Sigurður Skagfield (1895-1956)

Sigurður Skagfield ungur að árum

Tenórsöngvarinn Sigurður Skagfield er flestum gleymdur í dag enda hefur af einhverjum ástæðum ekki þótt ástæða til að halda nafni hans á lofti með útgáfu safnplatna með úrvali laga hans, sem er undarlegt því Sigurður er sá listamaður hér á landi sem hefur gefið út hvað flestar plötur en hátt í sjötíu 78 snúninga plötur komu út með söng hans á fyrri hluta síðustu aldar. Það var helst plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum sem hefur reynt að halda minningu þessa merka söngvara á lofti með útgáfu þriggja safnplatna í takmörkuðu upplagi en hann yfirfærði tónlistina sjálfur af 78 snúninga plötum yfir á stafrænt form.

Sigurður Sigurðsson (síðar Skagfield) fæddist á bænum Litlu-Seylu (síðar Brautarholti) í Skagafirði sumarið 1895. Hann mun hafa fengið nokkurt tónlistarlegt uppeldi, faðir hans var heilmikill söngmaður og sjálfur var Sigurður ungur farinn að syngja í Víðimýrar- og Glaumbæjarkirkjum, hann var einnig meðal stofnmeðlima Bændakórsins í Skagafirði 1916, sem í fyrstu var kvartett en siðan tvöfaldur kvartett þar sem hann söng fyrsta tenór. Sigurður var snemma þekktur fyrir skap sitt, hann var mikill skapmaður og þegar hann vildi rjúka út í bræði sinni á æfingum Bændakórsins brugðu menn á það ráð að læsa dyrunum.

Sigurður mun hafa hlotið einhverja tilsögn í söng á Akureyri veturinn 1915-16, líklega hjá Sigurgeiri Jónssyni organista en ákvað síðan að láta slag standa og hélt til Danmerkur haustið 1919 til að nema sönglistina. Hann var einn vetur í Kaupmannahöfn, kom aftur heim en fór síðar aftur til Danmerkur og einnig Tékkóslóvakíu þar sem hann var við nám einnig. Sigurður kom fram í fyrsta sinn opinberlega sem einsöngvari á tónleikum á Akureyri árið 1921 en hann var um þetta leyti giftur og átti eftir að eignast tvö börn með eiginkonu sinni áður en þau skildu en hann giftist þrívegis. Honum hugnaðist ekki að gerast bóndi í Skagafirðinum og elti því drauminn um að gerast söngvari.

Sigurður söng inn á fyrstu plöturnar sínar í Kaupmannahöfn árið 1924 og 25 og voru þær gefnar út hér heima af Hljóðfærahúsi Reykjavíkur, líklega hafði Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld eitthvað puttana í þeirri útgáfu því hann samdi flest laganna og lék undir á fjórum plötum af þeim fimm sem þarna komu út (1925) en Helga Bonnén var undirleikari Sigurðar á þeirri fimmtu (sem hafði komið út 1924), hún var einnig undirleikari á tveimur plötum sem komu út 1926 og 27.

Sigurður Skagfield

Árið 1926 hélt Sigurður enn til Þýskalands til söngnáms og hóf svo að starfa þar sem óperusöngvari, hann starfaði við óperuna í Rostock en söng víðar um landið og kom þá einnig fram í þýska ríkisútvarpinu í fyrsta sinn, um það leyti tók hann upp Skagfield nafnið og kallaði sig nú Sigurð Skagfield. Hann kom hingað til lands 1928, hafði þá haft viðkomu í Noregi og sungið þar við góðar undirtektir en hélt einnig fjölmarga tónleika hér heima bæði í Reykjavík og svo fyrir norðan við mikla aðsókn og vinsældir en hann dvaldi hér á landi fram yfir áramótin 1929-30. Sigurður söng árið 1929 við vígslu Landakotskirkju (Kristskirkju) en það vakti þá nokkra athygli að Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar neitaði að selja aðgöngumiða á þá tónleika sem Sigurður söng á því eigendur verslunarinnar höfðu þá frétt að Sigurður hefði tekið kaþólska trú, og það samræmdist ekki rétttrúnaði þeirra.

Sigurður naut mikilla vinsælda á þeim tíma er hann dvaldist hér heima og til marks um vinsældir hans komu út tuttugu og sjö plötur á vegum Hljóðfærahúss Reykjavíkur og Fálkans árið 1928 og 29, nokkrar þeirra voru þriggja laga og marka tímamót í íslenskri útgáfusögu því þetta voru fyrstu þriggja laga plöturnar sem komu út hérlendis.

