Skapti Ólafsson (1927-2017)

Skapti Ólafsson

Skapti Ólafsson var með fyrstu rokksöngvurum Íslands og reyndar fyrstur ásamt Erlu Þorsteins að syngja rokk á plötu  hérlendis en segja má að hann hafi verið sjónarmun á undan Erlu með lag sitt, Syngjum dátt og dönsum. Hann söng nokkur lög inn á plötur á sjötta áratugnum og flest þeirra urðu gríðarlega vinsæl og skipa sér í dag meðal klassískra dægurlaga gullaldartímabilsins, meðal þeirra má nefna Allt á floti, Ó nema ég og Ef að mamma vissi það.

Sveinberg Skapti Ólafsson eins og hann hét fullu nafni var fæddur 1927. Hann átti ekki auðvelda æsku, missti föður sinn aðeins tveggja ára og ólst upp næst yngstur meðal þrettán systkina en á einhvern undraverðan hátt hélt móðir hans barnahópnum saman. Hann ólst að einhverju leyti upp við söng og var m.a. í barnakór Austurbæjarskóla ungur að árum en einnig mun hann hafa lært á gítar af systur sinni, þá lék hann eitthvað á harmonikku og var líkast til sjálflærður á hana en lærði svo á trommur hjá Albert Klahn en hann stjórnaði þá Lúðrasveit Reykjavíkur.

Ekki er alveg ljóst hvenær Skapti hóf að leika á trommur með hljómsveitum, heimildum ber ekki alveg saman um það en ein þeirra segir að hann hafi leikið með sveit sem kölluð var Iðnskólahljómsveitin árið 1942 en þá var hann aðeins fimmtán ára gamall. Önnur heimild segir 1944, sama ár og hann hóf nám í prentiðn en hann lauk sveinsprófi í þeirri grein og síðar meistaraprófi og starfaði lengst af sem prentari eins og margir tónlistarmenn á þeim tíma.

Fyrsta nafngreinda sveitin sem Skapti lék með var Crazy rhythm kvartettinn sem starfaði innan Iðnskólans veturinn 1946-47 og fljótlega eftir það komu þær í röðum á vinsælustu dansstöðunum eins og Vetrargarðinum í Tívolíinu, Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og Tjarnarcafe, þetta voru sveitir eins og Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Jan Morávek, Hljómsveit Jónatans Ólafssonar, Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Hljómsveit Magnúsar Randrup, Hljómsveit Þóris Jónssonar og Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar. Hann byrjaði að syngja með sumum sveitum sínum fljótlega og kom stundum fram með öðrum sveitum einnig sem söngvari s.s. með KK sextett. Skapti var t.a.m. í hljómsveit Carls Billich sem lék undir hjá Josephine Baker þegar hún kom hingað til lands sumarið 1954 og hélt hér tónleika í Austurbæjarbíói.

Skapti um 1950

Sjálfur stofnaði Skapti hljómsveit í eigin nafni líklega árið 1955 og var hún starfandi í nokkur ár, ýmist undir nöfnunum Hljómsveit Skapta Ólafssonar eða Kvartett Skapta Ólafsson og síðar Fimm jafnfljótir en ýmsir söngvarar komu við sögu þeirrar sveitar þótt Skapti tæki sjálfur lagið einnig. Skapti var þarna orðinn nokkuð þekktur dægurlagasöngvari og söng m.a. í danslagakeppnum SKT,  í revíusýningum og á tónleikum þar sem dægurlaga- og rokksöngvarar voru kynntir til sögunnar. Skapti lét sér ekki nægja að leika á trommur og syngja á þessum árum heldur var hann þá líka slagverksleikari í Lúðrasveit Reykjavíkur en með þeirri sveit lék hann á árunum 1949-56.

Skapti var klárlega með fyrstu rokksöngvurum Íslands og sá fyrsti sem söng inn á plötu þrátt fyrir að margir yngri söngvarar væru í þeim hópi en Skapti var þá rétt um þrítugt. Tildrög þess voru þau að í einni af danslagakeppnum SKT (vorið 1956) var lag sem enginn söngvaranna í keppninni hafði áhuga á að syngja svo hann tók það að sér, þetta var lagið Mikið var gaman að því, sem í kjölfarið varð nokkuð vinsælt svo úr varð að Tage Ammendrup hjá Íslenzkum tónum ákvað að gefa út plötur með Skapta. Sex lög voru þá hljóðrituð með söng hans við undirleik Hljómsveita Magnúsar Ingimarssonar og Gunnars Reynis Sveinssonar sumarið 1957 og komu fjögur þeirra út um haustið á tveimur plötum, fyrrnefnt Mikið var gaman að því og Allt á floti á annarri plötunni og Ef að mamma vissi það og Syngjum dátt og dönsum á hinni síðari.

