Saktmóðigur (1991-)

Saktmóðigur 1991

Hljómsveitin Saktmóðigur telst til pönkssveita og sé eingöngu tekið mið af þeim sveitum sem starfað hafa samfleytt er hún líklega langlífust allra slíka hérlendis. Á starfstíma sínum hefur Saktmóðigur sent frá sér fjölda platna og fátt bendir til þess að sveitin hætti störfum í bráð.

Það mætti e.t.v. segja að tilviljun hafi ráðið því að Saktmóðigur varð til. Í Menntaskólanum á Laugarvatni voru nokkrir félagar, Davíð Ólafsson, Svavar Njarðarson, Ragnar Ríkharðsson, Karl Óttar Pétursson og Þorvaldur Halldór Gunnarsson sem voru á svolítið annarri línu en þorri nemenda skólans, sem er reyndar ekki ýkja stór. Þeir félagar voru öðruvísi þenkjandi og til að sinna sköpunarþrá sinni gáfu þeir út blað í skólanum sem þeir kölluðu Logsýru, það blað hafði að geyma efni í formi frumsaminna ljóða og greina sem áttu ekkert erindi í skólablað ML. Eftir að þeir höfðu gefið út tvö tölublöð af Logsýru kom upp sú hugmynd hjá þeim að stofna fremur pönkhljómsveit til að koma þessum boðskap sínum á framfæri og þannig varð Saktmóðigur til. Þess má geta að saktmóðigur er lýsingarorð og merkir hógvær eða hæverskur en það ku vera komið úr dönsku.

Þar sem fimmmenningarnir höfðu engan tónlistarlegan grunn má ætla að tilviljun hafi ráðið því hver hljóðfæraskipan sveitarinnar varð en hún var á þann veg að Davíð (Grænn [?]) gerðist bassaleikari, Svavar gítarleikari (Rauður) sem og Ragnar (Gulur), Karl Óttar söngvari (Svartur) og Þorvaldur (Blár) trommuleikari, fyrstu árin gengu þeir félagar undir lita-nöfnum sem sjá má hér að framan.

Þetta var fljótlega eftir áramótin 1990-91 og fimmmenningarnir hófust handa við að semja á fullu og sveitin mun hafa komið fram í fáein skipti opinberlega innan skólans áður en leið þeirra lá í Músíktilraunir Tónabæjar sem haldnar voru snemma vors, m.a. lék sveitin á tónleikum í ML sem voru hljóðritaðir. Sveitin komst ekki í úrslit Músíktilraunanna en vakti þónokkra athygli fyrir sitt hráa pönk með beittum textum sem flestir voru eftir Karl Óttar en sveitin þótti nokkuð á skjön við það harða rokk sem þá var ríkjandi í tilraununum. Blaðamenn gáfu Saktmóðigum auga og athygli og í kjölfar Músíktilrauna hafði Dr. Gunni, sem stóð í kassettu-útgáfu um þetta leyti undir merkjum Erðanúmúsík, samband við sveitina og bauð þeim að hafa lag á Snarl III sem þá stóð til að gefa út.  Þetta varð þeim félögum heilmikil hvatning og í stað þess að leysa upp sveitina um vorið eins og hugsanlega hefði gerst þar sem þeir voru allir að útskrifast héldu þér starfinu áfram.

Saktmóðigur á tónleikum

Fyrsta lag Saktmóðigra kom því út á Snarli III um haustið 1991 og vakti nokkra athygli en um var að ræða upptöku af laginu Pervertinn, frá áðurnefndum tónleikum í ML. Sveitin hafði ekkert starfað um sumarið en fór af stað aftur um haustið og gerði út frá höfuðborgarsvæðinu eftir það. Svavar gítarleikari var reyndar kominn í háskólanám á Bifröst en aðrir meðlimir voru staddir í Reykjavík.

Það var svo eftir áramótin 1991-92 sem meira fór aðeins að kveða að sveitinni á tónleikum, þeir félagar léku þá t.d. um vorið 1992 á tónleikum í Fellahelli ásamt fleiri sveitum og í kjölfarið léku þeir stöku sinnum opinberlega án þess þó að vera áberandi í tónlistarsenunni. Í blaðaviðtali sögðust sveitarmeðlimir líta á tónlist sína sem uppreisn gegn „popp- og sveitaballaþvælunni“ sem þeir væru búnir að fá sig fullsadda af, textar þeirra væru sprottnir af þeim pirringi og reiði og spilamennskan veitti þeim útrás, sem fór ekki á milli mála því sveitin þótti alveg sérlega skemmtilega á sviði.

