Sigurður Ólafsson [1] (1916-93)

Sigurður Ólafsson

Baritón-söngvarinn Sigurður (Jón) Ólafsson er með þekktari söngvurum íslenskrar tónlistarsögu, hann var fjölhæfur í list sinni, söng dægurlög jafnt á við klassík og allt þar á milli og þótti jafn hæfur á allar þær hliðar. Fjöldi platna kom út með söng Sigurðar og mörg laga hans hafa öðlast sígildi og heyrast reglulega spiluð á ljósvakamiðlum, bræður hans tveir voru kunnir söngvarar og tónlistarmenn og sum barna hans hafa einnig fetað tónlistarveginn. Sigurður var þó jafnvel enn þekktari sem hestamaður en hann var bæði þekktur knapi, tamninamaður og hrossaræktandi.

Sigurður var Reykvíkingur, fæddur þar (1916) og uppalinn en átti rætur að rekja vestur á Snæfellsnes. Tónlistarlegt uppeldi hans var nokkurt enda voru hljóðfæri á æskuheimilinu og tveir eldri bræður hans kunnir tónlistarmenn – Erling söngvari og Jónatan hljóðfæraleikari og tónskáld, það var því eðlilegt að hann ælist upp við söng enda mun hann snemma hafa lært að lesa nótur.

Sigurður mun hafa komið eitthvað fram og sungið sem barn og unglingur, söng m.a. á skemmtun sem haldin var í Miðbæjarskólanum en þar söng hann lagið Hátt ég kalla (e. Sigfús Einarsson). Skömmu eftir það voru teknir úr honum hálskirtlarnir og fyrir mistök var úfurinn skorinn burt einnig, læknir tjáði honum eftir það að hann myndi líklega ekki syngja framar. Þetta varð til þess að Sigurður söng ekki í nokkur ár á eftir, stóð í þeirri meiningu að hann gæti það ekki. Hann var svo orðinn rúmlega tvítugur þegar hann var staddur í áramótapartíi þar sem hverjum og einum var uppálagt að syngja eitt lag, þrátt fyrir allt ákvað hann að láta vaða og sagði undirleikaranum í partíinu að hann ætlaði að syngja Hátt ég kalla – sem var auðvitað síðasta lagið sem hann hafði sungið þar á undan. Eftir flutninginn datt allt í dúnalogn og undirleikarinn, ónafngreind kona lýsti því yfir að þetta væri uppáhalds lagið hennar og hún vildi að Sigurður myndi syngja lagið yfir henni eftir hennar dag. Það varð reyndar úr að hún lést aðeins um viku síðar og Sigurður uppfyllti að sjálfsögðu ósk hennar, söng lagið í jarðarförinni við undirleik tónskáldsins sjálfs, Sigfúsar Einarssonar sem í fyrstu leist ekkert á þennan unga söngvara en tók hann undir eins í sátt þegar hann hafði sungið lagið. Þannig má segja að söngferill Sigurðar hafi hafist, Erling bróðir hans hafði látist úr berklum árið 1934 og hann hafði sagt við Sigurð að hann myndi taka við af sér eftir sinn dag, það má að nokkru leyti segja að það hafi svo ræst í kjölfarið.

Sigurður lærði ekki söng hvað neinu næmi, hann sótti þó einhverja söngtíma hjá Sigurði Birkis, Guðmundi Jónssyni og Pétri Á. Jónssyni auk þess sem hann nam hjá ítölskum söngkennara sem hingað kom í fáeinar vikur. Hann gekk í Karlakór Reykjavíkur í kringum 1940 og söng með þeim kór í um áratug (og eldri kórnum síðar), og um svipað leyti söng hann í fyrsta sinn í upptöku þegar hann söng einsöng með karlakórnum Stefni í Ríkisútvarpinu. Sú upptaka kom reyndar ekki út fyrr en á safnplötunni Þín minning lifir: Úrval dægurlaga og sönglaga, sem kom út 2003. Aðra upptöku má einnig nefna hér en árið 1947 söng Sigurður nokkur lög eftir ungan frænda sinn, Guðmund Ingólfsson síðar djasspíanista en sá var þá aðeins átta ára gamall – þau lög voru tekin upp á lakkplötur í Ríkisútvarpinu en óvíst er hvort þær eru enn varðveittar.

