Sigurður Birkis (1893-1960)

Sigurður á yngri árum

Segja má að Sigurður Birkis hafi haft gríðarlega mikil áhrif á sönglíf okkar Íslendinga en hann kenndi söng um land allt, kom að stofnun fjölda kirkjukóra og annarra kóra í starfi sínu sem söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og söngkennari Sambands íslenskra karlakóra, þá söng hann einnig sjálfur og komu út nokkrar plötur með söng hans.

Sigurður Eyjólfsson Birkis fæddist sumarið 1893 í Skagafirði en hann var yngstur sex bræðra. Hann missti foreldra sína ungur og ólst því upp frá þriggja ára aldri fjarri fjölskyldu sinni, fyrst í Skagafirðinum en síðan á Snæfellsnesi, Reykjavík og Hafnarfirði þar sem hann lauk námi frá Flensborgarskóla. Í Hafnarfirði hófst söngferill Sigurðar með Karlakórnum Þröstum og með þeim kór söng hann einsöng í fyrsta sinn á tónleikum. Á sumrin var hann við störf víða um land og söng þá fyrsta tenór í kvartettum í Stykkishólmi og Siglufirði.

Það var svo árið 1918 sem Sigurður hleypti heimdraganum og hélt til Kaupmannahafnar til að taka þar verslunarpróf, samhliða því verslunarnámi sótti hann söngtíma í borginni. Að loknu því námi kom hann heim en starfaði aldrei við verslunarrekstur heldur hélt aftur til Danmerkur 1920 til að hefja söngnám við Konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn, fyrstur Íslendinga. Sú ferð byrjaði þó ekki vel því skipið sem hann ferðaðist með til Danmerkur fórst, Sigurður bjargaðist þó en missti allar sínar eigur þannig að ekki byrjaði það gæfulega. Á söngnámsárum sínum kom hann heim á sumrin og hélt hér tónleika s.s. í Bárunni og Nýja bíói en í Kaupmannahöfn söng hann með Bel Canto karlakórnum sem var þekktur kór þar ytra, og með honum fór Sigurður í söngferðalag um Evrópu – m.a. til Prag.

Að söngnámi loknu kom Sigurður heim 1924 og á næstu árum söng hann á tónleikum víða um land, oft með Óskari Norðmann. Hann var þó ekki alveg hættur söngnámi því hann nam einnig lítillega í Þýskalandi og fór svo til Ítalíu veturinn 1926-27 í framhaldsnám, á leiðinni heim hélt hann tónleika í Kaupmannahöfn við góðan orðstír.

Sigurður Birkis 1924

Hér heima varð Sigurður með allra fyrstu söngkennurum og áhrifa hans tók fljótlega að gæta – og gætir í raun ennþá. Hann varð strax afar vinsæll söngkennari og hafði ærið nóg að gera yfir vetrartímann en um sumarmánuðina var hann án verkefna.

Árið 1928 var byrjað að undirbúa Alþingishátíðina sem þá stóð fyrir dyrum 1930 en þá var áætlað að fagna þúsund ára afmæli alþingis. Í bígerð var þá að setja saman hundrað manna blandaðan kór sem myndi syngja á Alþingishátíðinni undir stjórn Sigfúsar Einarssonar en Sigurður ásamt Jóni Halldórssyni og Sigurði Þórðarsyni fengu það verkefni að halda utan um próf til að meta hæfni söngvaranna, verkefni kórsins var að syngja verðlaunakantötur á hátíðinni en keppni um slík tónverk hafði farið fram í aðdraganda hátíðarinnar, verkefni Sigurðar varð ennfremur að kenna því kórafólki söng sem kom að verkefninu. Kórinn sem hlaut nafnið Þingvallakórinn fór í söngferðalag til Danmerkur sumarið 1929, sem var eins konar general-prufa fyrir Alþingishátíðina sjálfa en segja má að kórinn hafi verið fyrsti alvöru blandaði kór landsins. Einnig naut hundrað og fimmtíu manna karlakór, sem bar heitið Landskórið leiðsagnar Sigurðar á Alþingishátíðinni.

