Skrýplarnir (1979)

Hinn hollenski Vader Abraham / Father Abraham

Allir þekkja strumpana (The Smurfs) og sögurnar um þá en belgíski teiknarinn Peyo (Pierre Culliford) skóp þá á sjötta áratug síðustu aldar, upphaflega sem aukapersónur í teiknimyndasögu um Hinrik og Hagbarð en síðar urðu þeir aðalpersónur í eigin bókum og í kjölfarið fylgdu síðar teiknimyndir, kvikmyndir o.fl.

Hollenski söngvarinn og leikarinn Pierre Kartner (Petrus Antonius Laurentius Kartner) í gervi Vader Abraham (vinsællar persónu sem hafði frá því snemma á áttunda áratugnum sungið og gefið út plötur fyrir börn) hafði sent frá sér smáskífu og síðan breiðskífu í Hollandi árið 1977 þar sem hann tók lagið með The Smurfs og í kjölfarið kom út smáskífa (Smurf song / The Magic Flute Smurf) með honum undir nafninu Father Abraham í Bretlandi og víðar um Evrópu.

Enska útgáfan varð afar vinsæl og varð önnur söluhæsta smáskífa ársins 1978 í Bretlandi (á eftir Boney M), það varð til þess að vekja áhuga á fyrirbærinu hér heima og um vorið 1979 kom út fjögurra laga smáskífa í tólf tommu stærð (sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis) með Skrýplunum eins og þeir voru kallaðir þar sem þeir fluttu þrjú lög eftir Ítalann Piero Barbetti (Kvak kvak / Míó Maó / Sandkassasöngurinn) sem allir krakkar þekktu sem upphafsstef úr teiknimyndum úr safni Ríkissjónvarpsins auk lagsins Litlu andarungarnir en sú útgáfa af laginu hafði heyrst í sjónvarpsþáttaröðinni Undir sama þaki, sem þá hafði verið sýnd í RÚV.

Maðurinn á bak við þessa Skrýpla var enginn annar en Gunnar Þórðarson og útgáfufyrirtæki hans Ýmir gaf plötuna út en reyndar var erfitt að sjá einhver tengsl milli Skrýpla Gunnars og þeirra sem Father Abraham hafði sungið með þar sem engar myndir voru á umslagi plötunnar. Í auglýsingum tengdum útgáfu skífunnar var hún aftur á móti kynnt sem eins konar forsmekkur að breiðskífu sem væntanleg var með Haraldi Sigurðssyni (Halli og Laddi) og Skrýplunum þar sem hann myndi taka lagið með þeim líkt og Father Abraham hafði gert áður. Rétt er þó að benda á að útgáfufyrirtækið Steinar stóð að baki útgáfu þeirrar plötu en Ýmir hafði gefið út smáskífuna, má því giska á að upphaflega hafi smáskífan ekki haft nein tengsl við breiðskífuna en menn svo ákveðið að tengja þær saman. Smáskífan gekk prýðilega og lögin fjögur heyrðust reglulega spiluð í útvarpinu enda höfðu þau áður verið vel þekkt úr sjónvarpsdagskránni.

Haraldur og Skrýplar Brúðubílsins

Breiðskífan Haraldur í Skrýplalandi kom svo út snemmsumars 1979 og sló strax í gegn, mörg laganna urðu gríðarlega vinsæl um sumarið og um fjórum vikum eftir útgáfuna hafði platan selst í um 3000 eintökum. Eins konar Skrýplaæði fór í gang, Skrýpladagurinn var haldinn hátíðlegur, Haraldur og Skrýplarnir komu fram víðs vegar um borg og dreifbýli næstu mánuðina, lögin með þeim voru leikin á diskótekum og skemmtistöðum borgarinnar og tungutak Skrýplanna varð jafnframt mörgum börnum (og fullorðnum reyndar líka) eins konar tískufyrirbrigði. Lög eins og Skrýplasöngurinn, Lenda í stuð, Gosi minn, Dipperdí dei, Skrýplagos og Geta Skrýplar skælt? voru kyrjuð við hvert tækifæri og allt upp í fimm Skrýplalög voru leikin í óskalagaþætti Ríkisútvarpsins Óskalög sjúklinga.

Upplýsingar á umslagi plötunnar voru af skornum skammti og þar eru einungis nefndir þeir Haraldur Sigurðsson og Gunnar Þórðarson, sá síðarnefndi annaðist stjórn upptöku og útsetningar (væntanlega er þar verið að tala um raddsetningar því hljóðfæraleikurinn kom tilbúinn frá Hollandi) en flest laganna voru eftir Pierre Kartner sjálfan – ekki hefur fengist vitneskja um hverjir sungu raddir Skrýplanna á plötunni, Gunnar sjálfur hefur þar verið nefndur til sögunnar en allt eins er líklegt að bróðir Haraldar, Þórhallur (Laddi) Sigurðsson hafi verið þar á ferð, alltént var hann allt í öllu þegar platan var endurútgefin árið 1995 undir titlinum Halli og Laddi í Strumpalandi. Laddi var þá orðinn þekktur fyrir að túlka alla Strumpana í samnefndum teiknimyndum á Stöð 2.