Útgáfuflóðinu var hvergi nærri lokið þótt Sigurður færi utan til Berlínar í upphafi árs 1930 því hann kom aftur heim um sumarið til að syngja inn á fjölmargar plötur til viðbótar en þá voru staddir hér á landi upptökumenn á vegum Fálkans og Columbia útgáfunnar til að hljóðrita plötur í tilefni af Alþingishátíðinni sem þá stóð fyrir dyrum um sumarið, einnig var Ríkisútvarpið stofnað þetta sama ár og á það eflaust líka þátt í svo mikilli plötuútgáfu en þetta var í fyrsta sinn sem slíkar upptökur fóru fram hér á landi (í Bárubúð) – áður höfðu plötur Sigurðar verið hljóðritaðar erlendis. Alls voru átján plötur hljóðritaðar með Sigurði í þessari lotu og meðal laganna var að finna jólalög, sem voru með fyrstu jólalögunum sem gefin voru út hérlendis. Vinsældir Sigurðar voru þarna mjög miklar og plötur hans úr þessari Alþingishátíðar-upptökutörn seldust best allra.

Sigurður söng á Alþingishátíðinni rétt eins og þorri íslenskra söngvara á þeim tíma og síðar um sumarið hélt hann tónleika bæði í Reykjavík og fyrir norðan en um haustið lá leið hans vestur um haf á Íslendingaslóðir. Svo virðist sem að í fyrstu hafi þetta verið fyrst og fremst hugsað sem nokkurra vikna tónleikaferð en svo fór að Sigurður ílengdist þar um árabil. Fremur fáar heimildir er að finna um Sigurð frá þessum árum, fyrir liggur að hann dvaldist mest í Kanada og söng víða á tónleikum til að byrja með og kom alloft fram sem einsöngvari með kórum. Hann fór m.a. í söngferðalag ásamt Ragnari H. Ragnar undirleikara og Kristjáni Níels Júlíusi Jónssyni (Káinn) um Íslendingaslóðir, söng einnig ásamt hópi þýskra söngvara á vegum umboðsskrifstofu en hann söng eitthvað í útvarpi vestra og fékkst jafnframt eitthvað við söngkennslu. Sagan segir að hann hafi hætt öllum söng um tíma og gengið í Benediktusar-klaustur en snúið þaðan þegar hann fann aftur hjá sér horfna löngun til að syngja fyrir fólk. Árið 1932 komst sú saga á kreik hér heima að hann hefði fyrirfarið sér í Þýskalandi en þær fréttir voru bornar til baka þegar upp komst að hann dveldi ennþá í Ameríku.

Þórbergur Þórðarson, Eggert Stefánsson söngvari, Sigurður og Halldór Laxness í Skotlandi

Sigurður sneri aftur til Evrópu árið 1934 og kom þá um sumarið heim til Íslands, hélt hér tónleika og söng eitthvað í Útvarpinu en fór síðan til Bretlands þar sem hann mun hafa sungið tuttugu og átta lög inn á fjórtán plötur. Reyndar virðast aðeins fjórar þeirra hafa komið út eftir því sem best verður vitað en þær eru hins vegar afar sjaldséðar því þegar upplagið kom hingað til lands á vegum Hljóðfærahúss Reykjavíkur sem hugðist gefa þær út, fékkst ekki gjaldeyrisleyfi fyrir þeim hér í miðju kreppuástandi og því voru þær endursendar til Bretlands. Lengi voru upplýsingar um þessar plötur takmarkaðar en fáein eintök bárust hingað til lands síðar og eru í eigu safnara, plöturnar eru m.ö.o. mjög sjaldgæfir og verðmætir söfnunargripir því allt eins er líklegt að megnið af upplagi platnanna hafi verið fargað á sínum tíma. Um afdrif hinna platnanna tíu sem til stóð að yrðu einnig gefnar út er ekki vitað, hvort þær voru framleiddar eður ei. Lögin átta sem komu út á plötunum fjórum voru flest íslensk en tvö þeirra voru sungin á ensku.

Eftir að hafa hljóðritað plöturnar í Bretlandi um sumarið 1934 kom Sigurður aftur heim til Íslands og dvaldi hér á landi um langt skeið, hann hélt marga tónleika og hélt hér að því er virðist fyrri vinsældum sínum, söng einnig á landsbyggðinni og heiðraði m.a. Þingeyri, Siglufjörð og Akureyri með nærveru sinni en í upphafi árs 1936 fór hann aftur utan. Þá var talað um að hann færi til London og ætlaði að vera þar í nokkrar vikur áður en hann héldi aftur til Ameríku en næst bárust af honum fréttir 1937 þegar hann kom til Íslands en hann hafði þá verið í Þýskalandi um skeið. Það vakti þá nokkra athygli að rödd Sigurðar hafði dýpkað töluvert, hann var ekki lengur hreinn tenór heldur tenór-baritón, jafnvel hreinn baritón.

