Skólakór Miðbæjarskólans (1930-67)

Saga skólakóra Miðbæjarskólans er nokkuð óljós en svo virðist sem tvívegis hafi verið starfræktir kórar í nafni skólans. Miðbæjarskólinn hafði verið starfandi í nokkra áratugi áður en hann hlaut nafn sitt árið 1930 en það ár var Austurbæjarskóli stofnaður og því fékk Miðbæjarskólinn sitt nafn eftir að hafa starfað undir nafninu Barnaskóli Reykjavíkur, í þeim skóla hafði verið eitthvert kórastarf undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar og Bjarna Péturssonar.

Líklega var mjög fljótlega settur á stofn skólakór innan Miðbæjarskólans undir stjórn söngkennarans Jón Ísleifssonar sem stjórnaði reyndar nokkrum barnakórum um þetta leyti og fram á miðja öldina. Kór Jóns hélt margsinnis tónleika og var ómissandi þáttur á barnadaginn sem haldinn var hátíðlegur í apríl ár hvert en kórinn virðist hafa starfað til ársins 1937 að minnsta kosti, þá voru smærri einingar innan kórsins s.s. drengja- og telpnakórar auk bekkjakóra. Haukur Morthens mun m.a. hafa sungið einsöng með drengjakór skólans á tónleikum.

Svo virðist sem nokkurt hlé verði á kórastarfi innan Miðbæjarskólans eftir 1937 þótt söngkennsla hafi væntanlega verið þar, en næstu heimildir um skólakór eru frá árinu 1956 en sá kór mun hafa starfað til 1967 hið minnsta – Miðbæjarskólinn starfaði til 1969. Stjórnandi þessa kórs var Jón G. Þórarinsson og söng hann m.a. í útvarpssal einhverju sinni auk venjulegs tónleikahalds. Sigrún Harðardóttir, síðar vinsæl söngkona var meðal kórmeðlima Skólakórs Miðbæjarskólans.

Óskað er eftir nánari upplýsingum um þennan kór.