Stefán Bjarman (1894-1974)

Stefán Bjarman

Stefán Bjarman var fjölhæfur maður, kennari, tungumálamaður, tónlistarmaður og heimsmaður en líklega þekktastur sem þýðandi. Spor hans er víða að finna og þegar kemur að tónlistinni voru það Dalvíkingar og nærsveitungar sem helst fengu að njóta krafta hans.

Stefán Árnason Bjarman var fæddur snemma árs 1894 að Nautabúi í Skagafirði en var alinn upp á Reykjum í Tungusveit áður en fjölskyldan flutti inn á Akureyri þegar hann var um fermingu. Stefán var af söngelsku fólki kominn enda hafði faðir hans verið organisti í Skagafirðinum og lært á orgel syðra á sínum yngri árum, þá var Sveinn bróðir Stefáns einnig músíkalskur og stjórnaði kórum nyrðra.

Eftir gagnfræðapróf á Akureyri lá leið Stefáns suður til Reykjavíkur í menntaskóla þar sem hann reyndar lauk ekki námi en dvaldist mikið í hinu víðfræga Unuhúsi og kynntist þar bókmenntum og annarri listtengdri menningu og mun hafa snúist til róttækrar vinstri stefnu á þeim árum sem hann fylgdi æ síðar. Stefán mun hafa dvalist í Reykjavík um þriggja ára skeið áður en hann hélt aftur norður en hann var svo um þrítugt þegar hann fór til Vesturheims og dvaldist þar í um fimm ár meðal Íslendinga bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Þar var hann við kennslu og komst einnig í kynni við kórstjórnun (m.a. karlakór sem hann stofnaði sjálfur meðal Íslendinganna) og organistastörf en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um það, þá mun hann einnig hafa sungið einsöng við hátíðleg tækifæri s.s. á Íslendingadeginum.

Eftir Ameríku-árin var Stefán um eins árs skeið í Kaupmannahöfn en kom aftur heim til Íslands árið 1931 og fékkst næstu árin mestmegnis við kennslu, mest í erlendum tungumálum og svo þýðingar sem hann varð síðan þekktastur fyrir en hann þýddi bæði Þrúgur reiðinnar (e. John Steinbeck) og Hverjum klukkan glymur (e. Ernest Hemingway) svo dæmi séu nefnd. Stefán bjó og starfaði við kennslu mest fyrir norðan, fyrst á Akureyri en síðan á Siglufirði þar sem hann söng með Karlakórnum Vísi, tónlistin varð þó öllu fyrirferðameiri í Svarfaðardalnum þegar hann flutti þangað haustið 1937 og gerðist skólastjóri. Á Dalvík var hann í þrjú ár, stjórnaði þar karlakórnum Braga og var um tíma einnig með blandaðan kór með meðlimum frá Dalvík og úr Svarfaðardalnum. Hann bjó þar svo og starfaði aftur síðar (1949-56) en í millitíðinni við kennslu á Akureyri, á síðara tímaskeiði hans á Dalvík stjórnaði hann kórum allan tímann og var meðal stofnenda Söngfélagsins Sindra sem hann síðan stjórnaði en sá kór varð síðar að Karlakór Dalvíkur sem enn er í fullu fjöri.

Eftir síðara Dalvíkurskeiðið fór Stefán aftur inn á Akureyri og mun á einhverjum tímapunkti hafa starfað þar sem organisti og stjórnað kór snemma á sjöunda áratugnum – upplýsingar vantar um þann kór. Hann bjó svo ævina á enda á Akureyri og lést þar síðla árs 1974, áttræður að aldri.