Skólakór Garðabæjar (1976-2000)

Skólakór Garðabæjar við fyrstu utanlandsferð sína 1977

Skólakór Garðarbæjar var mjög öflugur kór barna (mest stúlkna) sem starfaði við Flataskóla í Garðabæ um tuttugu og fimm ára skeið undir lok síðustu aldar og vakti jafnvel athygli á erlendum vettvangi þar sem hann kom fram, kórinn gaf út nokkrar plötur á sínum tíma og auk þess kassettur sem teljast óopinberar útgáfur.

Kórar höfðu reyndar verið starfandi með reglulegu millibili undir stjórn Guðmundar H. Norðdahl í nokkur ár við barnaskólann sem þá bar nafnið Barnaskóli Garðahrepps enda hafði Garðabær þá ekki hlotið kaupstaðarréttindi. Vorið 1976 hafði barnaóperan Ull í gull verið sett á svið í skólanum (sem þá hafði fengið nafnið Flataskóli) með tilheyrandi kórsöng undir stjórn söngkennaranna Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur og fyrrnefnds Guðmundar, og um haustið kom upp sú hugmynd að stofna skólakór með formlegum hætti sem var svo gert þann 1. desember.

Kórastarfið hófst af fullum krafti undir stjórn þeirra Guðfinnu Dóru og Guðmundar og strax í mars 1977, aðeins fáeinum mánuðum eftir að kórinn var stofnaður fór hann í sína fyrstu utanför en þá var ferðinni heitið til Færeyja og varð hún krökkunum eftirminnileg.

Í kjölfarið flutti Guðmundur norður yfir heiðar og vann mikið tónlistarstarf í Suður-Þingeyjarsýslu en Guðfinna Dóra varð aðalstjórnandi kórsins og allt þar til yfir lauk. Undir stjórn hennar varð kórinn afar öflugur og góður kór sem söng víða hér heima t.d. við kirkjulegar athafnir sem og á almennum tónleikum og ýmsum tónlistartengdum uppákomum, og einnig erlendis en kórinn fór alloft til útlanda til tónleikahalds, t.d til Svíþjóðar og Danmerkur 1979, Noregs og Svíþjóðar 1981, Þýskalands 1984, Englands 1987 og Svíþjóðar 1989, þá fór kórinn einnig í nokkrar tónleikaferðir hér innanlands. Stærsta verkefni Skólakórs Garðabæjar var líklega þegar hann tók þátt í tónleikauppfærslu á óperunni Ótelló (e. Verdi) ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Söngveitinni Fílharmóníu og einsöngvurum árið 1981 en einnig tók kórinn þátt í uppfærslu á óperunni Kalla og sælgætisgerðinni (e. Hjálmar H. Ragnarssonar) árið 1983. Þá má nefna söngleikinn Eldmeyjuna sem kórinn setti á svið í tilefni af 10 ára afmæli kórsins 1986 og barnaóperuna um Hnetu-Jón og gullgæsina 1996.

Skólakór Garðabæjar

Árið 1978 kom fyrsta plata Skólakórs Garðabæjar út en hún var gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Flataskóla (Barnaskóli Garðahrepps hafði verið settur á stofn 1958), á plötunni sem bar heiti kórsins var að finna bæði íslensk og erlend lög og síðari plötuhlið hennar hafði að geyma tónlist eftir Guðmund H. Norðdahl sem hann hafði samið við leikrit Ragnheiðar Jónsdóttur rithöfundar (Sæbjörgu og Hlina Kóngson) sem sett höfðu verið á svið í skólanum. Hluti þess efnis hafði verið hljóðritað meðan Guðmundur var enn stjórnandi kórsins og því eru þau Guðmundur og Guðfinna Dóra bæði titluð stjórnendur hans á plötuumslagi. Platan var merkileg plata að því leytinu til að þetta var fyrsta plata sem gefin var út í Garðabæ en upplag hennar var aðeins 450 eintök. Um þetta leyti voru kórmeðlimir kórsins um þrjátíu og fimm talsins á aldrinum 9-13 ára en þá var einnig kominn til sögunnar hinn svokallaði „litli kór“ sem hafði að geyma yngra söngfólk – Kristín Jóhannesdóttir stjórnaði þeim kór.

Árið 1980 var kvikmynd Andrésar Indriðasonar, Veiðiferðin frumsýnd en tengt henni kom út tveggja laga smáskífa þar sem kórinn söng titillag myndarinnar, Pálmi Gunnarsson söng hitt lagið (Eitt lítið andartak). Áður en breiðskífan kom út 1978 hafði reyndar komið út kassetta með söng kórsins en upplýsingar um þá útgáfu eru litlar, sú útgáfa telst vera óopinber en var þó seld á tónleikum kórsins. Önnur slík kassetta kom út árið 1981 en uppistaða þeirrar útgáfu var líklega fyrrnefnd tónlist Guðmundar H. Norðdahl við leikrit Ragnheiðar Jónsdóttur.

Skólakór Garðabæjar á forsíðu Æskunnar

Árið 1984 kom næsta plata Skólakórs Garðabæjar út en hún hlaut titilinn Hann lofi rödd og mál, sú plata hafði að geyma fjórtán íslensk og erlend lög og kom út í tilefni af 25 ára afmæli Flataskóla, hún var hljóðrituð í Skálholtskirkju en um 70 meðlimir voru þá í kórnum, á aldrinum 9 til 15 ára. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Það var svo árið 1996 sem síðasta platan kórsins kom út, hún hét Slá þú hjartans hörpustrengi og var eins og titill hennar gefur til kynna, jólaplata með átján lögum úr ýmsum áttum

Um tíma var Skólakór Garðabæjar stúlknakór en strákar komu þó stöku sinnum inn í kórinn og sungu m.a.s. einsöng á tónleikum og plötum hans, yfirleitt var talað um yngri og eldri deild kórsins en þegar mest var voru um hundrað nemendur í kórnum í þremur hópum. Áslaug Ólafsdóttir (systir Guðfinnu Dóru) sá um að stjórna yngri kórunum en hún hljóp einnig stöku sinnum í skarðið fyrir Guðfinnu Dóru þegar á þurfti að halda.

Skólakór Garðabæjar var lagður niður árið 2000 en Guðfinna Dóra hafði þá stjórnað honum samfleytt frá stofnun. Nokkur þekkt nöfn úr söngheiminum eiga söngrætur sínar að rekja til kórsins og mega vafalaust þakka Guðfinnu Dóru fyrir sinn þátt í sönglífi Garðbæinga, hér má nefna söngkonur og tónlistarfólk eins og systurnar Hildigunni og Hallveigu Rúnarsdætur (dætur Guðfinnu Dóru), Hildigunni og Mörtu G. Halldórsdætur (dætur Áslaugar), Selmu Björnsdóttur, Margréti Sigurðardóttur, Ragnheiði Gröndal, Ingibjörgu Guðjónsdóttur og Óskar bróður hennar saxófónleikara, Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara og þannig mætti áfram telja.

Efni á plötum