Sigrún Harðardóttir [1] (1949-)

Sigrún Harðardóttir

Sigrún Harðardóttir á merkilegt innlegg í íslenska tónlistarsögu en plata hennar, Shadow lady markaði tímamót í sögunni með því að vera fyrsta frumsamda breiðskífan hérlendis eftir konu. Sigrún sem þá hafði skipað sér meðal fremstu söngkvenna landsins sneri hins vegar baki við tónlistinni og sneri sér að öðrum málefnum.

Sigrún Harðardóttir fæddist í Frakklandi 1949, dóttir sendiherrahjóna en móðir hennar var bandarísk. Hún bjó fyrstu tíu ár ævi sinnar þar í landi og söng þar m.a. í barnakór en þegar hún flutti til Íslands söng hún með barnakór Miðbæjarskólans, hún söng einnig ásamt bekkjarsystur sinni dúett á skemmtun og söng svo einsöng í barnatíma Útvarpsins fjórtán ára gömul og einnig í Sjónvarpinu sem tók til starfa haustið 1966. Aukinheldur hóf hún nám í söng hjá Maríu Markan.

Þegar Sigrún var sautján ára má segja að hinn eiginlegi söngferill hennar hafi hafist og hún byrjaði að koma fram með þekktum hljómsveitum, t.d. með Lúdó sextett í Lídó og Dátum í Hlégarði, um það leyti fluttist hún norður og gekk í Menntaskólann á Akureyri og varð þar í bænum strax áberandi í sönglífinu, söng í Blönduðum kvartett MA (undir stjórn Ingimars Eydal), söng einnig einsöng og tvísöng á skemmtunum skólans og utan skólans kom hún fram með hljómsveitum eins og Geislum og Hljómsveit Ingimars Eydal. Á sumrin kom hún suður fyrir heiðar og söng þá t.d. eitt sumarið með Hljómsveit Reynis Sigurðssonar á Hótel Sögu og svo með hljómsveitinni Orion en þáverandi kærasti hennar var í þeirri sveit.

Það var svo veturinn 1967-68 sem Andrés Indriðason hjá Sjónvarpinu sem var um þetta leyti einn af stofnendum Hljómplötuútgáfunnar, vildi gefa út plötu með Sigrúnu en hún var hljóðrituð í Sjónvarpinu í janúar 1968 og kom svo út um vorið. Platan var fjögurra laga, með þremur erlendum lögum en einu eftir Gunnar Þórðarson sem þá var auðvitað orðinn þjóðþekktur en hann lék einnig á plötunni ásamt einvala liði þekktra tónlistarmanna. Bekkjarsystir Sigrúnar í MA, Guðrún Pálsdóttir samdi þrjá af textunum en Andrés sjálfur þann fjórða. Að vonum vakti útgáfa plötunnar töluverða athygli enda var Sigrún ekki nema átján ára gömul, og fékk hún ágæta dóma í Tímanum. Ekki var farið í eiginlega kynningu á útgáfu plötunnar en um svipað leyti og hún kom út söng Sigrún nokkur lög með hljómsveitinni Hljómum á skemmtuninni Vettvangur unga fólksins í Austurbæjarbíói. Stefnt var að útgáfu annarrar plötu með Sigrúnu á vegum Hljómplötuútgáfunnar en hún kom þó aldrei út, hins vegar kom Sigrún nokkuð við sögu á plötunni Unga kirkjan: trúarsöngvar sem hafði að geyma norðlenska tónlist, þar söng hún einsöng með Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar og einnig með blönduðum kór úr Menntaskólanum á Akureyri.

Sigrún á sviði Sjallans

Um sumarið 1968 fór Orion á fullt skrið aftur og lék heilmikið á dansleikjum, m.a. í Húsafelli um verslunarmannahelgina en var um  tíma þetta sumarið einnig húshljómsveit í Sigtúni. Um veturinn fór Sigrún aftur í skólann fyrir norðan en árið eftir kom sveitin aftur saman og lék töluvert, kom m.a. fram í sjónvarpsþáttum og fór svo í hljóðver þar sem fimm lög voru tekin upp og gefin út undir merkjum Fálkans undir titlinum Orion & Sigrún Harðardóttir. Tvö laganna voru ósungin en hin þrjú söng Sigrún og þeirra á meðal var lagið Enginn veit sem er öllu þekktara í meðförum Bítlanna undir titlinum I will, platan vakti þó ekki mikla athygli og Sigrún hætti að syngja með Orion fljótlega eftir útgáfu plötunnar.

