Sigrún Eva Ármannsdóttir (1968-)

Sigrún Eva Ármannsdóttir

Söngkonan Sigrún Eva Ármannsdóttir spratt með nokkru írafári fram á sjónarsvið íslenskrar tónlistar undir lok níunda áratugarins, var töluvert áberandi í nokkur ár á eftir en haslaði sér völl á allt öðrum vettvangi eftir aldamótin og hefur að mestu lagt söngferilinn á hilluna.

Sigrún Eva (f. 1968) er fædd og uppalin á Ólafsfirði, lærði eitthvað á blokkflautu og píanó þar en á menntaskólaárum sínum á Akureyri virðist hún hafa byrjað að syngja, hún tók þá þrívegis þátt í Viðarstauk keppninni sem er tónlistarkeppni sem haldin hefur verið innan Menntaskólans á Akureyri síðan 1983 – sem söngkona í hljómsveitum sem voru gagngert stofnaðar til að taka þátt, ein þeirra gekk undir nafninu Gengið ilsig en ekki liggja fyrir upplýsingar um nöfn hinna sveitanna.

Eftir stúdentspróf var Sigrún Eva um tíma í Frakklandi en þegar hún kom heim árið 1989 hófst hinn eiginlegi söngferill hennar heima á Ólafsfirði eftir dansleik hljómsveitarinnar Upplyftingar þar í bæ en hún var þar að ganga frá eftir ballið, hún tók þá lagið með sveitinni og þeim leist svo vel á söng hennar að þeir bentu aðilum sem stóðu að tónlistarsýningunni Rokkóperur á Hótel Íslandi á hana og í kjölfarið hóf hún að syngja í sýningunni. Jafnframt benti Birgir Jóhann Birgisson sem þá var í Upplyftingu Lýði Ægissyni á hana en hann var þá að stjórna plötuupptökum fyrir Lýð, það varð því úr að hún söng inn í fyrsta sinn inn á plötu.

Í kjölfarið gerðust hlutirnir tiltölulega hratt fyrir sig, Hilmar Hlíðberg Gunnarsson sá Sigrúnu Evu syngja á Rokkóperu-sýningunni á Hótel Íslandi og fékk hana til að syngja lag sitt Ég féll í stafi sem var meðal keppnislaga í sönglagakeppninni Landslaginu sem haldin var í annað sinn vorið 1990. Þrátt fyrir að lagið sigraði ekki (Álfheiður Björk bar sigur úr býtum) varð það feikivinsælt og Sigrún Eva var aukinheldur kjörin besti flytjandi keppninnar. Þar með var hún komin á kortið, hún söng í sjónvarpsþætti í kjölfarið, í úrslitum Fegurðarsamkeppni Íslands og gerðist svo söngkona Upplyftingar um sumarið en sveitin sendi svo frá sér plötuna Einmana um haustið þar sem Sigrún Eva söng titillagið sem naut töluverðra vinsælda, Upplyfting var svo húshljómsveit á Hótel Íslandi um veturinn.

Sigrún Eva 1992

Og þannig gekk þetta áfram, næst var komið að undankeppni Eurovision 1991 þar sem hún söng ásamt Jóhannesi Eiðssyni lagið Lengi lifi lífið sem vakti nokkra athygli, hún söng jafnframt í sýningunum Í hjartastað og Aftur til fortíðar á Hótel Íslandi þar sem Upplyfting var áfram húshljómsveit og um haustið söng hún lagið Vængbrotin ást í Landslagskeppninni sem nú hafði verið færð til í dagatalinu til að skarast ekki á við undankeppni Eurovision. Þau Birgir Jóhann höfðu ásamt Friðriki Karlssyni fluttu lagið og kölluðu sig Þúsund andlit.

Snemma árs 1992 var aftur komið að undankeppni Eurovision og nú flutti Sigrún Eva ásamt Sigríði Beinteinsdóttur lagið Nei eða já, og þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina og fóru utan til Svíþjóðar sem framlag Íslands um vorið undir nafninu Heart 2 heart. Grétar Örvarsson var höfundur lagsins (ásamt Friðriki Karlssyni) og var það í rauninni hljómsveitin Stjórnin auk Sigrúnar Evu sem voru framlag Íslands í keppninni en lagið hafnaði þar í sjöunda sæti sem hlýtur að teljast viðunandi árangur.

Um sumarið 1992 var rykið þurrkað af nafninu Þúsund andlit og fór sú sveit eitthvað út í sveitaballabransann og sendi frá sér lög á safnplötum, og um haustið var enn talið í Landslagskeppnina en þar söng Sigrún Eva lagið Um miðja nótt eftir Friðrik Karlsson. Hún átti eftir að syngja aftur í undankeppni Eurovision, flutti þar árið 1994 lagið Nætur eftir margnefndan Friðrik, sigraði þá keppni en af einhverjum ástæðum var Sigríður Beinteinsdóttir send utan í lokakeppnina og kom það mörgum á óvart.

Sigrún Eva Ármannsdóttir

Sigrún Eva hafði þarna skapað sér dágott nafn og söng inn á nokkrar hljómplötur sem komu út á næstu árum, þar má nefna plötur með Geirmundi Valtýssyni, Rúnari Þór Péturssyni, Farmalls og Roðlaust og beinlaust en auk þess einnig á plötum sem innihéldu Landslags- og Eurovisionlög, og safn- og jólaplötur á borð við Kæra Höfn, Karlrembuplötuna, Gæðamola, Lagasafnið 2, Bandalög 3, Stelpurnar okkar og Skíðajól á Norðurpólnum. Söng Sigrúnar Evu er einnig að finna á kassettunni Bernskubrek og á plötunni Snæfell: Alla leið ásamt hljómsveitinni Joe Gæ band. Áður er nefnd plata Upplyftingar en Þúsund andlit sendu einnig frá sér plötu þegar sú sveit fór af stað aftur og starfaði eitthvað fram á 1995, lög með Þúsund andlitum og Upplyftingu hafa einnig ratað á fjölmargar safnplötur.

Vorið 1995 birtust Sigrún Eva og Birgir Jóhann með nýja sveit, hina skammlífu HÍT en Sigrún Eva gekk svo til liðs við hljómsveitina Saga Klass (áður Sambandið) sem var húshljómsveit á Hótel Sögu og með þeirri sveit starfaði hún næstu árin og færði sig þannig úr mesta sviðsljósi Eurovision og Landslags keppna. Hún söng einnig eitthvað utan Sögu s.s. á afmælishátíð á Höfn og Sæluviku á Sauðárkróki, og komu út plötur í tengslum við þær.

Á nýrri öld hafði Sigrún Eva að mestu dregið sig úr tónlistinni en hún hafði þá menntað sig á ýmsum sviðum, áður hafði hún numið leiðsögufræði, ensku og frönsku en síðan bætti hún við sig MSc gráðu í tölvunarfræðum og kennslufræðinni og svo MBA námi og hefur síðan starfað í tölvugeiranum, fyrst sem verkefnastjóri Menntagáttar, svo forstöðumaður fjármálasviðs hjá Hugi (síðar Hugi/Ax), framkvæmda- og forstjóri Eskils og forstöðumaður veflausna hjá Skýrr og Advania. Þannig hefur söngurinn þurft að víkja en Sigrún Eva kemur þó enn stöku sinnum fram, oftast tengt Eurovision uppákomum og -sýningum.

Efni á plötum