Í tilefni af Alþingishátíðinni komu upptökumenn hingað til lands frá Columbia til að hljóðrita fjöldann allan af tónlistarfólki en Ríkisútvarpið var um það leyti einnig að taka til starfa, Sigurður söng við það tækifæri inn á þrjár 78 snúninga plötur með alls sex lögum og eru þær einu plöturnar sem fyrir liggur að hann söng inn á, sagan segir að hann hafi sungið inn á plötur á Kaupmannahafnar-árum sínum en frekari heimildir um þær plötur hafa ekki fundist. Tvö laganna af þessum 78 snúninga plötum komu út á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir árið 1993.

Heilmikil kórsöngsvakning spratt upp eftir Alþingishátíðina og á næstu árum fór Sigurður að kenna söngfólki víðs vegar um land, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Hann varð mjög eftirsóttur og umsetinn og hver kórinn á fætur öðrum sóttist eftir starfskröftum hans, hann dvaldi í nokkrar vikur á hverjum stað, kenndi bæði einstaklingum kóranna, æfði samsöng og aðstoðaði við að koma nýjum kórum á stofn – reyndar má segja að hann hafi einnig sjálfur stofnað fjölmarga kóra, starfi hans á hverjum stað lauk yfirleitt með tónleikum.

Sigurður Birkis

Árið 1932 hætti Sigurður að kenna söng með þessum hætti í bili þegar hann tók við söngkennarastöðu innan guðfræðideildar Háskóla Íslands, þar með hafði hann mun traustari atvinnugrundvöll í fastri kennslustöðu. Ári síðar var hann svo einnig ráðinn af Sambandi íslenskra karlakóra (SÍK) til að kenna söng með svipuðum hætti og áður, og aðstoða karlakóra víða um land. Næstu árin sinnti hann þessum tveimur störfum og áorkaði þannig miklu og einkum fyrir kórana sem hann vann við til ársins 1944, þetta starf hans fyrir SÍK varð mjög til að efla kórastarf í landinu og eimir enn af því góða starfi í dag en kórahefð er mjög sterk á Íslandi.

Haustið 1941 var Sigurður Birkis ráðinn söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og voru sérstök lög sett af alþingi um það embætti, þar með varð hann æðsti maður söngmála hér á landi. Sem söngmálastjóri hélt hann áfram sínu starfi en kom að söngmálum með miklu víðtækari hætti, stofnaði kirkjukóra, hélt námskeið fyrir organista, kirkjukóra og stjórnendur o.s.frv., þá kenndi hann einnig við söngskóla Þjóðkirkjunnar og veitti honum forstöðu. Og störfin tengd sönglistinni urðu fleiri hjá Sigurði, hann varð formaður Kirkjukórasambands Íslands og í embættistíð hans voru stofnaðir yfir tvö hundruð kirkjukórar, marga þeirra stofnaði hann sjálfur svo að nánast urðu til kirkjukórar í hverri sókn. Fyrir hans tilstuðlan voru líka stofnuð smærri kirkjukórasambönd víða um land. Árið 1956 bættist við starf hans sem söngmálastjóri að halda utan um yfirstjórn söng- og tónlistarkennslu í barnaskólum.

Segja má að starf Sigurðar tengt sönglistinni hafi verið afar víðtækt og hlaut hann ýmsar viðurkenningar og heiðurstilnefningar fyrir það, hann var gerður að heiðursfélaga í hinum ýmsum kórum og samböndum s.s. Karlakórnum Geysi á Akureyri, Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Ísafjarðar, Sambandi íslenskra karlakóra o.fl. enda hefur líklega enginn einn einstaklingur haft jafn mikil áhrif á kór- og einsöng hér á landi og hann. Þá er ótalið það þekkta söngfólk sem hann kenndi söng í einkakennslu, hér má nefna Sigurð Ólafsson, Þuríði Pálsdóttur, Einar Sturluson, Einar Kristjánsson, Þorstein Hannesson, Guðrúnu Á. Símonar, Jóhann Konráðsson og Kjartan Sigurjónsson svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.

Sigurður Birkis lést eftir stutt veikindi á gamlársdag 1960.

Efni á plötum