Sigurður dvaldi ekki lengi heima á Íslandi en hélt þó nokkra tónleika bæði í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri. Þá hélt hann aftur suður til Þýskalands í ársbyrjun 1938 og tók að starfa við óperuna í Oldenburg og söng reyndar víða um Þýskaland, líklega í um 40-50 óperum og skóp sér þar heilmikið nafn. Sigurður var því í Þýskalandi þegar heimsstyrjöldin síðari skall á og þrátt fyrir að einhverjir hefðu fyrir stríð kallað hann nasista í blaðagrein eftir að mynd birtist einhvers staðar af honum í þess konar einkennisbúningi, kom fljótlega í ljós að hann var mikill and-nasisti og lenti hann reyndar í ýmsum hremmingum vegna þess í Þýskalandi. Sigurður var sendur til Noregs sem Þjóðverjar höfðu þá þegar ráðist inn í og söng þar aðallega fyrir Þjóðverja, hann var hins vegar skapmaður sem fyrr segir, lá lítt á skoðunum sínum og lýsti því m.a. yfir að norrænu guðirnir myndu hefna fyrir innrás Þjóðverjanna en var þá handtekinn í fyrsta sinn – eftir það var hann undir eftirliti Þjóðverja.

Sigurður Skagfield

Sigurður starfaði áfram í Þýskalandi, söng við óperuna í Danzig og síðar við óperurnar í Regensburg og Augsburg en var síðan ráðinn til þýsku óperunnar í Osló í Noregi 1943 en undir eftirliti sem fyrr. Þar var honum gert að tala á þýsku við yfirmenn sína en þegar hann neitaði og sagðist myndu tala norsku við Norðmenn lenti hann aftur í vandræðum og var handtekinn, fluttur til Þýskalands og sat í fangelsi um tíma. Það mun hafa verið óperustjórinn við óperuna í Regensburg sem fékk hann lausan að lokum og fékk hann svo að syngja við óperuna þar en þegar öllum óperuhúsum í Þýskalandi var lokað 1944 var hann sendur í vinnu við skotfæraverksmiðju. Sigurður neitaði því og var því handtekinn í þriðja skiptið og settur í fangabúðir sem hann var svo frelsaður úr við lok styrjaldar árið 1945, hann hafði þá misst um 20 kíló í fangelsinu og hafði látið nokkuð á sjá líkamlega.

Sigurður dvaldi í Þýskalandi í nokkurn tíma eftir stríð við kröpp kjör enda var landið þá í sárum sem og Evrópa öll eftir styrjaldarárin, hann kallaði sig nú John Siguard, bjó í Hamborg ásamt sænskri eiginkonu sinni sem var söngkona og héldu þau söngskemmtanir. Það varð þó úr að hann kom heim til Íslands 1948, upphaflega í heimsókn og til að halda tónleika en svo varð úr að hann ákvað að setjast hér að. Hann söng hér á tónleikum um allt, bæði sem einsöngvari en einnig sem einsöngvari með kórum (t.d. Tónlistarfélagskórnum).

En tímarnir voru ekki þeir sömu og áður og Sigurður rakst víða á veggi enda hafði tónlistarumhverfið breyst mikið frá því fyrir stríð, margir nýir tónlistarmenn og erlendir tónlistarsnillingar og -kennarar höfðu komið hingað til starfa og hann auk þess sem mikill skapmaður var nokkuð á skjön við tónlistarelítuna sem þá var við lýði, og fannst hann ekki fá þá virðingu sem honum fannst hann eiga hér inni – var hálf gleymdur. Hann stofnaði óperusöngskóla sem fékk í fyrstu inni í Þjóðleikhúsinu en var síðan úthýst þar vegna plássleysis, þá ritaði hann einnig tónlistargagnrýni í Tímanum og Mánudagsblaðinu sem fékk ekki alltaf í góðan jarðveg og hugnaðist ekki öllum enda var hann sem fyrr óhræddur við að koma skoðunum sínum umbúðarlaust til skila.