Árið 1992 kom út fyrsta afurð Saktmóðigra en það var níu laga kassetta sem bar titilinn Legill og kom út undir útgáfumerkinu Logsýra – eins og blaðið sem þeir gáfu út á Laugarvatni. Ekki liggur fyrir hversu stórt upplagið af Legli var en kassettan er afar sjaldgæf og sjaldséð meðal safnara. Hún hlaut ekki mikla athygli og almennar vinsældir sveitarinnar hafa reyndar aldrei verið til staðar enda er um jaðartónlist að ræða sem ratar sjaldnast í útvarpsspilun, sveitinni hefur þó alltaf fylgt fastur en lítill kjarni aðdáenda.

Saktmóðigur varð smám saman betur spilandi hljómsveit eftir því sem meðlimir hennar lærðu á hljóðfærin þannig að tónlistin fágaðist eitthvað við þá reynslu en sjálfir kölluðu þeir tónlist sína gjarnan kjarnakraðak. Sumarið 1993 lék sveitin á tónleikum tengdum óháðu listahátíðinni Ólétt ´93, og það sama sumar áttu þeir félagar einnig lag (Líkhamar) á safnplötunni Núll & nix, það lag hafði verið hljóðritað í upptökutörn 1992 en heilmikið óútgefið efni með sveitinni er til frá þeim upptökum.

Það var orðið ljóst síðsumars 1993 að Svavar myndi ekki halda áfram með sveitinni og um haustið hélt sveitin „minningartónleika“ af því tilefni um hann. Um það leyti hófu þeir hinir sem eftir voru að hljóðrita næstu plötu en það var tíu tommu plata sem kom út seint um haustið, pressuð í rauðan vínyl. Platan, sem var fimm laga bar nafnið Fegurðin, blómin & guðdómurinn og fékk þokkalega dóma í vikublaðinu Eintaki.

Saktmóðigur árið 1999

Saktmóðigur hélt sínu striki, spilaði fáeinum sinnum á árinu og í byrjun árs 1995 tóku þeir félagar upp plötu sem kom út um vorið og var fyrsta alvöru útgáfa sveitarinnar, breiðskífan Ég á mér líf – undir útgáfumerkinu Logsýru, reyndar eins og allar aðrar plötur sveitarinnar. Ég á mér líf var fimmtán laga skífa (geisladiskur) sem hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu en á henni nutu þeir aðstoðar Philips Roughton sem lék á írskt langspil og Magnúsar Jenssonar gítar- og hljómborðsleikara.

Fljótlega eftir útgáfu breiðskífunnar urðu þær breytingar á skipan sveitarinnar að Þorvaldur trommuleikari yfirgaf hana en nýr trymbill, Daníel Viðar Elíasson gekk í sveitina eftir að hafa svarað auglýsingu í DV – þar sem m.a. setningin „börn engin fyrirstaða“ kom fyrir, áður hafði Stefán Jónsson komið inn í sveitina og tekið við bassaleikarastöðunni af Davíð sem færði sig yfir á gítar við það tækifæri. Saktmóðigur lék töluvert mikið á tónleikum í kjölfarið, fylgdi skífunni þannig eftir og varð áberandi í jaðartónleikasenunni. Lítið lát varð þannig á tónleikahaldi sveitarinnar næstu árin og í hönd fór afkastamikill tími einnig á útgáfusviðinu. Fljótlega eftir útgáfu breiðskífunnar hóf sveitin vinnslu á næstu plötu en hún kom út 1996 og var tíu tommu vínylskífa undir heitinu Byggir heimsveldi úr sníkjum, þessi fjórða afurð sveitarinnar var fimm laga en virðist ekki hafa fengið mikla umfjöllun fjölmiðla.

