Afmælisbörn 29. júní 2022

Sigurður Skagfield

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fimm að þessu sinni:

Bryndís Sunna Valdimarsdóttir er fimmtíu og þriggja ára gömul í dag. Bryndís lærði söng og píanóleik, hefur sungið inn á nokkrar plötur og verið í hljómsveitum eins og 8villt og Doríu, og sönghópum eins og Afródítum og Söngsystrum en líka sungið í sýningum eins og Bítlaárunum, sem sett var á svið á Hótel Íslandi. Hún hefur einnig getið sér gott orð fyrir lagasmíðar sínar í ýmsum sönglagakeppnum eins og undankeppni Eurovision, Sæluviku Sauðkræklinga og Ljósanótt.

Trommuleikarinn Óskar Þormarsson er þrjátíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Óskar hefur leikið með ógrynni hljómsveita og hér má nefna sveitir eins og Hagalín, Amused, Þrjá ýkta, Veðurguðina, Oxford og Grjót en hann hefur jafnframt leikið inn á fjölda útgefinna platna sem session trommari.

Píanóleikarinn og hljómsveitastjórinn Aage (Reinhart) Lorange (1907-2000) átti líka afmæli á þessum degi en hann var kunnur tónlistarmaður á árum áður. Hann starfrækti eigin hljómsveitir og lék með öðrum sveitum, lék inn á fjölmargar plötur og var jafnan kallaður jazzkonungurinn. Aage var virkur í starfi sínu langt fram eftir aldri og var enn að fast að níræðu.

Ágúst (Metúsalem) Pétursson (1921-86) átti þennan afmælisdag líka. Hann var kunnur tónlistarmaður, kom upphaflega úr Þistilfirðinum en bjó lengi í Vestmannaeyjum áður en hann fluttist til Reykjavíkur. Ágúst var þekktastur sem harmonikkuleikari og lagahöfundur (plata hefur komið út með lögum hans) en hann lék á fleiri hljóðfæri og var m.a. organisti um tíma. Hann var í ýmsum hljómsveitum s.s. Smárakvartettnum og Hljómatríóinu, og var aukinheldur virkur í félagsstarfi tónlistarmanna eins og Félagi harmonikkuunnenda.

Og að síðustu er hér nefndur tenórsöngvarinn Sigurður Skagfield (1895-1956) en hann átti afmæli á þessum degi. Sigurður sem var bóndasonur að norðan lét drauma sína rætast, fór til Danmerkur og Þýskalands í söngnám og starfaði síðar bæði í Bandaríkjunum og Evrópu við óperu- og sönglistina. Margir tugir platna komu út með söngvaranum en því miður hefur ekki orðið af opinberri safnplötuútgáfu með lögum hans.

Vissir þú að söngvarinn Stefán Hilmarsson lék eitt gigg sem trommuleikari hljómsveitar sem bar nafnið Reðr?