Skárren ekkert (1992-)

Skárren ekkert

Skárren ekkert var töluvert þekkt hljómsveit um tíma þótt hún væri ekki beinlínis í vinsældapoppinu, margir sóttust þó eftir að komast á tónleika með sveitinni sem lék fjölbreytta tónlist á borð við kvikmynda- og leikhústónlist, kaffihúsatónlist eða jafnvel bara þjóðlög, íslensk og erlend. Hún er þó líklega þekktust fyrir frumsamda tónlist sína fyrir leikhús og dansverk.

Skárren ekkert (Skárra en ekkert og Skárr‘en ekkert) var stofnuð af skólafélögum innan Menntaskólans í Reykjavík árið 1992 en kom í raun ekkert fram á sjónarsviðið fyrr en sumarið 1993. Þá voru þeir Guðmundur Steingrímsson harmonikkuleikari, Frank Þórir Hall gítarleikari og Eiríkur Þórleifsson kontrabassaleikari meðlimir sveitarinnar en hugsanlega var Kjartan Guðnason trommuleikari meðal upphaflegra meðlima. Sveitin lék mestmegnis instrumental tónlist en áttu þó til að bresta einnig í söng.

Skárren ekkert vakti fljótlega athygli fyrir fjölbreytilega tónlist sína sem kom úr ýmsum ólíkum áttum s.s. kabarett- og kvikmyndatónlist, en upphaflega munu þeir hafa fengist við kvikmyndatónlist úr myndum eins og Godfather o.fl. Tríóið var eins konar götusveit að forminu til, þ.e. höfðu litla umgjörð og yfirbyggingu og gátu því í raun sest niður hvar sem er og leikið tónlist sína sem var að miklu leyti órafmögnuð. Sveitin var því oft ráðin til að leika á hvers kyns kynningum, ljóðatónleikum, kaffihúsum eða bara á götuhornum og vakti hvarvetna, til dæmis lék sveitin víða á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum sumarið 1994. Sem dæmi um fjölbreytileika hennar má nefna að hún kom eitt sinn fram á tónleikum á Rósenberg sem rokksveit og kallaði sig þar SS Ekkert.

Haustið 1994 var komið svo að Skárren ekkert hafði vakið það mikla athygli fyrir framtak sitt að sveitin var fengin til að semja tónlist við leikritið Kirsuberjagarðinn (e. Tsjekhov) á vegum leikhópsins Frú Emilíu en sveitin tók þar þátt í sýningunni sjálfri. Tónlistin og leikritið fékk fínar viðtökur og gefin var út plata með tónlistinni sem fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu. Sveitin lék um það leyti einnig utan leikhússins og meðal annars á dansleikjum en þá var fyrrgreindur Kjartan Guðnason með þeim á trommur, ennfremur kom Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari nokkuð við sögu sveitarinnar um það leyti en varð þó ekki fastur meðlimur hennar.

Eitt leiddi af öðru og orðspor sveitarinnar varð til þess að hún var fengin til að sjá um tónlistina í kvikmyndinni Ein stór fjölskylda (1995) og á plötu með tónlistinni úr þeirri mynd áttu þeir félagar fjögur lög. Skárren ekkert lék mjög víða það árið, mest þó á höfuðborgarsvæðinu og m.a. á nokkrum tónleikum á Hótel Borg með söngvarann og leikarann Ingvar E. Sigurðsson við hljóðnemann, þar lék sveitin reyndar einnig stundum fyrir matargesti.

Skárren ekkert ásamt Unu Sveinbjarnardóttur

Haustið 1995 var Skárren ekkert fengin til að semja tónlistina við leikritið Konur skelfa (e. Hlín Agnarsdóttur) sem Alheimsleikhúsið setti á Litla svið Borgarleikhússins en sveitin kom þó ekki fram á sviði leikhússins heldur var tónlistin leikin af bandi. Þrettán laga plata kom út með tónlistinni úr leikritinu vorið 1996 og á henni voru þeir Kjartan og Ingvar með sveitinni. Ingvar hélt áfram að koma fram með sveitinni og einnig söng Móeiður Júníusdóttir eitthvað með henni.