Á meðan verið var að undirbúa útgáfu plötunnar um Harald í Skrýplalandi á vegum Steina var bókaútgáfan Iðunn að undirbúa útgáfu teiknimyndasagna um þá undir nafninu Strumparnir, eðlilega vissu menn ekki af verkefni hins aðilans þar sem útgáfuréttur tónlistarinnar var í Hollandi en bókanna í Belgíu og því höfðu hvorugur aðilanna haft veður af hinum, og m.a.s. höfðu þeir Steinars-menn ekki fyrir því að útvega myndir frá Belgíu til að skreyta plötuumslagið heldur fengu þeir listamanninn Pétur Halldórsson til að hanna umslagið, svo Skrýplarnir / Strumparnir virðast hálf undarlegir í meðförum hans enda stíll hans gjörólíkur hins belgíska Peyo. Það var ekki fyrr en rétt áður en platan kom út að í ljós kom að fyrirhuguð var útgáfa tveggja Strumpabóka (sem þá voru farnar í prentun) og því engin leið að hætta við þær, það er því auðvelt að ímynda sér að þeim Iðunnar-mönnum hafi brugðið þegar þeir heyrðu um Skrýplana – áður en plötuumslagið fór í prentun hugkvæmdist Steinars-mönnum þó (væntanlega í samráði við Iðunn) að nefna á bakhlið þess að um haustið myndu koma út myndasögur þar sem Strumpanafnið yrði ofan á.

Skrýplarnir / Strumparnir í meðförum Péturs Halldórssonar

Þetta ósamræmi í nafngiftinni varð ekki til að trufla nokkurt mannsbarn og fljótlega vissu allir að Skrýplar og Strumpar væru sömu fígúrurnar enda hófu bæði Morgunblaðið og Dagblaðið fljótlega að birta myndasögur undir Strumpa-nafninu og Gamla bíó hóf sýningar á Strumpa-teiknimynd, þá var haldið Skrýplaball í Hollywodd fyrir börnin, límmiðar og plastfígúrur voru seldar á bensínstöðvum og m.a.s. komu Skrýplarnir í heimsókn á opið hús sjálfstæðismanna í Valhöll.  Strumpabækurnar tvær komu svo út á vegum Iðunnar snemma um haustið og tveimur mánuðum síðar höfðu þrjár til viðbótar komið út, allt þetta er auðvitað til marks um vinsældir Skrýplanna / Strumpanna árið 1979. Í uppgjöri Vísis um áramótin kom í ljós að platan um Harald í Skrýplalandi hafði verið í 24 vikur á topp tíu sölulista ársins, lengst allra íslenskra platna.

Ekki voru allir jafn hrifnir af framlagi Skrýplanna / Strumpanna og sérstaklega var blaðamönnum Þjóðviljans uppsigað við þá og í grein sem birtist um haustið í blaðinu voru þeir harðlega gagnrýndir fyrir “botnlausa kvenfyrirlitningu”, þar var einnig ritað um “óskaplegt vesen sem upphefst þegar kvenstrumpur ryðst inn í friðsama karlaveröld” í umfjöllun um bókina um Strympu.

Skrýplanafnið vék smám saman (eðlilega) fyrir Strumpunum enda héldu bækurnar áfram að koma út við miklar vinsældir, fáeinir voru þó til að halda nafni Skrýpla á lofti og t.d. hafði Sigríður Hannesdóttir samið “skrýplatexta” við nokkur lög sem flutt voru á vegum Brúðubílsins í Stundinni okkar um haustið en það var svo endursýnt í fáein skipti, á sýningum Brúðubílsins sumarið á eftir (1980) var enn notast við Skrýplana enda sáu þær Brúðubílsdömur ekki ástæðu til að breyta textunum. Skrýplanafnið er því hvergi að finna í dag nema á velktum plötuumslögum nytjamarkaða og hillum plötusafnara.

Nokkrum árum síðar birtust Strumparnir á jólaplötu og nutu töluverðra vinsælda enda voru nokkrar plötur gefnar út með þeim í kjölfarið, þeim er gerð skil í sér umfjöllun og koma þeir Gunnar Þórðarson og Haraldur Sigurðsson þar hvergi nærri nærri.

Efni á plötum