Stefán Ágúst Kristjánsson (1897-1988)

Stefán Ágúst Kristjánsson

Stefán Ágúst Kristjánsson var mikill framámaður í tónlistarlífi Akureyringa og reyndar í félagsmálum almennt þar í bæ, hann samdi auk þess tónlist og ljóð og var gefin út plata að honum látnum með nokkrum sönglögum eftir hann.

Stefán fæddist í Glæsibæ við Eyjafjörð vorið 1897 og var yngstur sjö systkina, tónlist var nokkuð iðkuð á æskuheimilinu en reyndar var fátt sem benti til að hann myndi starfa að tónlistarmálum því hann lauk búfræðinámi frá Hólum í Hjaltadal, þar söng hann reyndar í skólakór sem settur var á laggirnar.

Stefán varð aldrei bóndi en fluttist til Akureyrar að loknu námi þar sem hann sinnti ýmsum störfum næstu áratugina, m.a. við verslunarrekstur en var einnig lengi formaður sjúkrasamlags Akureyrar, á Akureyri hófust jafnframt kynni hans af tónlistar- og félagsmálum og þar átti hann eftir að láta til sín taka. Hann varð einn af stofnendum Karlakórsins Geysis á Akureyri og meðlimur kórsins í um 20 ár, hann var jafnframt lengi í stjórn kórsins. Þá var hann einn af stofnendum Tónlistarfélags Akureyrar, var formaður þess í aldarfjórðung og öflugur í því starfi – stóð m.a. fyrir komu fjölmargra tónlistarmanna til Akureyrar, jafnvel heimsþekktra sem héldu tónleika í bænum. Hann var einn af stofnendum Heklu, sambands norðlenskra karlakóra og var formaður þess lengi. Stefán var ennfremur ötull bindindismaður og framarlega í starfi góðtemplara á Akureyri, auk annarra félagsstarfa. Hann flutti suður til Reykjavíkur árið 1970 og bjó þar til æviloka en hann lést árið 1988. Stefán hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín að tónlistar- og félagsmálum, t.d. var hann á sínum tíma gerður að heiðursfélaga í Tónlistarfélagi Akureyrar og hlaut einnig fálkaorðina fyrir störf sín að félagsmálum.

Stefán Ágúst Kristjánsson

Stefán hafði samið nokkur sönglög en hann lék nokkuð á píanó og orgel, auk þess sem hann orti ljóð og komu nokkrar bækur út með ljóðum hans, m.a. hafði hann samið hátíðarljóð í tilefni aldarafmælis Akureyrarbæjar. Lög hans voru stundum flutt í útvarpssal af þekktum einsöngvurum og því voru til fáeinar slíkar upptökur þar þegar afkomendur hugðu á plötuútgáfu með nokkrum laga hans eftir andlát hans og í tilefni af aldarafmæli Stefáns kom út þretta laga plata – Stefán Ágúst Kristjánsson (1897-1988): Sönglög, en þar var að finna þessar upptökur Ríkisútvarpsins auk nokkurra nýrra upptaka úr Fella- og Hólakirkju þar sem Þórunn Guðmundsdóttir söng lög hans við undirleik Jóns Sigurðssonar píanóleikara. Söngvarar á eldri upptökunum voru Þuríður Baldursdóttir, Sigurveig Hjaltested og Guðmundur Jónsson. Platan hlaut þokkalega dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Efni á plötum