Soffía Karlsdóttir og Sigurður Ólafsson í revíusýningu

Sigurður fór að koma meira fram á tónleikum, skemmtikvöldum og síðar miðnæturskemmtunum eins og það var kallað og oftast var um að ræða einsöng við píanóundirleik, íslensk einsöngslög. Skúli Halldórsson lék oft undir hjá honum en einnig Gunnar Sigurgeirsson, Árni Björnsson, Jónatan bróðir hans og fleiri. Yfirleitt voru þetta tónleikar í miðbænum en fyrir kom einnig að hann syngi úti á landsbyggðinni. Jarðarfararsöngur var alltaf stór hluti af söngnum hjá honum og var mikið að gera hjá honum í því – hann söng allt upp í þrisvar á dag þegar mest var að gera í jarðarfararsöngnum.

Undir lok fimmta áratugarins fór að sjást til Sigurðar í misstórum hlutverkum m.a. í sýningum revíuhópsins Bláu stjörnunnar, m.a. í Blönduðum ávöxtum (1948), Glatt á hjalla (1949) og Á vængjum söngsins um víða veröld (1955). Klassíkin bankaði svo upp á árið 1949 en þá söng hann í óperettunni Bláu kápunni hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Leðurblökunni þremur árum síðar, hann kom meira við í leikhúsinu og svo þegar óperusýningur urðu að veruleika hérlendis söng hann t.d. smá hlutverk í fyrstu óperunni, Rigoletto (1951), eitt af aðal hlutverkunum í Leðurblökunni (1952) og fleiri slíkum uppfærslum.

Sigurður var reyndar gríðarlega fjölhæfur söngvari og árið 1946 virðist hann í fyrsta sinn hafa sungið með danshljómsveit en það var með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar í Mjólkurstöðinni. Hann söng öðru hverju með hljómsveit Bjarna og þegar SKT dægurlagakeppnirnar og dansleikir tengdir þeim skemmtunum komu til sögunnar á sjötta áratugnum söng Sigurður þar mikið, yfirleitt með Hljómsveit Carls Billich í Góðtemplarahúsinu, einnig söng hann eitthvað með Hljómsveit Svavars Gests í Breiðfirðingabúð, Hljómsveit Karls Jónatanssonar í Vetrargarðinum, J.H. kvintettnum, Hljómsveit Jónatans Ólafssonar, Hljómsveit Guðmundar Hansen, Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Guðmundar H. Norðdahl, G.J. tríóinu, Hljómsveit Ágústar Péturssonar, Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og Hljómsveit Rúts Hannessonar. Með sumum þessara sveita söng hann margoft en með öðrum stöku sinni, jafnvel bara einu sinni á dansleik á landsbyggðinni en á þeim tímum voru söngvarar ekki meðlimir hljómsveitanna heldur lausráðnir hjá þeim. Sigurður söng með danshljómsveitum fram undir lok sjöunda áratugarins en þeim skiptum fækkaði eftir því sem yngri bítlar og blómabörn tóku að breyta ballmarkaðnum, Sigurð má klárlega telja sem einn af fyrstu dægurlagasöngvurum Íslands og einn þeirra allra vinsælustu af fyrstu kynslóð þeirra söngvara.

Sigurður að skemmta fyrir norðan

Sigurður dró sig mikið til í hlé frá sönglistinni um 1970 og helgaði sig þá mestmegnis hestasportinu en hann var kunnur hestamaður, margverðlaunaður á því sviði bæði á keppnisvellinum, við tamningar og ræktun. Hann hafði ekki haft sönginn nema að litlu leyti sem aðal starf og vann yfirleitt aðra vinnu, lengst af hjá rannsóknarstofu Háskólans á Keldum þar sem hann bjó um tíma, en einnig starfaði hann sem leigubílstjóri o.fl. Segja má að hann hafi verið bóndi í borginni því hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í Laugarnesinu í áratugi (1948 til 81) og þar var hann með hross en bær hans stóð á hól þeim sem stendur við gatnamót Sæbrautar og Klettagarða. Þess má til gamans geta að í húsinu bjó um tíma fjölskylda Herberts Guðmundssonar tónlistarmanns á efri hæð hússins en Herbert var þá um fimm ára gamall, síðasti ábúandi í húsinu eftir að Sigurður og fjölskylda hans fluttu úr því var hins vegar Snorri Sigfús Birgisson tónskáld og píanóleikari.

