Ómar [3] (1991)

Hljómsveit sem bar nafnið Ómar! starfaði innan veggja Menntaskólans í Reykjavík 1991 og sendi þá frá sér lag sem bar heitið Smákvæði um eyrnarbrotið milta og kom út á tveggja laga split-smáskífu (svokallaðri flexiplötu), hitt lag plötunnar var gamli smellurinn Ó ljúfa líf í flutningi Flosa Ólafssonar og Pops. Skífan mun hafa fylgt aðgöngumiða að árshátíð skólans.

Meðlimir Ómars! voru þeir Jónas Sv. Hauksson söngvari, Frank Þórir Hall gítarleikari, Guðmundur Steingrímsson hljómborðsleikari, Eiríkur Þórleifsson bassaleikari og Kjartan Guðnason slagverks- og trommuleikari en einnig sungu bakraddir með sveitinni þær Kristbjörg Kari Sólmundardóttir og Margrét Sigurðardóttir. Kjarni sveitarinnar átti síðar eftir að mynda hljómsveitina Skárren ekkert nokkru síðar.

Smákvæði um eyrnarbrotið milta kom síðar einnig út á plötunni Dagar víns og rósa á vegum Framtíðarinnar, skólafélags MR árið 1993.

Efni á plötum