Íslenski kórinn í Gautaborg (1989-)

Íslenski kórinn í Gautaborg

Frá árinu 1989 hefur verið starfræktur blandaður kór Íslendinga í Gautaborg í Svíþjóð undir nafninu Íslenski kórinn í Gautaborg.

Nokkrar tilraunir höfðu verið gerðar til að starfrækja kór í Gautaborg áður en hjónin Kristinn Jóhannesson og finnsk eiginkona hans Tuula Jóhannesson komu til sögunnar árið 1989 en þau stjórnuðu kórnum allt til ársins 2008, Kristinn var þó titlaður stjórnandi en þau bæði hafa útsett mikið fyrir kórinn. Seth-Reino Ekström tók við kórstjórninni af þeim en staldraði fremur stutt við áður en þau hjón komu aftur til sögunnar og stýrði kórnum til 2014. Þorsteinn Sigurðsson og síðan Lisa Fröberg hafa verið stjórnendur kórsins síðustu árin og er sú síðarnefnda enn við stjórnvölinn eftir því sem best verður vitað.

Íslenski kórinn í Gautaborg, sem yfirleitt hefur verið fremur fjölmennur – allt upp að fimmtíu manns, hefur alltaf verið duglegur við almennt tónleikahald og haldið nokkra fasta tónleika árlega m.a. í kringum jól en einnig komið fram á fjölda kóramóta – kórinn kom m.a. að því að setja á fót kóramót íslenskra kóra erlendis en það er haldið með reglulegum hætti, einnig hefur kórinn komið til Íslands til tónleikahalds. Þá hefur kórinn sungið við messu íslenska safnaðarins í Gautaborg frá stofnun hans 1994 en hann hefur haft á dagskrá bæði trúarlega tónlist og veraldlega, verið duglegur að kynna tónlist eftir íslensk tónskáld en einnig sungið sænka tónlist.

Kórinn hefur tvívegis sent frá sér plötur, í fyrra sinnið árið 1996 en hún bar titilinn Fyrsti, tveimur árum síðar (1998) kom svo út önnur plata undir heitinu Heima og að heiman. Upplýsingar um þessar útgáfur eru því miður afar takmarkaðar og er því óskað eftir þeim. Söng kórsins má einnig heyra á safnplötunni Íslenskt kóramót í Lundi 2001, en hún var gefin út í tilefni af einu kóramóta íslenskra kóra erlendis, sem nefnt er hér að framanverðu.

Innan Íslenska kórsins í Gautaborg hafa að minnsta kosti tveir smærri sönghópar starfað, annars vegar Víkingasveitin svokallaða, hins vegar Sönghópurinn BB.

Efni á plötum