SHAPE (1994-99)

SHAPE

Hljómsveitin SHAPE starfaði austur á fjörðum í lok síðustu aldar, naut þar nokkurrar hylli og sendi meira að segja frá sér plötu en hætti störfum þegar söngvari og gítarleikari sveitarinnar gekk til liðs við sveitaballasveit að sunnan.

SHAPE (sem ku vera skammstöfun og standa fyrir Supreme headquarters allies powers Europe) var rokksveit stofnuð 1994 og voru meðlimir sveitarinnar líklega flestir frá Seyðisfirði og Borgarfirði eystra og gæti hún hafa verið starfrækt innan Menntaskólans á Egilsstöðum.

Meðlimir SHAPE voru líkast til í upphafi þeir Hafþór Snjólfur Helgason trommuleikari, Guðmundur Magni Ásgeirsson söngvari og gítarleikari, Óli Rúnar Jónsson gítarleikari og Sigursteinn Þór Sigurðsson bassaleikari. Logi Helguson tók svo við bassanum haustið 1995 og vorið eftir (1996) kom Bragi Þorsteinsson trommuleikari inn í stað Hafþórs, það var stuttu eftir að SHAPE tók þátt í Músíktilraunum en þar komst sveitin í úrslit án þess þó að krækja í verðlaunasæti.

Sveitinni óx fiskur um hrygg og lék töluvert opinberlega eftir Músíktilraunirnar, mestmegnis líklega á heimaslóðum fyrir austan en fóru einnig aðeins út fyrir þann ramma. Þannig lék hún t.a.m. á Humarhátíð á Höfn sumarið 1996 en síðar lék hún á samkomum eins og Neistaflugi og Álfaborgarsjens um verslunarmannahelgar, sumarhátíð ÚÍA, 17. júní skemmtunum og slíku en einnig almennum dansleikjum.

SHAPE um það leyti sem platan kom út

En SHAPE stefndi hærra og snemma hausts 1998 tóku þeir félagar upp efni í Stúdíó Ris á Norðfirði sem kom svo út á fimm laga plötu (ásamt einu aukalagi) síðar um haustið, platan bar nafnið Shape: Limited edition, Hafþór var þá orðinn trymbill sveitarinnar á nýjan leik. Platan fékk ekki mikla athygli á landsvísu enda var tæplega til þess ætlast enda var sveitin fyrst og fremst að huga að heimavelli sínum eystra og þar lék sveitin áfram 1999 við góðan orðstír.

Sögu sveitarinnar lauk þó líklega haustið 1999 þegar Magna söngvara sveitarinnar bauðst að gerast söngvari hljómsveitarinnar Á móti sól sem þá hafði starfað um nokkurra ára skeið á Suðurlandi og notið þar vinsælda, sent frá sér tvær plötur og gert lög eins og (Djöfull er ég) flottur og Sæt (Farðu til fjandans og taktu þennan síðhærða djöful með þér) vinsæl. Það var því eðlilegt að Magni stykki á vagninn og tæki næsta skref, sem vissulega var rétta skrefið því fáeinum árum síðar var hann orðinn einn þekktasti söngvari landsins og náði reyndar í sinn skerf af fimmtán mínútna alþjóðafrægð.

Ári síðar, 2000 komu þó út fjögur lög með sveitinni á tveimur safnplötum sem höfðu þá verið hljóðrituð áður, hugsanlega um leið og platan en skipan sveitarinnar var alltént sú sama og á henni – þetta voru tvö lög á safnplötunni Klístur, sem hafði að geyma þverskurð af tónlistarlífi ungs fólks fyrir austan, og svo tvö lög á safnplötunni Fjörðurinn okkar, sem tileinkaður var Seyðisfirði.

Efni á plötum