Sigurður söng hér áfram eitthvað þótt í minni mæli væri en áður, hann fékk t.d. engin stór hlutverk í óperettu- og óperusýningum sem um þetta leyti voru að fara á svið í fyrsta sinn hérlendis og fannst sér ýtt til hliðar. Hann fékkst þá nokkuð við söngkennslu, bæði við Þjóðleikhúsið og svo með eigin söngskóla og meðal nemenda hans má nefna Jón Sigurbjörnsson, Árna Jónsson og Ólaf Þ. Jónsson. Annað hjónaband hans var um þetta leyti að fara í vaskinn og Sigurður reyndi fyrir sér í Þýskalandi aftur, starfaði þar og í Danmörku í einhvern tíma og söng á tónleikum og óperusýningum en kom aftur heim til Íslands vorið 1954 og gaf þá m.a. út menningartímaritið Listdómarann um skeið.

Framan af árinu 1955 dvaldi Sigurður enn í Þýskalandi en nú til að rita endurminningar sínar og einnig bók um morðið á Guðmundi Kamban (sem hafði verið drepinn við lok styrjaldar í Kaupmannahöfn) en sú bók átti að heita Þér morðingjar. Þessar bækur komu aldrei út en hins vegar sendi hann frá sér kennslubók eða -kver sem bar heitið Söngur og tal.

Sigurður í óperunni Faust

Vorið 1955 var Sigurður á Íslandi en þá hélt hann hér kveðjutónleika, var að flytja til Austur-Þýskalands og ætlaði þar að kenna söng. Hann var enn upp á kant við elítuna hér heima og var ómyrkur í máli í garð tónlistarsamfélagsins í viðtali sem birtist við hann, þar segir hann m.a: Þeir fáu menn, sem eitthvað geta og vilja vel, eru rægðir af fjölskylduhringum, pólitískum hringum og alls konar hringum og þeir mættu hengjast í þessum hringjum allir saman, Smárakóngar, orgelleikarar, stóðhestatemjarar, Stokkseyrarbrimslýður og lúðurþeytarar. Þarna skaut hann fast m.a. á Ragnar í Smára og Pál Ísólfsson.

Sigurður hélt til Þýskalands í kjölfarið en kom svo árið eftir (1956) enn og aftur heim til Íslands, var þá á Ísafirði og kenndi þar söngfólki í Sunnukórnum raddbeitingu og söng, og kom fram með kórnum á tónleikum í kjölfarið en það mun hafa verið í síðasta sinn sem hann söng opinberlega því að um haustið lést hann eftir skammvinn veikindi, æð hafði sprungið við hjartað og þrátt fyrir að menn héldu sig hafa komist fyrir veikindin lést hann stuttu síðar, aðeins sextíu og eins árs að aldri.

Tvær plötur höfðu komið út með söng Sigurðar árið 1945 en upplýsingar um þær eru afar takmarkaðar, einnig eru á skrá nokkrar plötur sem Ríkisútvarpið virðist hafa gert en óvíst er hvort þær útgáfur séu opinberar þó þær beri útgáfunúmer. Tónlist og plötur Sigurðar Skagfield hafa í raun verið ófáanlegar frá því um stríð en þær hafa aldrei verið endurútgefnar á öðru formi s.s. 33 snúninga vínylplötum eða geisladiskum þegar þeir komu til sögunnar – tónlist hans hefur því ekki verið aðgengileg í marga áratugi sem er ótrúlegt því fáir hafa gefið út fleiri plötur á Íslandi en Sigurður. Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum, tónlistaráhugamaður og plötusafnari sá þörfina fyrir slíka útgáfu, yfirfærði nokkuð af tónlist Sigurðar af 78 snúninga plötunum á stafrænt form og „gaf út“ á þremur geisladiskum í takmörkuðu upplagi. Sú útgáfa fór auðvitað ekki hátt enda líklega um ólöglegt athæfi að ræða en það er eina tónlistin sem til er og aðgengileg almenningi, utan fáein lög sem Landsbókasafnið hefur sett á vef sinn. Einnig fékk Sigurjón afritanir af tónlist Sigurjóns hjá Ríkisútvarpinu en ekki er ljóst hvort hann dreifði þeim og seldi eins og plöturnar sem hann sjálfur gaf út. Það er að minnsta kosti löngu tímabært að rétthafar tónlistar Sigurðar Skagfield geri hana aðgengilega almenningi á nýjan leik með tilheyrandi kynningu á söngvaranum.

Örfá lög hafa eftir því sem best verður komist, verið gefin út á safnplötum síðustu árin, annars vegar tvö lög á plötu helgaðri Jóni Leifs tónskáldi (Kompositör i motvind (2002)) sem var vinur Sigurðar, hins vegar eitt lag með tónlist úr kvikmyndinni Hrútar (2015).

Efni á plötum