Six pack latino (1998-2001)

Six pack latino

Hljómsveitin Six pack latino vakti heilmikla athygli rétt fyrir síðustu aldamót með suður-amerískri latino tónlist, og sendi frá sér plötu með slíkri tónlist.

Segja má að rætur sveitarinnar hafi að mestu legið í hljómsveitinni Diabolus in musica sem hafði starfað á áttunda áratugnum en þau Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona, Páll Torfi Önundarson gítarleikari og Tómas R. Einarsson bassaleikari höfðu starfað saman í þeirri sveit. Þegar Guðmundur Thoroddsen píanóleikari sem einnig hafði verið í þeirri sveit, lést 1996 léku þremenningarnir í erfidrykkju hans ásamt fleirum og sá sami kjarni lék svo á sólóplötu Jóhönnu – Flauelsmjúkar hendur (1997) undir nafninu Combó Jóhönnu V. Þórhallsdóttur en þar voru auk þeirra þriggja Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari og Þorbjörn Magnússon ásláttarleikari.

Fimmmenningarnir höfðu hug á að starfa áfram og þegar slagverksleikararnir Kormákur Geirharðsson og Þórdís Claessen bættust í hópinn var Six pack latino fullsköpuð og kom fyrst fram opinberlega undir því nafni í Kaffileikhúsinu haustið 1998.

Six pack latino 1999

Kaffileikhúsið varð eins konar heimavöllur sveitarinnar og þar lék hún langmest, sveitin hafði á takteinum blandaða suður-ameríska tónlist, rúmbu, jive, tangó, sömbu o.fl. og vakti fljótlega athygli fyrir tónlistina og vel var mætt á tónleika sveitarinnar. Sveitin spilaði töluvert um veturinn 1998-99 en minna sumarið eftir, en birtist svo aftur um haustið með plötu í farteskinu. Hún bar titilinn Björt mey & mambó og innihélt fjórtán lög sem bæði voru frumsamin úr smiðju Páls Torfa og Tómasar en einnig erlendir latino-slagarar. Platan hlaut þokkalegar viðtökur gagnrýnenda blaðanna, mjög góða í Morgunblaðinu og ágæta í DV, og lagið Til þín hljómaði töluvert í útvarpi. Þarna hafði Kormákur yfirgefið Six pack latino og árið 2000 urðu ennfremur þær mannabreytingar í sveitinni að Matthías M.D. Hemstock trommuleikari kom í hana í stað Þorbjarnar.

Six pack latino starfaði eitthvað áfram fram á árið 2001, lék þá t.a.m. á Menningarnótt í Reykjavík en hætti svo störfum enda flestir meðlimir sveitarinar þekkt tónlistarfólk sem var hlaðið verkefnum á öðrum sviðum tónlistarinnar. Hluti sveitarinnar kom svo við sögu á sólóplötu Páls Torfa – Timbúktú og tólf önnur, sem kom út árið 2000.

Efni á plötum