Sigurður Ólafsson [2] (1916-2005)

Sigurður Ólafsson

Sigurður Ólafsson var bóndi í Syðra-Holti í Svarfaðardal og var um tíma öflugur kórstjórnandi og organisti í sveitinni.

Sigurður var fæddur að Krosshóli í Skíðadal sumarið 1916 og flutti með fjölskyldu sinni fimmtán ára að Syðra-Holti í Svarfaðardal þar sem hann var lengst af bóndi. Það hafði verið til orgel á æskuheimilinu og á unglingsárum sínum hafði hann lært lítillega á orgel hjá Jóhanni Tryggvasyni en síðar fór hann til Reykjavíkur og nam þar einn vetur hjá Páli Ísólfssyni dómorganista, bæði orgelleik og kórstjórnun, síðar á lífsleiðinni fór hann einnig í söngkennaranám.

Samhliða sveitastörfum framan af stjórnaði Sigurður kórum í sveitinni, hann stofnaði og stjórnaði karlakórnum Svörfuði sem starfaði á árunum 1944-51 en einnig var hann einn af stofnendum og stjórnendum Karlakórs Dalvíkur, stjórnaði blönduðum kór um tíma sem og kvartettum og minni sönghópum. Þá mun hann einnig hafa sungið sjálfur með tvöföldum kvartett í Svarfaðardalnum. Sigurður gegndi organistastörfum við Tjarnarkirkju en leysti einnig af í öðrum kirkjum í sveitinni, hann kenndi jafnframt söng í skólunum á Dalvík, Ólafsfirði, Árskógsströnd og víðar (auk handavinnu) og mun eitthvað hafa kennt á orgel og píanó í einkakennslu.

Sigurður Ólafsson var þó fyrst og fremst bóndi og virkur í samfélagi þeirra og félagsmálum í Svarfaðardalnum þar sem hann sinnti margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum. Hann lést haustið 2005, þá kominn fast að níræðu en hann hafði þá átt í baráttu við Parkison-veiki um árabil.