Afmælisbörn 28. júní 2016

Katla María 1989

Katla María

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Barnastjarnan og söngkonan Katla María (Gróa) Hausmann er fjörutíu og sjö ára gömul í dag. Margir muna eftir henni í kringum 1980 en um það leyti komu út fjórar plötur með henni. Lög eins og Lítill Mexíkani, Ég fæ jólagjöf, Rúdolf og Prúðuleikararnir urðu feikilega vinsæl og um áratug síðar kom hún aftur fram á sjónarsviðið með Eurovision lagið Sóley sem hún söng ásamt Björgvini Halldórssyni. Katla María starfar enn við tónlist þar sem hún býr á Ítalíu.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld átti einnig þennan afmælisdag en hann fæddist 1847. Sveinbjörn er auðvitað kunnastur fyrir þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng (Ó guðs vors lands), sem Matthías Jochumsson samdi ljóðið við fyrir þjóðhátíð 1874 í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Sveinbjörn sem starfaði mestmegnis erlendis samdi fjöldann allan af alls kyns tónverkum, m.a. sönglögum, en hann starfaði einnig sem píanóleikari og –kennari. Sveinbjörn lést 1927.