Syngjandi hér, syngjandi þar

Syngjandi hér, syngjandi þar
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

viðlag
Syngjandi hér, syngjandi þar,
syngjandi geng ég alls staðar.
Sí og æ – æ og sí,
aldrei fæ ég nóg af því.

Einu sinni ég átti kú,
einu sinni ég átti kú.
Hún sagði’ ekki mö, heldur bú bú bú,
já býsna skrýtin var kýrin sú.

viðlag

Einu sinni átti ég geit,
einu sinni átti ég geit.
Hún fékkst aldrei til að fara á beit
því feimin var hún og undirleit.

viðlag

Ég átti hrút og hann var grár,
ég átti hrút og hann var grár.
Svo skipti’ hann um lit og eftir ár
hann orðinn var næstum því fjólublár.

viðlag

Ég átti líka hund sem oft svaf fast,
ég átti líka hund sem oft svaf fast.
Og þegar rigndi og það var hvasst,
þá fékk hann alltaf gigtarkast.

viðlag

Ég átti klár sem Kappi hét,
ég átti klár sem Kappi hét.
Og ef ég hnakk minn á hann lét,
hann útaf lagðist og stundi’ og grét.

viðlag

Ég átti fugl sem í búri bjó,
ég átti fugl sem í búri bjó.
Hann aldrei söng og aldrei þó
að undir væri leikið á píanó.

viðlag

Ég átti kött sem var klókur og vís,
ég átti kött sem var klókur og vís.
Hann aldrei nennti að eltast við mýs
en át bara kökur og rjómaís.

viðlag

[m.á. plötunni Þrjú á palli og Sólskinskórinn – Ný barnaljóð Jónasar Árnasonar]