Spooky boogie (1996-97)

Spooky boogie

Hljómsveitin Spooky boogie var starfrækt í nokkra mánuði undir lok síðustu aldar en meðlimir sveitarinnar voru allir kunnir fyrir störf sín með ballsveitum sem flestar voru þó á þessum tíma í pásu. Sveitin sendi frá sér eina plötu sem að mestu var skipuð ábreiðulögum af fönk- og diskóættinni.

Spooky boogie kom fyrst fram á sjónarsviðið vorið 1996 eða um það leyti sem ballsveitir voru að vakna til lífsins fyrir sumarið. Sveitina skipuðu þeir Björn Jörundur Friðbjörnsson bassaleikari og söngvari, Tómas Jóhannesson trommuleikari, Richard Scobie söngvari, Sigurður Gröndal gítarleikari, Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari og Stefán Hilmarsson söngvari, einnig var Jens Hansson saxófónleikari viðloðandi sveitina en kom líklega ekki mikið fram með henni opinberlega. Þessi meðlimaskipan var ekki alveg föst og t.a.m. var Stefán nokkuð upptekinn þetta sumar annars vegar með Milljónamæringunum og hins vegar með Sálinni hans Jóns míns sem reyndar Tómas og Jens voru einnig hluti af. James Olsen söngvari kom reyndar einnig við sögu sveitarinnar og síðsumars hafði hann tekið við trommuleiknum af Tómasi og Eiður Alfreðsson tekinn við bassanum af Birni Jörundi.

Sveitin spilaði þó töluvert um sumarið og einkum þó framan af og komu þá iðulega fram klæddir glysbúningum og samfestingum samkvæmt tísku áttunda áratugarins í fönkinu og diskóinu auk þess sem þeir báru afró hárkollur.  Síðsumars kom svo út plata með þeim félögum sem bar titilinn Greatest hits en hún hafði að mestu að geyma cover efni, stórsmelli með Jackson five, Stevie Wonder o.fl. en aukinheldur voru fjögur frumsamin lög á plötunni. Platan fékk þokkalega dóma í DV og Degi, og lagið ABC (upphaflega með Jackson five) naut nokkurra vinsælda í meðförum sveitarinnar.

Spooky boogie starfaði fram á nýtt ár 1997 en hætti störfum fljótlega eftir áramótin.

Efni á plötum