Eftir stúdentspróf kom Sigrún suður, hún sagðist í viðtali stefna á söngnám erlendis en ekkert varð þó úr því, síðsumars 1969 leystu þær Sigrún og Anna Vilhjálms Þuríði Sigurðardóttur af í Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar um tíma og söng einnig um skamman tíma í hljómsveit sem Reynir Karlsson stjórnaði í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigrún dró sig því nokkuð í hlé úr sviðsljósinu, eignaðist barn 1971 og lauk svo námi í ensku og frönsku við Háskóla Íslands áður en hún fór að kenna á Ísafirði og svo við Menntaskólann við Hamrahlíð, aðeins um tuttugu og fimm ára gömul.

Á þessum árum byrjaði Sigrún að semja tónlist sjálf og þegar hún fluttist vestur í Gufudalssveit í Barðastrandasýslu ásamt systur sinni og mági til að gerast bændur tók hún einnig við skólastjórn Barnaskóla Gufudalshrepps en þar hafði þá verið starfræktur farskóli um árabil. Hún hóf að sinna þessari eigin tónlist að fullum krafti samhliða sveitastörfum og kennslu og bauðst svo að gefa út undir merkjum Hljómplötuútgáfunnar Júdasar (sem Jón Ólafsson hafði þá haldið áfram með eftir að Andrés Indriðason og fleiri höfðu snúið sér að öðru. Sigrún ferðaðist í nokkur skipti vestan úr Barðastrandasýslu til að hljóðrita í Hafnarfirðinum en platan sem kom út vorið 1976 innihélt ellefu lög og texta Sigrúnar. Platan, Shadow lady er tímamótaplata í íslenskri tónlistarsögu að því leyti að hún var fyrsta platan hérlendis sem einvörðungu hafði að geyma tónlist eftir konu, Reyndar var hún eini kvenmaðurinn sem kom við sögu á plötunni fyrir utan Diddú (Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sem söng raddir) en hljómsveitin Júdas ásamt valinkunnum tónlistarmönnum sá um hljóðfæraslátt að mestu, Sigrún lék sjálf á gítar en hún hafði þá lært á það hljóðfæri. Textarnir sem voru á ensku þóttu vel ortir (enda er Sigrún hálf bandarísk) og platan fékk góða dóma í Þjóðviljanum og Tímanum og þokkalega í Dagblaðinu.

Sigrún Harðardóttir

Sigrún gat lítt fylgt útgáfu plötunnar eftir enda var hún búsett á Barðaströndinni og átti varla heimangengt þaðan um sumarið, hún kom þó fram síðsumars með hljómsveitinni Eik og um haustið flutti hún nokkur lög í sjónvarpsþætti við undirleik nokkurra aðstoðarmanna.

Búskapur Sigrúnar fyrir vestan varð ekki langur og um áramótin 1976-77 var hún aftur flutt á höfuðborgarsvæðið, áhugi hennar á hvers kyns ræktun hafði vaknað og hún dvaldi um tíma í Bretlandi þar sem hún nam fræði um óhefðbundna ræktun en var á næstu árum víðs vegum um Ísland við kennslu, á Húsavík og Akranesi áður en hún kom aftur til Reykjavíkur og vann þar ýmis störf, starfaði m.a. fyrir Sundsambandið, við blaðamennsku, kenndi stjörnuspeki við Tómstundaskólann og kom einnig að stofnun kvennalistadeildar svo dæmi séu tekin. Sigrún kom því lítið að tónlist eftir útgáfu Shadow lady þrátt fyrir að hafa gefið það út að önnur plata væri í undirbúningi, hún söng hins vegar raddir á plötum Júdasar og Olgu Guðrúnar Árnadóttur og svo á plötunni Íslensk alþýðulög sem kom út árið 1982.

Sigrún Harðardóttir fluttist til Bretlands árið 1988, bjó þar í fáein ár en hefur búið í Danmörku síðan snemma á tíunda áratugnum og hefur af því er best verður vitað, ekkert fengist við tónlist síðustu áratugina.

Efni á plötum