Næsta plata kom svo út 1998, tíu laga breiðskífa (geisladiskur) sem hét einfaldlega Plata og á henni er m.a. að finna þýska næntís slagarann 99 Luftballons sem Nena hafði gert vinsælt nokkrum árum fyrr, hér þarf vart að taka fram að cover-útgáfa Saktmóðigra átti lítið skylt við upprunalegu útgáfuna. Plata var nokkuð vegleg útgáfa og henni fylgdi mikil textabók, hún hlaut mun meiri athygli en fyrri skífur sveitarinnar og fleiri dómar birtust um hana en fyrri plötur, hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, Fókusi og Degi.

Sem fyrr segir var Saktmóðigur afar virk á þessum tíma, lék töluvert mikið á tónleikum og yfirleitt ásamt fleiri hljómsveitum í svipuðum eða skyldum geira en slíkum sveitum fjölgaði nokkuð eftir því sem nær dró aldamótum. Þannig var sveitin ein þeirra sem komu fram á árlegri Pönk-hátíð í Norðurkjallara Menntaskólans í Hamrahlíð og þegar tónleikasafnplata með hljómsveitum sem þar höfðu komið fram, Pönkið er dautt, kom út árið 2000 var sveitin þeirra á meðal með þrjú lög.

Á tónleikum

Eftir aldamótin fór heldur að draga úr spilamennskunni hjá þeim félögum, þeir voru flestir orðnir háskólamenntaðir fjölskyldumenn með lítil börn og slíkt passaði að sumu leyti illa við pönkhljómsveit – þar til börnin að minnsta kosti væru orðin aðeins eldri. Saktmóðigur hætti þó aldrei störfum og sveitin spilaði yfirleitt í fáein skipti á ári að minnsta kosti s.s. á áðurnefndri pönk-hátíð í MH, Iceland Airwaves, Norðanpaunk og fleiri tónleikum og festivölum. Fastur punktur í spilamennsku hennar var tónlistarhátiðin Eistnaflug en þar lék sveitin frá upphafi 2005 og til dagsins í dag, þ.e. þegar hátíðin hefur verið haldin. Reyndar þróuðust málin á þann veg að Karl Óttar varð meðal þeirra sem héldu utan um hátíðina, var framkvæmdastjóri hennar um tíma og fluttist reyndar austur til að gegna stöðu bæjarstjóra Fjarðabyggðar en hann var áður forstöðumaður lögfræðideildar Arion banka. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru sem fyrr er nefnt einnig langskólamenntaðir og það eitt og sér hefði einhvern tímann þótt sérstakt hjá pönkhljómsveit.

Nokkur langur tími leið frá Plötu fram að útgáfu næstu plötu en hún kom út árið 2011 og bar titilinn Guð hann myndi gráta. Þar var á ferð tíu laga skífa (geisladiskur) sem fékk mjög góða dóma í Fréttatímanum og Grapevine, þokkalega í Morgunblaðinu en slakari í Fréttablaðinu. Sveitin hafði þarna verið í óbreyttri mynd allt frá árinu 1995 og þannig hefur hún reyndar verið skipuð síðan, Daníel Viðar á trommur, Davíð og Ragnar á gítara, Stefán á bassa og svo Karl Óttar sem hefur alltaf séð um söng og textagerð.

Styttra varð nú á milli útgáfu platna sveitarinnar og aðeins liðu tvö ár uns næsta skífa leit dagsins ljós árið 2013 en að þessu sinni var um smáskífu að ræða, Demetra er dáin en þessi skífa var þriggja laga sjö tommu vínyll. Eins konar endurútgáfa á þessari smáskífu kom svo út ári síðar (2014) sem geisladiskur en hún bar heitið Eistnaflugsdans / Demetra er dáin en þar voru lögin þrjú af fyrrnefndu plötunni með aukalagi sem sveitin gaf út í tilefni af tíu ára afmæli Eistnaflugs.

Fjögur ár liðu og næsta plata kom út árið 2018, þar var enn á ferð breiðskífa en hún kom út einvörðungu á vínylplötuformi eftir því sem næst verður komist. Platan sem er níu laga heitir Lífið er lygi og á henni hefur ekkert verið slegið af þótt sveitin hafi þarna verið orðin hátt í þriggja áratuga gömul. Og sveitin er enn starfandi þótt minna hafi farið fyrir tónleikahaldi allra síðustu misserin þar sem Covid alheimsfaraldur hefur verið helsta ástæðan, það má því gera ráð fyrir að Saktmóðigur haldi áfram að miðla frumsömdu pönki þegar tækifærin gefast til.

Efni á plötum