnti um leik áhugamálum sínum sem tengdust leikhúsinu og var hann um tíma áberandi í leikhúslífi Akureyringa og félagsstörfum því tengdu, hann samdi leikrit, leikstýrði og málaði leiktjöld en sinnti þá einnig myndlistinni. Þess má til dæmi geta að hann annaðist allar innanhússkreytingar og -málun í Húsavíkurkirkju en þær skreytingar hafa fengið að halda sér allt til dagsins í dag. Hann málaði jafnframt mikið af málverkum og hélt fjölda einkasýninga og í samstarfi við aðra hér heima og erlendis.

Freymóður hafði byrjað að starfa við bindindishreyfinguna og var fljótt áberandi í starfi góðtemplara (IOGT) á Akureyri, þegar hann flutti suður til Reykjavíkur um 1930 lét hann einnig til sín taka á þeim vettvangi sunnan heiða og varð ötull talsmaður bindindishreyfingarinnar um árabil, reyndar alla ævi. Freymóður var sá sem hélt utan um skipulag og framkvæmd frægrar danslagakeppni sem Skemmtifélag góðtemplara (SGT) hélt undir merkjum Sumarklúbbs Templara (SKT) á árunum 1950 til 60 en þær keppnir nutu mikilla vinsælda og skópu af sér fjöldann allan af sígildum dægurlagaperlum.

Freymóður á sínum yngri árum

Reyndar fór svo að þessi dægurlagakeppni varð til þess að Freymóður varð þekktur dægurlaga- og textahöfundur en einhverju sinni (líklega 1952) er honum fannst þátttaka lagahöfunda vera í einhverju lágmarki tók hann upp á því senda í keppnina lög eftir sjálfan sig til uppfyllingar svo þátttakan væri ekki fram úr hófi léleg, þetta gerði hann undir höfundarnafninu „Tólfti september“ sem er afmælisdagur hans en dulnefnið hafði hann einhverju sinni notað í keppni á námsárum sínum í Danmörku. Þegar lögin hans unnu til verðlauna varð ekki aftur snúið og hann hóf að semja lög og texta í þónokkrum mæli, mörg þeirra urðu vinsæl og voru gefin út á plötum með hinum og þessum flytjendum, mörg þeirra unnu til verðlauna í dans- og dægurlagakeppnum þess tíma.

Því má segja að Freymóður hafi óvart orðið einn af vinsælustu dægurlagahöfundum samtímans og mörg laganna hafa orðið sígild. Hér má nefna lög eins og Draumur fangans, Litli tónlistarmaðurinn, Þú ert vagga mín haf, Bergmál hins liðna (Hljóðaklettar), Halló, Frostrósir, Blikandi haf, Litla stúlkan við hliðið og Heimþrá. Söngvarar á borð við Erlu Þorsteins, Sigurð Ólafsson, Hauk Morthens, Sigurveigu Hjaltested o.fl. fluttu lög hans sem komu út á 78 snúninga plötum (og endurútgefin á 45 snúninga) og þegar Freymóður fagnaði 75 ára afmæli árið 1970 gáfu SG-hljómplötur út breiðskífu þar sem þau systkini Elly og Vilhjálmur Vilhjálms fluttu lög hans, hún bar titilinn Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja lög eftir Tólfta september. Mörg laga hans hafa verið endurútgefin og endurgerð í meðförum fjölmargra annarra tónlistarmanna í seinni tíð, þar má nefna flytjendur eins og Pál Rósinkranz, Ara Jónsson, Hreindísi Ylvu, L’amour fou, Andreu Gylfadóttur, Ragnheiði Gröndal og síðast en ekki síst Björk Guðmundsdóttur sem gerði Litla tónlistarmanninum skil með með Tríói Guðmundar Ingólfssonar.

Freymóður Jóhannsson (Tólfti september)

Freymóður lét fjölmörg málefni tengd tónlist sig varða og hann var duglegur að gagnrýna textahöfunda í dægurlagaheiminum, einkum þá sem ortu á enskri tungu en hann ritaði mörg lesendabréf í dagblöðin þess efnis. Reyndar lét hann til sín taka í ýmsum öðrum málefnum og má í því samhengi geta að hann barðist heiftúðlega gegn sýningum kvikmyndahúsanna á hvers kyns klámmyndum og öðru sem stríddi gegn siðgæðisvitund hans. Fyrr er getið starfa hans fyrir góðtemplarahreyfinguna en hann kom einnig að annars konar félagsstörfum, var t.d. í stjórn Leikfélags Reykjavíkur, þar af framkvæmdastjóri um tíma og kom að stofnun Félags íslenzkra dægurlagahöfunda og fyrsti formaður þess félags.

Freymóður Jóhannsson lést vorið 1973 á sjötugasta og áttunda aldursári en hann hafði þá átt í veikindum um tíma.

Efni á plötum