Afmælisbörn 27. júní 2022

Gestur Þorgrímsson

Afmælisbörnin í dag eru fjögur talsins og eru þessi:

Hallberg Daði Hallbergsson er þrjátíu og tveggja ára gamall í dag en hann var gítarleikari hljómsveitarinnar Jakobínurínu sem sigraði Músíktilraunir vorið 2005. Jakobínarína fór víða um lönd eftir sigurinn en lítið hefur farið fyrir Hallberg eftir að sveitin hætti störfum í ársbyrjun 2008. Hann hefur þó starfrækt dúettinn Dream central station síðustu árin.

Trommuleikarinn Sveinn Björgvin Larsson á stórafmæli á þessum degi en hann er sjötugur. Sveinn lék hér á árum áður með fjölda þekktra og óþekktra hljómsveita, sveitir eins og Sálin, Trix, Ævintýri, Mods, Flashback, Mávarnir og Bendix eru dæmi um þær en Sveinn er ennþá að spila.

Gestur Þorgrímsson söngvari og skemmtikraftur átti einnig afmæli þennan dag en hann lést 2003. Gestur (f. 1920) var fjölhæfur listamaður, var revíusöngvari, myndlistamaður, rithöfundur, annaðist dagskrárgerð í útvarpi, teiknaði, málaði og skemmti með leik og eftirhermum. Hann söng m.a. revíulagið Á Lækjartorgi sem kom út 1954, og margir muna eftir.

Jón Árnason frá Syðri-Á (1928-2004) hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi. Hann var harmonikkuleikari og kunnur um allt land, hann lék með ýmsum hljómsveitum og undir það síðasta með Landátt en hann gaf einnig út sólóplötuna Kleifaball sem kom út 1984. Jón lék stundum undir hjá Glimmer systrum um miðjan níunda áratuginn.

Vissir þú að eitt sinn starfaði hljómsveit undir nafninu Halim heim?