Afmælisbörn 13. október 2021

Ingvar Jónasson

Tvö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Sigurður Bjóla Garðarsson tónlistarmaður er sextíu og níu ára gamall. Bjólan eins og hann er oft kallaður hefur að margra mati haldið sig alltof mikið til hlés í tónlistinni en hann er kunnastur fyrir framlag sitt með Spilverki þjóðanna og Stuðmönnum, hann var til að mynda hugmyndasmiðurinn að tívolí-þemanu á samnefndri plötu Stuðmanna. Sigurður starfaði síðar með Pétri Stefánssyni undir nafninu PS & Bjóla og með Valgeiri Guðjónssyni undir nafninu Jolli og Kóla en hann hefur mestmegnis síðustu árin verið við takkana í hljóðverum landsins.

Þá hefði Ingvar Jónasson fiðlu- og lágfiðluleikari átt afmæli einnig þennan dag en hann lést 2014. Ingvar fæddist 1927 á Ísafirði og var af miklum ættum tónlistarfólks, hann nam fiðlufræði sín hér heima og síðan í Bretlandi, Austurríki og Bandaríkjunum. Hann varð einn þeirra sem skipuðu fyrstu kynslóð fiðluleikara hérlendis og var þ.a.l. í Sinfóníuhljómsveit Íslands við stofnun hennar 1950, hann var einnig meðal stofnenda Musica Nova. Ingvar fluttist síðar til Svíþjóðar þar sem hann lék með Sinfóníuhljómsveitinni í Malmö og víðar, ásamt því að kenna tónlist. Eftir að hann koma aftur heim til Íslands hafði hann m.a. frumkvæði að stofnun Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna.

Vissir þú að númerað og vottað grínleyfi fylgdi plötu Spaugstofunnar, Sama og þegið sem kom út 1986?