Íslenski blásarakvintettinn (1976-88)

Íslenski blásarakvintettinn

Íslenski blásarakvintettinn starfaði um nokkurra ára skeið á árunum 1976 til 1988 og lék þá á nokkrum tónleikum, plata var alla tíð í farvatninu en kom þó aldrei út.

Kvintettinn var stofnaður árið 1976 og framan af voru í honum Manuela Wiesler flautuleikari, Sigurður Ingvi Snorrason klarinettuleikari, Kristján Þ. Stephensen óbóleikari, Stefán Þ. Stephensen hornleikari og Hafsteinn Guðmundsson fagottleikari.

Íslenski blásarakvintettinn starfaði ekki samfleytt enda er slík samsetning hljómsveitar ekki þess eðlis að mikið sé að gera í tónleikahaldi, þau komu þó saman og léku á tónleikum með reglulegu millibili fyrstu fimm árin, yfirleitt í tengslum við Kammermúsíkklúbbinn, Listahátíð í Reykjavík o.fl.

Á þessum árum kom oftar en einu sinni fram í viðtölum við Íslenska blásarakvintettinn að fyrirhuguð væri útgáfa plötu með þeim fjórum íslensku blásarakvintettum sem þá höfðu verið samdir, en af þeirri útgáfu varð aldrei hver svo sem ástæðan var.

Á næstu árum eftir 1981 kom Íslenski blásarakvintettinn ekkert fram en Manuela Wiesler var þá mikið upptekin við tónleikahald erlendis, það var því ekki fyrr en árið 1987 sem kvintettinn kom fram á tónleikum og var þá töluvert breyttur að mannskap. Þá voru Kristján og Sigurður Ingi einir eftir af upprunalega hópnum en í stað hinna þriggja voru þeir Björn Th. Árnason fagottleikari, Þorkell Jóelsson hornleikari og Martial Nardeau flautuleikari komnir. Kvintettinn virðist hafa komið fram í eitt skipti eftir það, í Vestur-Þýskalandi í tengslum við heimsókn forseta Íslands þangað árið 1988. Ekki liggur fyrir hverjijr skipuðu kvintettinn þá en þar með var sögu Íslenska blásarakvintettsins lokið.