Katla María (1969-)

Katla María

Katla María í Vikunni

Katla María (Gróa) Hausmann er ein af stærstu barnastjörnum íslenskrar tónlistarsögu, fjórar plötur komu út með henni á sínum tíma og fáeinum árum síðar birtist hún með eftirminnilegt kombakk en þar við sat. Katla María vinnur þó eitthvað enn við tónlist.

Það var í Stundinni okkar fyrir jólin 1978 sem Katla María birtist fyrst en þar söng hún við undirleik hljómsveitarinnar Brunaliðsins, hún var þá aðeins níu ára gömul.

Hvort sem það var frammistaða Kötlu Maríu í sjónvarpinu að þakka eða eitthverju öðru, þá sá Svavar Gests ástæðu til að gefa út plötu með henni ári síðar, um haustið 1979. Sú plata hlaut titilinn Katla María syngur spænsk barnalög, en textana samdi afi hennar, Guðmundur Guðmundarson. Ástæðan fyrir því að spænsk lög urðu fyrir valinu var spænskt faðerni Kötlu Maríu en móðir hennar er íslensk. Á sumrin dvaldi hún langdvölum á Spáni hjá föður sínum en bjó lungann úr árinu hér heima.

Platan sló samstundis í gegn og þá sérstaklega lögin Prúðuleikararnir og Einn tveir þrír. Handbragð Ólafs Gauks var nokkuð áberandi á plötunni en hann útsetti tónlistina, stjórnaði hljómsveit sem lék undir sem og barnakór úr Melaskóla sem söng á plötunni en í þeim kór var að finna nokkra síðar landsþekkta söngvara eins og Önnu Mjöll Ólafsdóttur, Felix Bergsson og Möggu Stínu.

Boltinn var tekinn að rúlla og í kjölfarið var hrært í aðra plötu, að þessu sinni jólaplötu með þekktum jólalögum. Eins og fyrri platan sló þessi í gegn og titillagið Ég fæ jólagjöf er ennþá spilað reglulega í útvarpi og er gjarnan haft með á jólasafnplötum. Ég sá mömmu kyssa jólasvein og Rúdolf með rauða trýnið urðu einnig vinsæl í meðförum söngkonunnar. Sem fyrr var Ólafur Gaukur allt í öllu á plötunni, sem hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu. Það vekur athygli að bæði meðlimir úr Þursaflokknum og Silfurkórnum koma við sögu á plötunni, gegna þar reyndar allmiklu hlutverki.

Katla María2

Katla María á Spáni

Eins og rétt er hægt að ímynda sér seldist platan vel og Svavar Gests hélt tryggð við Kötlu Maríu enda var ferli annarrar barnastjörnu, Rutar Reginalds, að ljúka um þetta leyti og því var pláss fyrir aðra slíka á markaðnum. Enn og aftur fékk Svavar Ólaf Gauk til liðs við sig sem stjórnaði upptökum og hljómsveit auk þess að útsetja norsk lög í þetta skiptið en við þýðingar Óskars Ingimarssonar á ljóðum Alfs Pröysen, eins vinsælasta barnaljóðahöfundar Norðurlandanna á þeim tíma en ljóð hans birtust nú í fyrsta skipti á íslensku.

Platan, Litli Mexíkaninn kom út haustið 1981 og var það þriðja plata Kötlu Maríu á þremur árum, þarna var hún aðeins tólf ára gömul. Platan hlaut góðar undirtektir venju samkvæmt og gáfu gagnrýnendur Morgunblaðsins og barnablaðsins Æskunnar henni góða dóma, hún seldist ennfremur í yfir sex þúsund eintökum.

Fjórða plata Kötlu Maríu kom síðan út ári síðar en þar kvað við nokkuð annan tón, SG-hljómplötur Svavars Gests gáfu út plötuna eins og fyrri plötur hennar en Gunnar Þórðarson hafði nú tekið við yfirumsjóninni af Ólafi Gauki. Gömul og góð barnalög voru nú megin uppistaðan í lagavalinu, Snjókarlinn sem Soffía og Anna Sigga höfðu gert vinsælt áratugum áður, Róbert bangsi, Piparkökusöngurinn og fleiri ámóta lög voru á plötunni en hún var í raun dúettaplata Kötlu Maríu og söngvarans vinsæla Pálma Gunnarssonar. Platan fékk titilinn Katla og Pálmi syngja barnalög.

Karla María var nú þegar hér var komið sögu orðin þrettán ára og unglingsárin framundan. Hún dró sig í hlé frá sviðsljósinu og þegar hún varð sautján ára (1986) fluttist hún til Spánar og hefur ekki búið hérlendis síðar. Hún hafði lítið verið viðloðandi tónlist síðustu árin á undan en í þessu heimalandi föðurfjölskyldu hennar var hún meðal annars í tríóinu Sidi Bel sem gaf líklega út plötu 1989.

Katla María3

Katla María

Það sama ár (1989) birtist Katla María skyndilega aftur á Íslandi þegar hún söng ásamt Björgvini Halldórssyni lagið Sóley eftir Gunnar Þórðarson, í undankeppni Eurovision keppninnar hér heima. Þótt lagið ynni ekki undankeppnina (sigurlagið var Það sem enginn sér e. Valgeir Guðjónsson, í flutningi Daníels Ágústs Haraldssonar) hefur það notið feikilegra vinsælda allt fram á þennan dag, og varð óneitanlega til að endurnýja kynni landsmanna við Kötlu Maríu.

Katla María fór reyndar til síns heima að keppni lokinni og fylgdi þessum óvæntu vinsældum lítt eftir en fjórum árum síðar (1993) söng hún aftur í undankeppni Eurovision-keppninnar þegar hún flutti eigið lag, Samba. Lagið hlaut litla athygli og síðan hefur lítið spurst til Kötlu Maríu á tónlistarsviðinu hér heima.

Frá 1994 hefur Katla María búið á Ítalíu og fyrir fáeinum árum bárust þær fréttir af henni að hún starfaði með ítölsku rokksveitinni Lunainfea.

Kötlu Maríu verður því að öllu óbreyttu hérlendis minnst sem öflugrar barnastjörnu og framlags hennar til undankeppni Eurovision 1989. Lög hennar hafa komið reglulega út á safnplötum hér heima og eftirfarandi eru nokkrir plötutitlar í þeim geiranum: Barnagælur: jólasveinar einn og átta (1996), Hvít jól (1985), Jólaljós (1982), Litla jólaplatan (2002), Eurovision: Iceland’s entries in the ESC – and then some… 1986-2000 (2000), Barnagælur: þegar ég verð stór (1995), Pottþétt barnajól (2001), Á hátíðarvegum: Vinsælustu jólalögin 1970 – 2000 (2000), Barnagælur: söngvar um dýrin (1995), Litlu andarungarnir (1983), Íslensk Pepsi jól (2001), Jólagleði: jólalög barnanna (2000), Skógarjól (2000) og Pottþétt jól 2 (1998).

Efni á plötum