Silfurtónar [1] (1991-95)

Silfurtónar

Hljómsveitin Silfurtónar vakti á fyrri hluta tíunda áratugarins nokkra athygli og þó nokkrar vinsældir með spilamennsku sinni og svo plötu sem reyndar seldist fremur illa en tvö laga sveitarinnar hafa lifað til þessa dags.

Silfurtónar komu fyrst fram á sjónarsviðið sumarið 1991 þegar sveitin hélt tónleika í Duus húsi undir yfirskriftinni Silfurtónar í 20 ár. Þetta var að sjálfsögðu grín sem þeir félagar héldu til streitu og varð til að blekkja fjölmarga sem stóðu í þeirri trú að sveitin hefði starfað síðan 1971, sent frá sér nokkrar smáskífur, starfað í Danmörku um tíma og svo framvegis, blaðamaður Dags lét t.a.m. blekkjast en aðrir poppskríbentar spiluðu með í gríninu.

Meðlimir sveitarinnar virðast hafa verið fjórir í upphafi en um haustið 1991 var skipan hennar sú að Júlíus Heimir Ólafsson og Magnús Jónsson (síðar leikari og meðlimur Gus Gus) sáu um sönginn og léku eitthvað á gítara einnig, Bjarni Friðrik Jóhannsson lék á trommur, Hlynur Höskuldsson annaðist bassaleik og Árni Kristjánsson (Vonbrigði o.fl.) lék á gítar en hann hafði komið síðastur inn í Silfurtóna.

Silfurtónar á sviði

Silfurtónar vöktu snemma athygli fyrir spilamennsku sína en sveitin keyrði mestmegnis strax á frumsömdu efni sem var mjög fjölbreytilegt og rímaði fullkomlega við „síbreytilega fortíð“ hennar eins og það var orðað í Morgunblaðinu því lögin gátu verið frá ýmsum tímum enda hefðu liðsmenn sveitarinnar fengist við ýmsar tónlistarstefnur á 20 ára starfstíma hennar.

Sumarið 1992 leit fyrsta lag Silfurtóna opinberlega ljós en það var lagið Töfrar sem kom út á safnplötunni Sólargeisli sem Skífan sendi frá sér. Lagið varð strax nokkuð vinsælt og nokkrum vikum síðar kom út tíu laga breiðskífa (geisladiskur og kassetta) með sveitinni, einnig á vegum Skífunnar. Platan bar heitið Skýin eru hlý og þar var Björn Jr. Friðbjörnsson við upptökustjórn auk aðstoðar við útsetningar. Þrátt fyrir vinsældir Töfra seldist platan fremur illa en hún hlaut undantekningarlaust mjög góða dóma poppskríbenta blaða og tímarita, Pressan, Morgunblaðið og Vikan voru þannig öll jákvæð í garð plötunnar en hún var sögð innihalda úrval laga frá ýmsum tímum – eins konar safnplata.

Sveitin hafði spilað nokkuð ört frá byrjun en nánast eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð en mest á Púlsinum. Þeir félagar fylgdu plötunni þannig nokkuð eftir en fóru í smá pásu á nýju ári, þegar hún birtist aftur (í þættinum Á tali með Hemma Gunn) höfðu þær breytingar orðið á skipan sveitarinnar að Birgir Baldursson hafði tekið sæti Bjarna Friðriks við trommusettið en hann hafði áður verið í Sálinni hans Jóns míns sem nú var komin í frí. Þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis að Silfurtónar ætluðu að herja á sveitaballamarkaðinn um sumarið 1993 varð ekkert úr þeim fyrirætlunum en sveitin spilaði þess í stað á höfuðborgarsvæðinu sem fyrr, m.a. á Bílarokk-tónleikum sem haldnir voru á Lækjartorgi.

Silfurtónar

Eftir þessa sumartörn lagðist sveitin í dvala en birtist aftur á nýju ári 1994 og hafði þeim þá bæst liðsstyrkur sem var Kjartan Valdemarsson hljómborðsleikari en hann hafði þá um tíma starfað með Todmobile. Um sumarið 1994 sendu Silfurtónar frá sér tvö lög á safnplötunni Já takk sem Japis gaf út, annað þeirra laga var Tælandi fögur sem varð feikivinsælt og hefur síðan haldi nafni sveitarinnar á lofti og heyrist reglulega leikið á ljósvakamiðlum ásamt Töfrum. Sveitin lék sem fyrr nokkuð mikið á tónleikum og m.a. kom hún fram á Skagarokki, þar sem Eðvarð Lárusson gítarleikari og Skagamaður lék með henni sem gestur.

Um haustið 1994 fór minna fyrir sveitinni en áður og um miðjan vetur fór hún í pásu en birtist á nýjan leik í febrúar 1995, eftir það léku Silfurtónar mun stopulla og í lok árs virðist sveitin leika sitt síðasta gigg. Þá hafði Gus Gus hópurinn orðið til að Magnús varð upptekinn af því verkefni næstu misserin.

Silfurtónar sendu frá sér lag árið 2016 en þar var að líkindum eldra lag sem þá hafði verið fullunnið, sveitin lék ekkert opinberlega í tengslum við það og er því væntanlega hætt störfum. Sem fyrr segir halda Töfrar og Tælandi fögur sögu sveitarinnar nokkuð á lofti, sem er þó mun styttri en margir kynnu að ætla.

Efni á plötum