
Ragnar Bjarnason
Hvorki fleiri né færri en fimm tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Fyrstan skal nefna Ragnar Bjarnason söngvara en hann lést árið 2020. Ragnar (f. 1934) þarf varla að kynna fyrir lesendum Glatkistunnar en eftir hann liggja um fimmtíu útgáfur í formi stórra og lítilla platna í gegnum tíðina. Allir þekkja lög eins og Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig, Flottur jakki, Þannig týnist tíminn, Rock og cha cha cha, Ship-o-hoj, Úti í Hamborg og þannig mætti lengi áfram telja.
Vignir Þór Stefánsson hljómborðs- og píanóleikari frá Selfossi er fimmtíu og eins árs gamall. Vignir hóf feril sinn með hljómsveitum eins og Karma og hefur síðar leikið með poppsveitum eins og Fríðu sársauka, Ísafold og Tangósveit lýðveldisins, en fyrst og fremst hefur hann verið viðloðandi djass og leikið með djasssveitum eins og Kvartett Kristjönu Stefáns og Kvintett Guðlaugar Ólafsdóttur.
Keflvíkingurinn Júlíus Freyr Guðmundsson (Gálan) er fimmtugur og á því stórafmæli. Júlíus er með fjölhæfari tónlistarmönnum, semur, syngur, útsetur, tekur upp og leikur á flest hljóðfæri enda kominn snemma í eldlínuna hjá föður sínum Rúnari Júl. heitnum. Hann var aðeins tíu ára gamall þegar hann lék og söng á ævintýraplötum Gylfa Ægissonar en fljótlega var hann farinn að starfa í hljómsveitum eins og Pandóru og Deep Jimi & The Zep Creams, auk þess að semja tónlist fyrir leikrit. Í seinni tíð hefur hann einkum starfað í fjölskyldufyrirtækinu Geimsteini.
Rapparinn Eyjólfur Bergur Eyvindarson eða bara Sesar A er fjörtíu og sex ára á þessum degi. Hann var framarlega í íslensku rappsenunni framan af, kom við sögu á plötu Rottweiler hundanna og fleiri rappara og gaf sjálfur út þrjár rappplötur, meðal annars fyrstu alíslensku rappplötuna (með íslenskum textum eingöngu), Stormurinn á eftir logninu, sem kom út 2001.
Og síðastan skal nefna fyrsta trommuleikara Sigur rósar, Ágúst Ævar Gunnarsson en hann er fjörutíu og fimm ára gamall á þessum degi. Ágúst hafði verið í Sigur rós frá upphafi en hætti í sveitinni 1999 eða um það leyti sem hún sló almennilega í gegn, hann lék til að mynda á plötunum Von, Von brigði og Ágætis byrjun. Áður hafði Ágúst Ævar verið í hljómsveitunum Föss og Korn.
Vissir þú að hljómsveitin Nýdönsk sigraði hljómsveitakeppni sem haldin var í Húsafelli um verslunarmannhelgina 1987?