Þegar tónlistarsýningar komust í tísku á níunda áratugnum fór Sigurður að koma aftur fram og syngja opinberlega en þá hafði hann í raun lítið sungið á sviði nema helst á samkomum hestamanna síðasta áratuginn á undan, Þuríður dóttir hans söng þá heilmikið með honum og hann var því í sviðsljósinu aftur um nokkurra ára skeið, kom fram í sjónvarpsþáttum o.fl. Hann hafði þá verið fremur lélegur til heilsunnar um árabil, fengið fyrir hjartað og fékk svo heilablæðingu árið 1988. Haustið 1991 kom út bókin Í söngvarans jóreyk – æviminningar Sigurðar Ólafssonar, skráð af Ragnheiði Davíðsdóttur en söngvarinn var sjötíu og fimm ára um það leyti. Sigurður lést svo tveimur árum síðar, sumarið 1993.

Það sem fyrst og fremst hefur haldið minningu söngvarans Sigurðar Ólafssonar á lofti eru lögin sem hann söng inn á plötur en mörg þeirra urðu geysvinsæl og hafa lifað fram á þennan dag, það sem er líklega hvað athyglisverðast við þau lög er fjölbreytnin en lögin eru ýmist einsöngslög við píanóundirleik, sjómannalög og léttar dægurperlur.

Sigurður Ólafsson

Fyrstu plöturnar með söng Sigurðar komu út árið 1952 og innihéldu dægurlög, þar voru á ferð tvær tveggja laga 78 snúninga plötur sem komu út á vegum Íslenzkra tóna – eins og reyndar langflestar plöturnar með honum. Þrjú laganna urðu strax vinsæl, Hvar varstu í nótt (Hvað varstu að gera í nótt?), Litli vin og Meira fjör og urðu augljóslega til að vekja athygli á söngvaranum enda komu fjölmargar fleiri plötur í kjölfarið. 1953 komu út aðrar tvær plötur með nokkru millibili, annars vegar Sjómannavals / Stjörnunótt og hins vegar Blikandi haf / Kvöldkyrrð – Sjómannavalsinn (Það gefur á bátinn við Grænland) er löngu orðið sígilt en lagið hafði hlotið fyrstu verðlaun í danslagakeppni SKT í flokki gömlu dansanna en Sigurður kom oft fram í þeim keppnum. Stjörnunótt, Kvöldkyrrð og Blikandi hafa heyrast enn stöku sinnum leikin í útvarpi en í síðast talda laginu söng Sigurveig Hjaltested með Sigurði, þess má geta að Jónatan bróðir Sigurðar samdi lagið Kvöldkyrrð.

Hafi Sigurður ekki verið búinn að stimpla sig inn sem einn af vinsælustu dægurlagasöngvurum landsins þarna þá gerði hann það sannarlega árið 1954 en þá komu út níu ný lög með honum á fjórum plötum en auk þess endurútgáfur á fyrri lögum hans á 45 snúninga plötum, nýju hljómplötuformi sem þá var að ryðja sér til rúms á markaðnum og gat innihaldið meira efni (fleiri lög) en eldri 78 snúninga plöturnar. Af nýja efninu komu fyrst út fimm lög á tveimur plötum, lög sem flokkast undir íslensk einsöngslög en á þeim lék Carl Billich undir á píanó, þessi tegund tónlistar var ekki síður vinsæl í meðförum Sigurðar og lögin Það er svo margt, Fjallið eina og Svanurinn minn syngur slógu í gegn, á plötunum tveimur var einnig að heyra Kveldriður og hið sígilda Á Sprengisandi. Skömmu síðar kom svo út tveggja laga platan Og jörðin snýst / Drykkjuvísa úr Bláu kápunni (úr revíu) en í síðarnefnda laginu söng Alfreð Clausen með Sigurði. Um haustið kom svo út Ég býð þér upp í dans / Síldarvalsinn sem e.t.v. varð allra vinsælasta plata Sigurðar, í fyrra laginu sungu þau Soffía Karlsdóttir saman en seinna lagið var hinn eini sanni Síldarvalsinn (Syngjandi sæll og glaður), sjómannaslagari eins og Sjómannavalsinn tveimur árum áður en þessi tvö lög má segja að séu tveir af hápunktum svokallaðra sjómannalaga sem eru sérkapítuli í íslenskri menningar- og tónlistarsögu.