Veturinn 1996-97 var komið að nýjum þætti í sögu Skárren ekkert en þá fékk sveitin það verkefni að semja tónlist fyrir Íslenska dansflokkinn en það var dansverkið Ein (e. J. Ulrich) sem sett var á svið Borgarleikhússins í febrúar 1997. Í því verkefni komu einnig Kjartan slagverksleikari og Eggert Þorleifsson klarinettuleikari fram með sveitinni og tónlistin varð einnig nokkuð fjölþættari með fleiri hljóðfærum en þar bættust við píanó, marimba og víbrafónn. Sveitin fór svo einnig með Íslenska dansflokknum til Finnlands þar sem verkið var sýnt á danshátíð. Tónlistin var gefin út á plötu um sumarið og hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu

Leikhústónlistin hélt áfram að banka á dyrnar hjá þeim félögum og þeir þremenningar Guðmundur, Eiríkur og Frank gerðu tónlist við leikritið Rommí (e. D.L. Coburns) í nýuppgerðu Iðnó en það var sett á svið á vegum Leikfélags Íslands. Minna fór nú fyrir sveitinni en áður því þeir voru dreifðir víða um lönd en þess í stað fóru þeir nú í fyrsta sinn að semja tónlist sem ekki hafði verið pöntuð fyrirfram af öðrum, þ.e. tónlist sem þeir sjálfir unnu án aðkomu annarra en þeir sendu á milli sín hugmyndir á þessum árdögum Internetsins – þessi nýja tónlistarstefna var töluvert poppaðri en hin leikhússkotna tónlist sem sveitin hafði fram að þessu fengist við. Þeir urðu þó að leggja þau áform í salt þegar þeim baðst beiðni um að gera tónlist við nýtt dansverk, NPK (e. Katrínu Hall) sem setja átti á svið Borgarleikhússins á vegum Íslenska dansflokksins. Það var frumsýnt haustið 1999 og spiluðu Sölvi Blöndal (Quarashi o.fl.) og Una Sveinbjarnardóttir (sem áður hafði komið fram með sveitinni) einnig í verkinu en tónlistin var nú orðin nokkuð rafmagnaðri en áður og hugsanlega spiluðu þar inn í tilraunir þeirra sjálfra með „sína eigin tónlist“. Hrannar Ingimarsson kom einnig við sögu uppfærslunnar og varð í framhaldinu einn meðlima Skárren ekkert en hann hafði áður tekið upp plötuna með dansverkinu Ein. Á plötu sem kom út með tónlistinni við NPK var einnig að finna tónlist Halls Ingólfssonar við dansverkið Maðurinn er alltaf einn (e. Ólöfu Ingólfsdóttur systur Halls) en platan sem bar titilinn Danstónlist samin fyrir Íslenska dansflokkinn fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og varð reyndar á topp tíu lista blaðsins yfir bestu plötur ársins 1999.

Skárren ekkert og Ingvar E. Sigurðsson

Í beinu framhaldi af NPK verkefninu tók við leikritið Stjörnur á morgunhimni (s. A. Galin) á vegum Leikfélags Íslands sem sett var á svið í Iðnó (og Akureyri) en þar voru meðlimir sveitarinnar Guðmundur, Frank, Eiríkur og Hrannar. Og áfram héldu verkefnin að koma til þeirra félaga, Draumur á Jónsmessunótt (e. Shakespeare) sem sett var á svið í Borgarleikhúsinu vorið 2000. Í þeirri uppfærslu léku þeir Guðmundur, Eiríkur og Frank en með þeim einnig Guðmundur Hafsteinsson trompetleikari.

Þegar hér var komið sögu voru þeir Skárren ekkert liðar farnir að vinna áfram með „poppið“ og smám saman hvarf sveitin af sjónarsviðinu, sveitin lék eitthvað 2001 og vorið 2002 gerðu þeir tónlistina við dansverkið Brot (e. Katrínu Ingvadóttur) sem Íslenski dansflokkurinn setti á svið Borgarleikhússins en það varð síðasta leikhús-/dansverkið sem sveitin kom að. Í framhaldinu einbeittu félagarnir sér að nýrri plötu sem þeir voru að gefa út um sama leyti en sveitin fékk nýtt nafn tengt því verkefni – SKE. Sú sveit er skipuð sömu meðlimum en tónlistin er allt öðruvísi og hefur hún gefið út nokkrar plötu undir því nafni.

Þeir félagar voru þó alls ekki hættir að koma fram undir Skárren ekkert nafninu og hafa margsinnis dustað rykið af harmonikkunni og kontrabassanum og leikið kvikmynda-, leikhúss-, kaffihúsa-, dansverka-, þjóðlaga- og alls konar tónlist á skemmtunum og tónleikum, t.a.m. á 30 ára afmæli Borgarleikhússins 2003 og á dansleikjum m.a. í Flatey en þar hefur sveitin til nokkurra ára leikið árlega.

Efni á plötum