Ljótlandsblús

Ljótlandsblús
(Lag / texti: Þorgeir Tryggvason / Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason)

Ég fæddist eins og aðrir frekar krumpuð
en fljótlega ég varð í kinnum rjóð.
Og óþarflega fagursköpuð fyrir mína þjóð
því fegurðin hún þykir ekki góð.

Þegar ég var lítil leit fólk á mig,
lamaðist og að mér bara hló.
Af voðalegri fegurð minni varð því um og ó
úr viðbjóði það næstum datt og dó.

Það eru allir ófríðari en ég
og benda á mig, hei þarna er þessi sæta!
Ég uppsker háð og spott
því útlitið er gott
og allir líta undan sem mér mæta.

Ef ég bara fengi einhver lýti,
óskaplega væri það nú flott.
Rauðflekkótt í framan og með rödd eins og í hrút
rangeyg eða innskeif eða út-.

Nítján loðnar vörtur, nefið brotið
næstum eins og gengið hefði á vegg.
Kartneglur á fingurna og kræklulegan legg,
kúluvömb og skögultönn og skegg.

Það eru allir ófríðari en ég
og benda á mig, hei þarna er þessi sæta!
Ég uppsker háð og spott
því útlitið er gott
og allir líta undan sem mér mæta.

[af plötunni Snæfríður og Stígur – Undarlegt hús: Tónlist úr Stundinni okkar 2006 – 2007]