Saga Class [2] (1993-2014)

Saga Class og Sigrún Eva Ármannsdóttir

Um langt árabil var hljómsveit starfandi undir nafninu Saga Class (einnig voru rithættirnir Saga Klass og Sagaklass notaðir) en sveitin var lengst af húshljómsveit í Súlnasal Hótel Sögu enda vísar nafn sveitarinnar til hótelsins.

Hópurinn sem skipaði sveitina hafði um nokkurra ára skeið á undan verið starfandi undir nafninu Sambandið og hafði meira að segja sent frá sér plötu undir því nafni en þegar þeir félagar voru fengnir til að leysa Hljómsveit Björgvins Halldórssonar af hólmi á sýningunni Er það satt sem þeir segja um landann? haustið 1993 breyttu þeir nafni sveitarinnar í Saga Class. Reyndar virðist sveitin hafa starfað áfram utan Hótel Sögu undir Sambands-nafninu að minnsta kosti til ársins 1995, líklega lengur.

Meðlimir sveitarinnar á þessum tímapunkti voru þeir Bjarni Helgason trommuleikari, Albert Pálsson hljómborðsleikari, Gunnar Guðjónsson bassaleikari, Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari og Reynir Guðmundsson söngvari en sá síðast taldi var þá líkast til þekktastur þeirra félaga, hafði sungið Kanínuna með hljómsveitinni Ýr frá Ísafirði um tveimur áratugum fyrr. Til að auka fjölbreytileika og möguleika sveitarinnar á sviðinu á Sögu fékk sveitin til sín söngkonu og var það Berglind Björk Jónasdóttir sem tók það hlutverk að sér. Nokkrar aðrar söngkonur áttu þó eftir að starfa með sveitinni og reyndar fjölmargir aðrir meðlimir enda starfaði hún með hléum í ríflega tvo áratugi.

Saga Class var húshljómsveit á Hótel Sögu flesta vetur sem hún starfaði en saga hennar nær allt til ársins 2014, jafnvel lengur – t.d. er Facebook-síða sveitarinnar enn uppfærð stöku sinnum án þess þó að sveitin virðist vera að leika á dansleikjum. Hljómsveitin lék á fjölmörgum tónlistarsýningum og skemmtidagskrám á Sögu, þar má nefna sýningar með Ladda og fleiri skemmtikröftum (t.d. Þjóðhátíð á Sögu) og Ríó tríó og alltaf lék sveitin á dansleikjum eftir sýningar hvort sem hún tók þátt í sýningunum sjálfum eða ekki. Yfir sumartímann lék Saga Class víða á dansleikjum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og t.d. lék sveitin eitt sumarið á Hótel KEA á Akureyri, almennum dansleikjum fjölgaði þegar minna var að gera á Hótel Sögu. M.a. lék sveitin í nokkur skipti á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgar og einnig var fastur liður hjá þeim í mörg ár að leika á nýársdansleik í Perlunni.

Saga Class

Liðsskipan Saga Class hélst óbreytt fyrstu árin eða þar til Guðrún Gunnarsdóttir leysti Berglindi Björk af hólmi, hún stoppaði ekki lengi við í sveitinni því Sigrún Eva Ármannsdóttir tók við af henni og söng með sveitinni allt til ársins 2003, þá tók Cecilía Magnúsdóttir við söngnum en hún hafði þá leyst Sigrúnu Evu eitthvað af áður. Cecilía söng með Saga Class líklega þar til sveitin hætti störfum en fleiri söngkonur s.s. Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og Stefanía Svavarsdóttir hafa einnig eitthvað sungið með sveitinni. Arnar Freyr Gunnarsson leysti síðan Reyni söngvara af hólmi líklega í kringum 2010.

Breytingar urðu einnig á hljóðfæraskipan Saga Class, árið 2002 hætti Bjarni trommuleikari og tók Andri Hrannar Einarsson við af honum en þau Cecilía höfðu áður verið saman í hljómsveitinni 8 villt, Jón Borgar Loftsson gerðist svo trommari sveitarinnar í kringum 2010 og um svipað leyti tók Jón Kjartan Ingólfsson við af Gunnari bassaleikara. Enn einn trommarinn, Sigfús Óttarsson hafði svo tekið við undir lokin en þá voru þeir Albert hljómborðsleikari og Þröstur gítarleikari þeir einu sem starfað höfðu með Saga Class frá upphafi.

Saga Class sendu frá sér fáein lög í spilun á útvarpsstöðvum en þau náðu ekki hylli hlustenda (eða líklega ætti fremur að segja dagskrárgerðarmanna) og fóru því ekki hátt, bæði var hér um að ræða erlend tökulög (jólalag) og frumsamið efni.