Þúsund andlit (1991-95)

Þúsund andlit

Hljómsveitin Þúsund andlit herjaði á sveitaböllin á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar, átti þá nokkur lög á safnplötum og gaf út eina breiðskífu.

Sveitin var reyndar fyrst sett saman fyrir Landslagskeppnina haustið 1991 en þá höfðu þeir Birgir Jón Birgisson hljómborðsleikari og Friðrik Karlsson gítarleikari samið lög fyrir keppnina og fengið Sigrúnu Evu Ármannsdóttur með sér til að syngja. Á plötu sem kom út í tengslum við keppnina voru Birgir Bragason bassaleikari og Halldór G. Hauksson trommuleikari einnig með þeim, og má segja að það hafi verið fyrsta útgáfa sveitarinnar, sem hlaut þá nafnið Þúsund andlit (1000 andlit).

Að Landslagskeppninni lokinni fór af stað atburðarás sem breytti skipan sveitarinnar allmikið en Friðrik gítarleikari gekk þá til liðs við Stjórnina sem fór síðan í lokakeppni Eurovision vorið 1992 undir nafninu Heart 2 heart og flutti lagið Nei eða já (Time after time). Þau fengu reyndar Sigrúnu Evu til að syngja lagið þar ásamt Sigríði Beinteinsdóttur en það er önnur saga.

Það var því um áramótin 1992-93 sem þau Birgir Jón og Sigrún Eva þurftu að manna sveitina upp á nýtt en þau voru um þetta leyti einnig í hljómsveitinni Upplyftingu og yfirgáfu hana, og í kjölfarið kom fram ný útgáfa af Þúsund andlitum sem auk þeirra tveggja skipuðu nú Tómas Tómasson gítarleikari og söngvari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari, færeyskur bassaleikari að nafni Arnold Ludwig og bakraddasöngkonurnar tvær, Cecilía Magnúsdóttir og Hrafnhildur Björnsdóttir. Þar með voru Þúsund andlit orðin að sjö manna sveit. Hrafnhildur staldraði reyndar ekki lengi við í sveitinni og tók Eyrún María Ingólfsdóttir sæti hennar, en hafði fremur stutta viðveru einnig.

Þúsund andlit 1994

Strax sumarið 1992 fór að bera nokkuð á Þúsund andlitum, sveitin átti þá lög á safnplötunum Grimm sjúkheit og Bandalög 5 og nýtti athyglina til að spila hressilegt sumarpopp á sveitaböllum um land allt. Og þannig varð sumarið aðal tími sveitarinnar, svo varð einnig sumarið 1993 en þá voru það safnplöturnar Bandalög 6: Algjört skronster, Ýkt stöff og Í 7. himni sem sveitin gaf lög sín út á.

Einhver þreyta var komin í mannskapinn eftir sumarvertíðina 1993 og spilaði sveitin mjög lítið næsta árið, en vorið 1994 var aftur talið í ballgírinn og samhliða því sem sveitin vann að breiðskífu komu lög út á safnplötunum Algjört kúl og Reif í skeggið & Dans(f)árið ´94.

Sveitin var þá með tveimur nýjum meðlimum, Ari Einarsson gítarleikari hafði tekið við af Tómasi og Eiður Arnarsson af Arnold. Cecilía hafði þá tekið við stærra hlutverki en áður í sveitinni og söng jafnt á við Sigrúnu Evu.

Platan kom síðan út um sumarið, bar heiti sveitarinnar og var gefin út af Steinum. Á henni var að finna helstu slagarana sem áður höfðu komið út á safnplötunum en einnig nokkur ný lög, vinsælust laga Þúsunda andlita voru Ein nóttin enn, Fullkomin og Vængbrotin ást, sem öll fengu mikla útvarpsspilun og skópu sveitinni nokkrar tekjur í formi sveitaballagróða. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Degi en slakari í Alþýðublaðinu.

Þúsund andlit starfaði út árið 1994 og eitthvað fram á nýja árið en var þá hætt störfum. Meðlimir sveitarinnar hafa (og höfðu áður) verið áberandi í íslensku tónlistarlífi allt til þessa dags.

Lög með sveitinni hafa birst á safnplötum síðar s.s. Verslunarmannahelgin (1999), Ástarperlur 2 (1998), Ástin er (1993) og 100 íslenskar ballöður (2008).

Efni á plötum