1955 var með svipuðum hætti, fyrst kom út tveggja laga plata (Ég veit ei hvað skal segja / Maður og kona) sem var reyndar aðallega með Soffíu Karlsdóttur en fyrrnefnda lagið söng hún ein, síðara lagið sungu þau Sigurður saman. Nokkrum vikum síðar kom út önnur tveggja laga plata, að þessu sinni sungu þau Sigurður og María Markan saman en María var þá nýflutt heim til Íslands eftir farsælan óperuferil erlendis. Þessi plata markar reyndar merk skil því á henni kom lag Sigfúsar Halldórssonar, Við eigum samleið í fyrsta sinn út á plötu en það hafði einungis verið gefið út á nótum áður, hitt lag plötunnar var Þitt augnadjúp. Allar plötur Sigurðar þetta ár (1955) voru í samstarfi við aðra og um haustið komu út tvær plötur, annars vegar með Tígulkvartettnum (Ástarvísa hestmannsins / Sveinki káti) þar sem Sigurður söng fyrra lagið sem naut mikilla vinsælda en Tígulkvartettinn hið síðara. Hins vegar kom út plata með Sigurði og Sigurveigu Hjaltested (Á Hveravöllum / Við komum allir, allir), fyrra lagið sem þau sungu saman varð töluvert vinsælt en seinna lagið sem sungið var af Sigurði einum heyrðist eitthvað minna spilað. Ekki hefur það skemmt fyrir Sigurði að um sumarið fór hann ásamt nokkrum skemmtikröftum um landsbyggðina og skemmti undir yfirskriftinni Litli fjarkinn við miklar vinsældir.

Hestamaðurinn Sigurður Ólafsson

Blikur voru á lofti í tónlistinni um þetta leyti, rokkið var að koma til sögunnar og því voru yngri söngvarar að koma meira í sviðsljósið – Sigurður varð fertugur árið 1956 og því minnkaði hlutdeild hans í útgáfuflórunni allri og aðeins ein tveggja laga plata kom út með honum (Einu sinni var / Gamla Kvíabryggja) sem ekki vakti mikla athygli. Þrjár endurútgáfur komu hins vegar út þetta ár, þar af tvær 45 snúninga plötur en á öllum þeim plötum söng Sigurður með öðrum söngvurum.

Næstu árin höfðu mestmegnis að geyma endurútgáfur á lögum Sigurðar, árið 1958 kom út fjögurra laga plata með Sigurði og Sigurveigu Hjaltasted sem öll höfðu komið út áður og 1959 kom út eins konar fimm laga safnsmáskífa með Sigurði, Tígulkvartettnum og Karlakórnum Vísi – allt áður útgefin lög nema reyndar lögin tvö sem Sigurður söng, Smaladrengurinn / Smalastúlkan, alltént finnast ekki upplýsingar um að þau lög hafi áður komið út. 1960 kom út önnur slík safnsmáskífa með Sigurði, Óðni Valdimarssyni, Ingibjörgu Þorbergs og Sigfúsi Halldórssyni en öll þau lög höfðu áður komið út. Síðar það sama ár kom svo út tveggja laga platan Tólfti september: Halló (tangó) / Bergmál hins liðna (vals) þar sem þau Sigurður og Hulda Emilsdóttir sungu lög eftir Freymóð Jóhannesson (Tólfta september). Eftir því var sérstaklega tekið að þetta var í fyrsta sinn á Íslandi sem allir hljóðfæraleikararnir á sömu plötunni bæru eftirnöfn, Carl Billich, Karl Lilliendahl, Einar B. Waage, Árni Scheving og Bragi Hlíðberg en þeir léku undir stjórn Carls Billich. Þá er ónefnd safnplatan Söngvar frá Íslandi en á þeirri plötu söng Sigurður eitt lag (Mamma mín).

Platan sem Sigurður söng inn á með Huldu Emilsdóttur reyndist síðasta smáskífan sem hann söng á en hann dró sig í hlé frá söng á hljómplötum þótt eitthvað væri hann þá enn að syngja á dansleikjum og skemmtunum. Næst kom út eitt lag (Dönsum og syngjum saman) með honum á plötunni Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins árið 1966 en það var í fyrsta sinn sem lög í slíkri keppni voru sérstaklega gefin út á plötu.

