Afmælisbörn 28. júní 2022

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Barnastjarnan og söngkonan Katla María (Gróa) Hausmann er fimmíu og þriggja ára gömul. Margir muna eftir henni í kringum 1980 en um það leyti komu út fjórar plötur með henni. Lög eins og Lítill Mexíkani, Ég fæ jólagjöf, Rúdolf og Prúðuleikararnir urðu feikilega vinsæl og um áratug síðar kom hún aftur fram á sjónarsviðið með Eurovision lagið Sóley sem hún söng ásamt Björgvini Halldórssyni. Katla María starfar enn við tónlist þar sem hún býr á Ítalíu.

Jóhann Gunnar Halldórsson hljóðfæraleikari hafði einnig þennan afmælisdag. Jóhann Gunnar sem var fæddur árið 1928 var saxófón- og harmonikkuleikari og lék með ýmsum hljómsveitum á síðustu öld s.s. Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Jose Riba en einnig rak hann sveit í eigin nafni í Gúttó um tíma um miðja öldina. Jóhann Gunnar lést árið 1996.

Þá er hér nefndur Eyþór Hannesson (1955-2021) en hann lék á hljómborð og fleiri hljóðfæri með fjölmörgum hljómsveitum austur á Héraði, hér má nefna sveitir eins og Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, Adam, Skruggu, Völund, Bergmál, Tríó Valgeirs, Bogga, Slagbrand, Spangólín og Fimm á floti en einnig rak hann sveit í eigin nafni og sendi frá sér sólóefni.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld átti einnig þennan afmælisdag en hann fæddist 1847. Sveinbjörn er auðvitað kunnastur fyrir þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng (Ó guðs vors lands), sem Matthías Jochumsson samdi ljóðið við fyrir þjóðhátíð 1874 í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Sveinbjörn sem starfaði mestmegnis erlendis samdi fjöldann allan af alls kyns tónverkum, m.a. sönglögum, en hann starfaði einnig sem píanóleikari og –kennari. Sveinbjörn lést 1927.

Vissir þú að göngugarpurinn Reynir Pétur Ingvarsson gaf út munnhörpuplötu árið 2020?