Einu sinni í fyrndinni

Einu sinni í fyrndinni
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Einu sinni í fyrndinni
var kóngur afar klár.
Þið kannist flest við ríki hans
við þjóðelfurnar þrjár.
En hann var drepinn,
já dagsatt, trúið mér..
Á skákborðinu skrikaði
og skóp þar örlög sér

Einu sinni í fyrndinni
var drottning dásamleg,
er daga langa ferðaðist
um sólar silfurveg.
En hún var drepin,
já dagsatt, trúið mér..
Á skákborðinu skrikaði
og skóp þar örlög sér

Einu sinni í fyrndinni
var riddari með rós,
er reið á hvítum fáki.
Hann dáði sérhver drós.
En hann var drepinn,
já dagsatt, trúið mér..
Á skákborðinu skrikaði
og skóp þar örlög sér

Og einu sinni í fyrndinni
var peð svo pínusmátt,
að passa mátti líf sitt
um dag og dimma nátt.
Það sigri eitt gat fagnað
með söng, já trúið mér.
En segir ei af gerðum þess,
því sagan endar hér.

[m.a. á plötunni Vísnavinir – Heyrðu]