Það var svo árið 1971 sem næst kom út plata með Sigurði en það var fyrir frumkvæði Svavars Gests hjá SG-hljómplötum. Sigurður sem þá var tiltölulega nýstiginn upp úr veikindum eftir hjartaáfall vildi fá dóttur sína Þuríði með sér á plötuna sem varð og var platan sem bar titilinn Feðginin Sigurður Ólafsson og Þuríður Sigðurardóttir syngja saman, fyrsta breiðskífa þeirra beggja og sú eina sem Sigurður sendi frá sér. Þuríður var þá vinsæl söngkona og söng um það leyti með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og hafði gefið út nokkrar smáskífur, Þessi endurkoma Sigurðar heppnaðist prýðilega og platan seldist mjög vel á sínum tíma, lagið Hvar sem liggja mín spor varð nokkuð vinsælt. Af einhverjum ástæðum hefur þessi plata aldrei verið gefin út á geislaplötuformi en kassettuútgáfa með henni kom út 1979.

Sigurður árið 1981

Þó Sigurður væri hættur að syngja inn á plötur eftir „feðginaplötuna“ hafa komið út nokkrar safnplötur með söng hans. Sú fyrsta kom út á vegum Svavars Gests 1978 en hann hafði þá eignast útgáfuréttinn á því sem Íslenzkir tónar höfðu gefið út á sínum tíma, þau lög höfðu þá verið ófáanleg um árabil enda höfðu 78 snúninga plöturnar horfið af sjónarsviðinu áratugum áður. Platan hét Endurútgáfa á tveimur plötum: 30 lög sem Sigurður Ólafsson söng á árunum 1952-57, um var að ræða heildarútgáfu á því efni sem komið hafði út á 78 snúninga plötum og fimm lög að auki sem ekki höfðu áður komið út.

Tvær aðrar safnplötur hafa komið út síðan, sú fyrri var hluti af Útvarpsperlu-röð Ríkisútvarpsins og kom út 2002 undir nafninu Útvarpsperlur: Sigurður Ólafsson syngur en á þeirri plötu er að finna 22 lög úr fórum Ríkisútvarpsins sem ekki höfðu komið út áður og höfðu því töluvert menningarsögulegt gildi. Árið 2003 gáfu svo Íslenskir tónar (undirmerki Senu) út safnplötuna Þín minning lifir: Úrval dægurlaga og sönglaga en Sena hafði þá eignast útgáfuréttinn frá Íslenzkum tónum sem reyndar hafði þarna farið víða, þar með voru flest lög Sigurðar komin út á geislaplötuformi en einnig var á plötunni að finna eitthvað af óútgefnu efni. Enn er reyndar ógetið plötu úr ranni Útvarpsperla, sú kom út 1999 og hafði að geyma upptökur með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar en á þeirri skífu söng Sigurður sjö af tuttugu og tveimur lögum, allt áður óútgefið – þar má t.d. heyra samsöng Sigurðar og Ragnars Bjarnasonar og Sigurðar og Láru Magnúsdóttur (móður Ragnars og eiginkonu Bjarna Böðvarssonar) sem ku hafa verið ein allra fyrsta dægurlagasöngkonan hérlendis.

Áður hafa þeir bræður Sigurður, Erling og Jónatan verið nefndir til sögunnar sem og Þuríður dóttir hans en fjölmargt annað tónlistarfólk mætti nefna í tengslum við Sigurð. Sigurður var sjö barna faðir, elsta dóttir hans Valgerður var eitthvað að syngja á kvöldskemmtunum á sjötta áratugnum og yngsti sonur hans Gunnþór var bassaleikari í Q4U og fleiri sveitum, sá var um tíma í sambúð með Ellý í Q4U sem þá um leið var tengdadóttir Sigurðar. Pálmi Gunnarsson söngvari og bassaleikari var jafnframt tengdasonur Sigurðar um skeið því þau Þuríður voru gift og eiga soninn Sigga Pálma (Sigurð Helga Pálmason). Einnig má nefna Jónatan Garðarsson náfrænda Sigurðar en hann er barnabarn Jónatans bróður hans.

Eins og nærri má geta er söng Sigurðar að finna á fjölmörgum safnplötum sem gefnar hafa verið út með lögum frá sjötta áratugnum, hér má t.d. nefna Manstu gamla daga (2007), Óskalög sjómanna (2007), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Stóru bílakassettu-seríuna, Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Strákana okkar (1994), Síldarævintýrið (1992), Söngvasjóð (1993), Svona var… -seríuna, Óskalaga-seríun, Íslenskar söngperlur (1991), Aftur til fortíðar-seríuna og Það gefur á bátinn (1981).

Efni á plötum