Lögin fjögur slógu öll í gegn og marka tímamót í íslenskri tónlistarsögu að nokkru leyti, poppfræðingar síðari tíma hafa t.a.m. komist að þeirri niðurstöðu að Syngjum dátt og dönsum sé fyrsta íslenska rokklagið en lagið kom út um svipað leyti og annað lag sem hefur gert tilkall til þess sama, Vagg og velta – með Erlu Þorsteins. Lag Skapta mun þó hafa komið út örlítið fyrr. Lagið Allt á floti varð gríðarlega vinsælt og ekki dró úr vinsældum þess að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins komust að því að texti lagsins (sem var eftir Jón Sigurðsson bankamann) bryti í bága við reglur stofnunarinnar um siðgæði, þ.e. hann þótti klámfenginn. Líklega var það síðasta erindi lagsins sem fór svo fyrir brjóstið á útvarpsmönnum en þar segir, eftir að ljóðmælandinn boðar komu sína heim af sjónum til konu sinnar: Þá verður allt á floti alls staðar / ekkert nema hmmm… / hvað get ég annað en hugsað til þín / sem heima bíður mín. Lagið var bannað, platan rispuð til öryggis en platan seldist fyrir vikið mun betur eða í um 5000 eintökum.

Skapti Ólafsson

Vinsældir laganna fjögurra urðu til þess hin lögin tvö (Geimferðin / Ó, nema ég) komu einnig út á plötu snemma árs 1958, og sló síðarnefnda lagið aukinheldur í gegn þannig að segja má að fimm af sex lögum Skapta hafi notið vinsælda og gera reyndar enn því þau hafa öll orðið sígildar fiftís perlur íslenskrar dægurlagasögu og hafa komið út á ógrynni safnplatna í gegnum tíðina. Fjögur fyrstu lögin voru endurútgefin 1958 á 45 snúninga plötum sem þá voru komnar til sögunnar en fyrri plöturnar höfðu komið út á 78 snúninga plötum. Ári síðar (1959) söng Skapti inn á tveggja laga (45 sn.) barnaplötu (Í sveitinni / Konni flautar) með búktalarabrúðunni Konna (Baldri Georgs) sem naut auðvitað hylli yngri kynslóðanna enda barnaefni á plötum af skornum skammti á þeim tímum. Þess má geta að á plötumiðum allra þessara platna og umslögum 45 snúninga platnanna er nafn Skapta ranglega ritað með f-i, þ.e. Skafti Ólafsson.

Árið 1959 hætti Skapti að syngja með danshljómsveitum og varð hann fyrir vikið ekki eins áberandi í íslenskri dægurmenningu í kjölfarið, hann var þó síður en svo hættur í tónlistinni og lék á trommur sem aldrei fyrr. Hann hætti með sína eigin sveit það sama ár og starfaði um tíma í byrjun sjöunda áratugarins með Magnúsi Randrup en eftir það var hann mestmegnis að skemmta með Jóhannesi Péturssyni harmonikkuleikara, þeir voru mikið til tveir einir en einnig mynduðu þeir tríó með mönnum eins og Friðriki Theódórssyni eða jafnvel Ólafi bróður Jóhannesar. Áherslan var hér lögð á árshátíðir, þorrablót og þess konar skemmtanir og t.d. munu þeir hafa farið og leikið fyrir Íslendinga í Bandaríkjunum sjö sinnum en þetta samstarf stóð líklega til ársins 1972 þegar Skapti hóf að einbeita sér að starfi sínu sem prentari en hann setti eigin prentsmiðju á stofn það sama ár í Kópavogi undir nafninu Prentverk Skapta Ólafssonar, hann starfaði einnig um tíma hjá lögreglunni.

Samhliða eigin prentsmiðjurekstri minnkaði Skapti töluvert við sig í tónlistinni, áður hafði hann ekki vílað fyrir sér að leika á dansleikjum að loknum fullum vinnudegi og flestar helgar en á þessum tímapunkti var komið nóg af slíku enda var hann farinn að nálgast fimmtugt í byrjun áttunda áratugarins. Hann lék eitthvað áfram með litlum árshátíðarsveitum en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um það.

Áður eru nefnd störf Skapta sem snúa beinlínis að trommuleik hans og söng með hljómsveitum og á plötum en hann kom að tónlistarlífinu með margs konar öðrum hætti. Þegar Jazzklúbbur Reykjavíkur var settur á laggirnar á fyrri hluta sjötta áratugarins var hann í stjórn þess félags og um það leyti kom hann einnig að útgáfu á litlum heftum með dægurlagatextum sem nutu mikilla vinsælda auk þess sem hann gaf út við annan mann vinsæla kennslubók í gítarleik. Skapti söng einnig með kórum, kom að stofnun Samkórs Kópavogs haustið 1966 og söng með þeim kór um nokkurra ára skeið sem og Pólýfónkórnum en lék um tíma jafnframt á slagverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék reyndar inn á einhverjar plötur með þeirri sveit. Þá kenndi hann á gítar og jafnvel fleiri hljóðfæri á einhverjum tímapunkti þannig að segja má að líf hans hafi snúist mikið til um tónlist þótt hann hafi haft sitt aðalstarf sem prentari og lögregluþjónn lengst af.

