Ingvar Jónasson (1927-2014)

ingvar-jonasson2

Ingvar Jónasson

Ingvar Jónasson var einn af fremstu fiðluleikurum á Íslandi á sínum tíma og af fyrstu kynslóð fiðluleikara sem átti eftir að manna Sinfóníuhljómsveit Íslands á upphafsárum hennar.

Ingvar var fæddur og uppalinn á Ísafirði 1927 og var af kunnum tónlistarættum, sonur Jónasar Tómassonar tónskálds sem var mikill framámaður í vestfirsku tónlistarlífi. Hann var því alinn upp við tónlistariðkun og varð fiðlan fyrir valinu en faðir hans sem var bóksali, seldi slík hljóðfæri í verslun sinni. Ingvar var þegar á unglingsaldri farinn að leika á tónleikum á heimaslóðum.

Ingvar nam prentiðn en fór síðan suður í Samvinnuskólann í Reykjavík, hann lærði á fiðlu hjá Birni Ólafssyni og lauk burtfararprófi 1950. Svo fór að fiðlan varð ofan á og Ingvar hélt utan til framhaldsnáms, fyrst til Bretlands en síðan til Austurríkis. Hann var einnig eitthvað við nám í Bandaríkjnunum um tíma síðar.

Á árunum fyrir 1950 hafði Ingvar tekið þátt í að móta þá hljómsveit sem síðar hét Sinfóníuhljómsveit Íslands, meðal undanfara þeirrar sveitar var Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur sem var stofnuð 1948. Hann var síðan í fyrstu útgáfu Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1950.

Eftir að Ingvar kom aftur heim til Íslands eftir nám hóf hann að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík, hann lék einnig með kvartett Tónlistarskólans sem þá var nokkuð þekktur, hann stýrði ennfremur um árabil strengjasveit ungra stúlkna (á aldrinum 16-20 ára) í Tónlistarskólanum. Ingvar lék aukinheldur áfram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék í fyrsta skipti einleik á fiðlu með sveitinni 1965.

Ingvar var ennfremur í hópi tónlistarmanna sem horfði til módernisma í tónlist og stofnaði ásamt nokkrum öðrum félagsskapinn Musica nova árið 1960 en sá hópur hafði það hlutverk að kynna og efla nútímatónlist og -tónskáld.

Um mitt ár 1967 urðu ákveðin þáttaskil á tónlistarferli Ingvars þegar hann færði sig af fiðlu yfir á lágfiðlu, hann var tiltölulega fljótur að tileinka sér hið nýja hljóðfæri og varð fljótlega framarlega í flokki lágfiðluleikara hérlendis.

Árið 1972 söðlaði Ingvar um og fluttist til Svíþjóðar en þar bauðst honum að starfa með Sinfóníuhljómsveitinni í Malmö samhliða tónlistarkennslu. Hann átti eftir að búa og starfa þar í landi til ársins 1989 við góðan orðstír, fyrst í Malmö en síðar í Gautaborg og Stokkhólmi en í höfuðborginni starfaði Ingvar við Konunglegu óperuna, hann lék einnig með kammersveitinni Maros ensemble í Svíþjóð um árabil.

Í Svíþjóð lék Ingvar inn á a.m.k. eina plötu, hún hafði að geyma verk eftir Hilding Rosenberg og John Fernström, en með honum á plötunni voru fiðluleikarinn Einar Sveinbjörnsson og Guido Vecchi sellóleikari. Fiðluleik Ingvars má einnig heyra á fáeinum plötum öðrum sem komið hafa út hér á landi.

Þess má einnig geta að Ingvar kom m.a. fram á tónleikum í Noregi árið 1973 sem haldnir voru til styrktar Vestmannaeyingum sem þá þurftu að horfa upp á heimabyggð sína hverfa undir hraun og vikur í eldgosi. Meðal annarra tónlistarmanna sem komu fram á sömu tónleikum má nefna Ríó tríó, Sextett Ólafs Gauks og Noru Brocksted en tónleikunum var sjónvarpað um allan Noreg.

ingvar-jonasson

Ingvar á yngri árum

Sem fyrr segir kom Ingvar aftur heim til Íslands 1989, þá var hann orðinn sextíu og tveggja ára gamall en það hindraði hann ekki í að hefja aftur kennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann gekk ennfremur aftur til liðs við Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék með Kammermúsíkklúbbnum og ýmsum smærri kammersveitum.

Ingvar hafði einnig frumkvæði að stofnun hljómsveitar sem síðan fékk nafnið Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, og stjórnaði Ingvar henni allt til ársins 2005. Hann var því engan veginn sestur í helgan stein og nýtti reyndar sumrin einnig til að kenna á eins konar námskeiðum í Svíþjóð. Áður hafði Ingvar starfrækt prentsmiðju og starfaði á tímabili sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn.

Ingvar var mjög virtur fiðlu- og lágfiðluleikari og sömdu tónskáldin Þorkell Sigurbjörnsson og Atli Heimir Sveinsson til að mynda tónverk sérstaklega fyrir hann. Hann gegndi um tíma hlutverki formanns Félags íslenskra tónlistarmanna og hlaut ennfremur fálkaorðuna fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

Ingvar Jónasson lést á jóladag 2014, þá ríflega áttatíu og sjö ára gamall.

Efni á plötum