Það var svo um miðbik níunda áratugarins sem meira fór að kveða að Skapta á nýjan leik en hann var þá að nálgast sjötugt og þá má segja að síðara blómaskeið hans hafi hafist því hann varð töluvert áberandi á efri árum í tónlist og jafnvel leiklist því hann kom við sögu bæði á sviði og í kvikmyndum. Hann var þó síður en svo hættur að vinna í prentverkinu og starfaði við það líklega fram að áttræðu.

Skapti í kringum 1960

Þegar tónlistarsýningar (Komdu í kvöld o.fl.) komust í tísku á Broadway, Þórscafé og víðar á fyrri hluta níunda áratugarins tók Skapti virkan þátt í þeim sýningum enda var þar verið að heiðra blómaskeið gamla rokksins, hann söng á nokkrum slíkum sýningum og í kjölfarið hóf hann að skemmta eldri borgurum með söng en mest þó á almennum skemmtunum. Hann söng á minningartónleikum um Hauk Morthens, sem gestasöngvari á söngskemmtunum og dansleikjum á skemmtistöðum, afmælistónleikum Önnu Vilhjálms, útgáfutónleikum Ragnars Bjarnasonar, tónleikum umhverfisvina, fór sem skemmtanastjóri fyrir eldri borgara á Kanaríeyjaferðum og þannig mætti áfram lengi telja. Þá kom hann einnig margoft fram í sjónvarpi og útvarpi, og tók þá gjarnan lagið.

Skapti sneri sér aftur að trommuleik þrátt fyrir að hafa lýst því yfir löngu áður að hann væri hættur að tromma en nú var það djassinn sem varð meira áberandi en áður, hann lék með ýmsum þess konar sveitum s.s. Öðlingunum – hljómsveit eldri tónlistarmanna innnan FÍH, Slagbítum sem var slagverkstríó og kom m.a. fram á djasshátíðum RÚREK og víðar.

Söng Skapta mátti nú heyra á nýjan leik á plötum en hann söng inn á fjölmargar plötur á efri árum. Fyrst er hér nefnd hans fyrsta sólóplata en hún kom út haustið 2008 (á áttugasta og öðru aldursári Skapta) en fékk því miður ekki mikla athygli vegna kreppuástands sem þá skall á um svipað leyti. Á þeirri plötu, sem bar einfaldlega titilinn Skapti (með undirtitilinn ásamt Birgi Baldurssyni, Eðvarði Lárussyni, Þórði Högnasyni, Ara Braga Kárasyni) voru níu sígild dægur- og djasslög úr ýmsum áttum en þeirra á meðal var Lou Reed lagið Perfect day sem Skapti hafði flutt í leiksýningunni Ást sem Vesturport hafði sett á svið í Borgarleikhúsinu árið á undan við miklar vinsældir. Platan hlaut þokkalega dóma í Fréttablaðinu. Skapti kom heilmikið fram um þetta leyti og hafði þá m.a. haldið tónleika í Salnum í Kópavogi ásamt gestasöngvurum og hljómsveit Carls Möller.

Skapti og Óðinn Valdimarsson

Og söng Skapta mátti heyra á fleiri plötum í seinni tíð, Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunni) hafði fengið hann til að syngja lag á barnaplötu sinni Abbababb árið 1997, ári síðar söng hann lagið Sleðaferð á jólaplötu Jólakatta – Svöl jól og árið 2002 kom hann við sögu á plötunni Rímnamín ásamt rapparanum Sesar A. Hann söng einnig sigurlag Sjómannalagakeppni Rásar 2 árið 2009, Sófasjómaðurinn við undirleik Sniglabandsins, á plötu Þormars Ingimarssonar – Vegferð (lagið Mínar minningar en í því má heyra beinar skírskotanir í Allt á floti) og svo að síðustu lagið Tveir vinir sem hann söng ásamt frænda sínum Sigga Björns trúbador, árið 2014.

Það má því segja að Skapti hafi skemmt landanum nánast fram í andlátið með söng sínum en hann lést sumarið 2017, rétt tæplega níræður að aldri. Þar með var farinn yfir móðuna miklu söngvarinn sem söng fyrsta rokklag Íslandssögunnar á plötu.

Lög Skapta frá sjötta áratugnum hafa eðlilega komið út á miklum fjölda safnplatna í gegnum tíðina og eru hér nefndar nokkrar slíkar: Bíódagar (1994), Lög frá liðnum árum (1960), Manstu gamla daga (2007), Rokklokkar (1995), Aftur til fortíðar-serían, Óskalög sjómanna (2007), Óskalögin-serían, Síldarævintýrið (1992), 100 íslensk-serían, Stóra bílakassettan-serían, Strákarnir okkar (1994), Það gefur á bátinn (1981), Þrjátíu vinsæl lög 1950-60 (1977) og Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978).

Efni á plötum